Ali Ahmad er einn af fjölmörgum Afgönum sem lögðu á flótta þegar talíbanar náðu völdum í heimalandi hans. Hann þurfti að aðlagast algjörlega nýjum aðstæðum, hafa nýtt landslag fyrir augum og kortleggja nýjar lendur í huganum því eins og Stephan G. Stephansson orti þá bera hugur og hjarta jafnan manns heimalands mót þótt hann langförull leggi sérhvert land undir fót. Persónuleiki hans og viðhorf eru hins vegar óbreytt og þrátt fyrir að vera kominn á níræðisaldur getur Ali ekki hugsað sér annað en að gera gagn. Hann stendur vaktina alla virka daga í Kaffistofu Samhjálpar.
Má bjóða þér að kynna þig?
„Hvað ætti ég svo sem að segja?“ Spyr Ali.
Þú gætir til dæmis sagt okkur nafn þitt og fjölskyldustöðu.
„Nafn mitt er Ali Ahmad og ég er áttatíu og þriggja ára gamall. Konan mín heitir Zahra og einn sona minna heitir Mir Ahmad, annar Khodadad og sá þriðji Reza.“
Svo þú átt þrjá syni en hversu mörg barnabörn áttu?
„Ég á fjórtán.“
Er öll fjölskylda þín hér á Íslandi?
„Já, þau eru öll hér.“
Hversu lengi hefur þú búið á Íslandi?
„Það verða átta ár nú um jólin.“
Hvað varð til þess að þú kaust að koma til Íslands?
„Við komum hingað vegna talíbananna. Rauði krossinn hjálpaði okkur og flutti okkur hingað.“
Hvernig var ástandið í Afganistan þegar þið lögðuð á flótta?
„Talíbanarnir ógnuðu öryggi okkar og líf okkar var í hættu.“
Við hvað starfaðir þú í heimalandinu?
„Ég var matreiðslumeistari á veitingastað og vann við það í fimmtíu ár.“
Hvernig kom það til að þú gerðist sjálfboðaliði á Kaffistofu Samhjálpar?
„Ég kom hingað vegna þess að ég fæ borgað úr lífeyrissjóði en ef ég er ekki í vinnu yrði ég hreinlega veikur.“
Og það hjálpar að þetta er svipað starf og þú vannst í Afganistan?
„Já, það er gott,“ segir hann.
Hversu lengi hefur þú unnið fyrir Kaffistofuna og hvernig líkar þér að vinna þar?
„Ég vann fyrst í tvö ár með Sædísi en svo fór hún. Þá vann ég með Jónu í eitt ár og svo hef ég verið að vinna með Rósý í þrjú ár.“
Svo í allt eru þetta um sex ár sem þú hefur staðið vaktina á Kaffistofunni.
„Já, það hljómar nokkuð rétt.“
Líkar þér vel í vinnunni?
„Ó, já, ég kem hér daglega og hef myndað vináttusambönd við alla. Ég á í samskiptum við fólk og finnst virkilega gaman.“
Hvernig hefur þér gengið að aðlagast íslensku samfélagi?
„Mér líka vel hér. Þetta er gott land, mjög öruggt og allt er gott,“ segir Ali.
Myndir þú vilja vera áfram hér á landi í framtíðinni og sjá líf þitt þróast hér?
„Já, ég myndi vilja vera hér. Barnabörnin mín eru í námi og eiga gott líf.“
Áttu einhver skilaboð eða góð ráð til Íslendinga um hvernig við getum tekið betur á móti fólki?
„Ja, þeir eru nokkuð almennilegir og koma vel fram við mig. Ég kann ekki mikið í tungumálinu en síðan ég byrjaði að vinna hér hef ég lært orð, mest heiti á mat. En þegar einhver spyr mig hvar eitthvað sé get ég fundið út úr því og rétt þeim. Ég get hins vegar ekki talað mikið.“
Ali var spurður hvort hann vildi bæta einhverju við en hann kvað nei við því en brosti og kinkaði kolli áður en hann sneri sér aftur að pottunum því starfið bíður ekki eftir neinum. Þessi síungi dugnaðarforkur hefur sennilega fært fleirum en unnt er að telja mat á diski um ævina. Hann mætir öllum með sömu virðingu og yfirvegun og sendir engan svangan frá sér.
Comments