top of page

Áfengi veldur vanlíðan

Ethanól er virka eiturefnið í alkóhóli og það hefur áhrif á heilann. Á fræðimáli heitir það psychoactive. Jürgen Rehm flutti fyrirlestur á ráðstefnunni Alcohol and Public Health in the Nordics en hann hefur um árabil skoðað áhrif þess á hugsun, dómgreind, hreyfigetu og taugakerfi.


Dr. Rehm hefur áhyggjur af aukinni drykkju í Evrópu eftir Covid og segir þegar ljóst að markmið WHO um 10% minnkun drykkju náist ekki en það markmið átti að nást fyrir lok árs 2025. Covid 19 varð til þess að drykkja á hreinu alkóhóli minnkaði um 10% meðan á einangrun og samkomutakmörkum stóð en jókst verulega eftir að þeim létti og Dr. Rehm telur að aukningin í Evrópu tengist meðal annars tilkomu netsölu á áfengi. Hann býr í Kanada og segir að þar sé áhyggjuefni hve mjög veitinghúsum með vínveitingaleyfi hafi fjölgað og nú er þeim leyft að selja vín með take away mat og heimsendingum. Í Kanada hefur neysla á hreinu alkóhóli aukist um 15,3%. Karlmenn drekka mun meira en konur og meðal þeirra eykst drykkjan enn meira.


Alkóhól er örvandi í fyrstu og skapar vellíðan en þau áhrif eru fljót að fjara út. Innan heilbrigðisvísindanna er það skilgreint sem þunglyndisvaldur. Við tekur pirringur, reiði eða sorg. Oft er stutt í að erfiðar tilfinningar leiti upp á yfirborðið og vegna þess að áfengi ýtir undir hvatvísi taka menn iðulega vanhugsaðar ákvarðanir í kjölfarið. Ethanól, virka efnið í áfengi, hefur áhrif á miðtaugakerfið og hægir á heilastarfseminni. Þess vegna hefur það einnig áhrif á hreyfigetu og getu manna til að tjá sig.Tæming boðefna


Alkóhól örvar framleiðslu vellíðunarboðefna í líkamanum þegar fyrstu áhrifa verður vart en það eru takmörk fyrir því hversu lengi innkirtlarnir geta haldið því upp og þá verður svokölluð tæming (depletion). Heilinn reiðir sig á boðefnaframleiðslu innkirtlanna til að stjórna skapi og líðan fólks. Þegar tæming hefur orðið þarfnast kerfið hvíldar og óhjákvæmilega fylgir niðursveifla. Því meiri sem neyslan er því verri er niðursveiflan. Alkóhól virkar slakandi til að byrja með og margir nota það til að slá á streitu, kvíða og vanlíðan. Það losar um hömlur, feimni hverfur og mönnum finnst þeir geta allt. Þessi áhrif vara hins vegar ekki lengi.


Timburmönnum sem eru óhjákvæmileg afleiðing drykkju fylgir oft eftirsjá, aukinn kvíði og þunglyndi. Það eru líkamleg viðbrögð við offramleiðslu boðefna deginum áður. Áfengisneysla hefur áhrif á svefnmynstur og líkamsklukkuna en svenleysið eykur síðan enn á almenna vanlíðan. Langvarandi áfengisneyslu fylgir framkvæmdaleysi, orkleysi og tilhneiging til að draga sig í hlé frá fjölskyldu, vinum og þeim athöfnum sem áður veittu ánægju.


Þegar menn eru orðnir líkamlega háðir áfengi er andleg heilsa þeirra í mikilli hættu og rannsóknir hafa sýnt að áfengið eykur þunglyndi, kvíða og magnar upp einmanakennd og ofsóknartilfinningu. Þegar sjúkdómurinn er kominn á hættulegt stig geta menn upplifað ofskynjanir og misst tengsl við raunveruleikann. Það er sorgleg staðreynd í ljósi þessa að margir leita í áfengi til að bæta líðan sína. Gamalt máltæki segir: Það er skammgóður vermir að pissa í skóinn sinn og það mætti yfirfæra á áfengisneyslu. Hún veitir skammgóðan vermi en ómældan skaða til lengri tíma litið.Comments


bottom of page