top of page

Á erfitt með að lýsa þakklæti sínu í orðum



Fyrir rúmum tveimur árum fékk Sindri Fannar Ragnarsson tækifæri til að snúa lífi sínu við. Þá gekk hann inn í Hlaðgerðarkot staðráðinn í að taka þátt í meðferðinni þar af fullri einurð. Hann hefur verið edrú síðan og ætlar í ár að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og rústa þessum 42,2 km sem heilt maraþon er.

 

Hvers vegna varð Samhjálp fyrir valinu þegar þú ákvaðst að styrkja góðgerðafélag með því að hlaupa heilt maraþon?

„Ég sótti meðferð í Hlaðgerðarkoti árið 2022 og þar var tekið vel á móti mér,“ segir hann. „Ég fékk að vinna í mínum málum þar inni með ótrúlegri hjálp frá öllu fólkinu sem starfar þar. Ég var þar í fjóra mánuði og fór svo á Brú, áfangaheimili sem Samhjálp hélt þá úti. Ég var á Brú í heilt ár og er ennþá edrú. Þegar ég ákvað að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu kom ekkert annað til greina en að styrkja Samhjálp, samtök sem ég er svo þakklátur fyrir að það er erfitt að lýsa því með orðum.“

 

Hvernig tilfinning er það að gefa til baka á þennan hátt?

„Það er æðisleg tilfinning og eitt af því sem ég brenn fyrir í dag er að hjálpa öðrum. En það er sérstaklega sætt að geta styrkt þetta öfluga starf sem Samhjálp vinnur í samfélaginu.“

 

Ertu búinn að hlaupa lengi? „Ég byrjaði fyrst að hlaupa fyrir fimm árum tók mér síðan pásu í nokkurn tíma. Byrjaði svo aftur að aðeins að hlaupa á þessu ári en svo ákvað ég að taka þátt og hlaupa heilt maraþon og nú eru búnar að vera stífar æfingar í þrjá mánuði,“ segir Sindri Fannar en hann er bjartsýnn á að allar æfingarnar muni skila sér þegar á hólminn er komið.

 

Hefur þú áður hlaupið heilt maraþon? „Nei, ég hef tvisvar hlaupið hálft maraþon og fannst vera kominn tími á alvöru áskorun þannig ég ákvað að skrá mig í heilt.“

 

Hver eru svo næstu skref þegar þú verður búinn að klára þetta hlaup? „Ég mun eflaust halda áfram að hlaupa í einhvern tíma og vonandi geta endurtekið leikinn á næsta ári. En annars er mikið að gerast í lífinu og ég á von á mínu fyrsta barni í byrjun nóvember þannig að tímanum verður fyrst og fremst varið í faðmi fjölskyldunnar,“ segir hann að lokum og við hvetjum alla til að sýna þessum öfluga unga manni stuðning og hvetja hann áfram. Hér er hægt að heita á Sindra Fannar: https://www.hlaupastyrkur.is/hlaupastyrkur/hlauparar/12979-sindri-fannar-ragnarsson

 

Comments


bottom of page