top of page

Áfengi flæðir inn í hverja frumu



Á ráðstefnu Náum áttum, Ungmenni og vímuefnaneysla kom fram að mjög mikilvægt er að fresta sem lengst þeirri stund er unglingar taka fyrsta sopann af áfengi. Unglingar eru fljótari að finna áfengisáhrif, verða fljótar ofurölvi og fara í black out eða óminnisástand. Áfengi hefur einnig mikil áhrif á heilann og áfengisneysla meðan hann er enn að þroskast getur valdið varanlegum skemmdum.


Áfengi hefur áhrif á drekasvæðið eða svæðið sem stjórnar minni og hvötum, á framheilann þar sem tilfinningastjórnun og persónuleikinn mótast og litla heilann eða frumstæðasta hluta heilans. Vegna áhrifanna á drekasvæðið minnkar námshæfni þeirra sem neyta áfengis, minnið verður verra, athygli minnkar og breyting getur orðið á uppbyggingu og taugatenginga innan heilans.


Áfengisneysla er aldrei saklaus. Áfengi flæðir í allar frumur og því meiri sem áfengisdrykkja er því meira eiturefni safnast upp í frumunum m.a. í heila og það tekur tíma að losa sig við ethanól sem er virka efnið í áfengi. Það tekur líkamann langan tíma að brjóta það niður og hreinsa það út. Áfengi hefur líka áhrif á boðefnaframleiðslu heilans og vellíðunarboðefni skortir og einstaklingur getur þá þróað með sér þunglyndi. Heilinn er ekki fullþroskaður fyrr en manneskja er 25 ára. Þær breytingar sem verða á strúktúr heilans vegna áfengisneyslu geta verið varanlegar og flýtt fyrir öldrun heilans. Einstaklingur sem býr við þær skemmdir þarf að leggja sig meira fram til að ná árangri. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur sem samfélag að leitast við að draga eins lengi og hægt er að unglingar hefji neyslu. Nú þegar sífellt auðveldara er að nálgast áfengi á öllum tímum er mikilvægt að vera meðvitaður um skaðann og hver og einn vinni að því að byggja upp sjálfstraust, sjálfsmynd og sjálfsvirðingu ungmenna vegna þess að því sterkari sem þessir þættir eru þess líklegra er að einstaklingurinn láti vímuefni vera. Hver og einn getur lagt sitt af mörkum í þeim hlutverkum sem hann gegnir í lífi ungs fólks, foreldrar, kennarar, tómstundafulltrúar, þjálfarar og aðrir geta lagt hér hönd á plóg.



 

コメント


bottom of page