top of page

Áfengi er eitur

Í áfengum drykkjum er eiturefnið ethanól. Það er vatnsuppleysanlegt og smýgur því inn í öll líffærakerfi líkamans og veldur þar skaða. Áfengi er krabbameinsvaldur, er veigamikill orsakaþáttur í myndun sjö tegunda krabbameins og það hefur áhrif á meltingarveginn, hjarta og æðakerfi, skaðar heilann og taugakerfið. Er nokkuð undarlegt að heilbrigðisfagfólk og vísindamenn fullyrði að væri ethanól fyrst nú að koma fram á sjónarsviðið yrði það umsvifalaust bannað.

Þetta er meðal upplýsinga sem fram komu á ráðstefnu á vegum heilbrigðisyfirvalda, Alcohol and Public Health in the Nordics á Grand Hótel þann 19. september síðastliðinn. Árlega deyr um ein milljón manna í Evrópu af afleiddum sjúkdómum af völdum drykkju. Rúmur helmingur þeirra hefur ekki náð sextugsaldri og áfengi er helsti orsakavaldur í ótímabærum dauðsföllum fólks innan við þrítugt. Meðan á COVID-19 faraldrinum stóð minnkaði drykkja um alla Evrópu en jókst aftur eftir að samkomutakmörkunum og öðrum hömlum var aflétt.


Aukning greindra krabbameinstilfella í Evrópusambandinu má rekja beint til aukinnar neyslu áfengis. Þar er sérstakt átak í gangi til að draga úr m.a. sú hugmynd að merkja flöskur með varúðarmiðum eins og gert var með sígarettupakka. Fræða og auka meðvitund almennings um hætturnar og hvetja til leitar svo hægt sé að grípa inn í fyrr og stöðva framrás krabbameinsins. Áfengi er orsakavaldur í myndun margra tegunda krabbameina meðal annars:

  • Brjóstakrabbamein

  • Barkakrabbamein

  • Munnholskrabbamein

  • Lifrarkrabbamein

  • Briskrabbamein

  • Ristilskrabbamein

  • Vélindakrabbamein

Engin venjuleg neysluvara

Ekki margir Íslendingar vita hversu gríðarlega krabbameinsvaldandi áfengi er. Samkvæmt könnun vissu aðeins um 25% aðspurðra að áfengi væri krabbameinsvaldandi og þá aðeins um hluta þeirra krabbameina sem alkóhól hefur áhrif á.

Alkóhól er engin venjuleg neysluvara og þess vegna ber að setja sérstakar reglur um meðferð og sölu þess. Hingað til hafa íslensk stjórnvöld kosið að takmarka aðgengi að áfengi með einkasölu, með að skattleggja það hátt og setja aldurstakmörk um hverjir megi kaupa. Hér á landi hafa áfengisauglýsingar einnig verið bannaðar þótt borið hafi á að farið sé í kringum þær reglur. Bindindishreyfingin var mjög virk og öflug hér á fyrri hluta síðustu aldar og þá tókst að draga mjög úr hversu sjálfsögð áfengisneysla þótti. Meðal annars má nefna að víða tíðkaðist að bjóða upp á áfengi í fermingarveislum og það var jafnan með í för á ferðalögum. Þetta yfirfærðist á utanlandsferðir þegar þær hófust en nú orðið hefur þetta breyst umtalsvert. Menn gera sér orðið grein fyrir að áfengi á ekki alltaf við alls staðar og hegða sér samkvæmt því. Margir Íslendingar eru meðvitaðir um þær forvarnir sem fólgnar eru í áfengislögum hér á landi og vilja ekki breyta þeim enda hefur verið sýnt fram á með óyggjandi tölum og rannsóknum að þar sem frelsið er meira er áfengisbölið verra.

Krónískir sjúkdómar aukast í kjölfar drykkju. Þar á meðal eru berklar, HIV-smit, AIDS, kynsjúkdómar, krónískar sýkingar, krabbamein, lifrarsjúkdómar og hjartasjúkdómar. 4% allra dauðsfalla í heiminum má rekja til drykkjutengdra sjúkdóma og 52,6% þessa hóps deyr fyrir sextugt. 2,6 milljónir manna á heimsvísu. Til samanburðar má nefna að tóbaksneyslutengd dauðsföll verða flest eftir sjötugt. Alkóhól leiðir vagninn þegar skoðuð eru ótímabær dauðsföll fyrir þrítugt, illkynja æxli, sykursýki, meltingarsjúkdómar, slys og áverkar og fatlanr. Í Vestur-Evrópu er skaðinn minnstur en þar er heilbrigðiskerfið best og því brugðist við og sjúklingar studdir.

Fósturskaði af völdum alkóhóls

Á hverju ári hverfur af vinnumarkaði fólk á besta aldri og við missum 26 milljón vinnuár vegna þess að þetta fólk glímir við fatlanir og króníska sjúkdóma af völdum drykkju. 80,3% veikist fyrir sextugt. DALY er mælikvarði er sýnir samanlögð ár sem tapast vegna ótímabærra dauðsfalla af þeim eru 116 vegna alkóhóls. Í Eystrasaltslöndunum hefur sú tala farið lækkandi eftir að þeir gripu til aðgengishamlandi aðgerða og fleiri forvarna. Hið sama á við í Rússlandi.

13% allra umferðarslysa má rekja til ölvunaraksturs. 50%-80% morða má rekja til áfengisneyslu. 25% barnadauða vegna vanrækslu er af völdum drykkju. 15-45% innlagna á sjúkrahús vegna ofbeldis má rekja til áfengisneyslu. Kostnaður vegna þessa hár. Alkóhól veldur fósturskaða og talið að 7,7 af hverjum 1000 börnum glími við slíkan skaða vegna drykkju móður á meðgöngu. Hluti þeirra er með FAS, Fetal Alcohol Syndrome sem hefur áhrif á greind, hreyfigetu, einbeitingarhæfni, stjórn á skapsmunum og fleira. Þetta kostar allar þjóðir mjög mikið því þessi börn eiga erfitt uppdráttar í skólakerfinu og eru í félagslegum áhættuhópum. Hingað til hefur þessi vandi verið mjög vangreindur og börnin fá því ekki þann stuðning sem þau þurfa. Hafi einhver efast um skaðsemi alkóhóls eða þá staðreynd að alkóhól er eitur ætti að nægja að kynna sér þær rannsóknir og það efni sem vísindamenn fluttu á ráðstefnunni Alcohol and Public Health in the Nordics.

Comentários


bottom of page