top of page

Áhættudrykkja unglinga eykst
Nýlega kom Kári Sigurðsson verkefnastjóri forvarna hjá Reykjavíkurborg fram í fjölmiðlum og lýsti áhyggjum sínum af aukinni neyslu áfengis hjá unglingum. Hann sagði hópamyndun þeirra við verslanakjarna hafa aukist og þess dæmi að börn hafi fundist meðvitundarlaus af landadrykkju. Þetta er sannarlega slæm þróun og mikilvægt að bregðast við strax.

 

Ekki er langt síðan gert var forvarnarátak í því skyni að minnka drykkju meðal unglinga og með samstilltum aðgerðum, yfirvalda, foreldra og skóla tókst að nánast að útrýma henni undir sautján ára aldri. Þetta var mikil viðsnúningur en algengt var að börn byrjuðu að smakka áfengi fjórtán ára en eftir átakið færðist meðalaldurinn upp í sextán til sautján ár. Það munar mikið um hvert ár á þessu æviskeiði því heilinn er óþroskaður og áfengisneysla því sérlega skaðleg. Árangur Íslendinga í þessum efnum vakti einnig athygli erlendis og vísað til þeirra aðgerða sem gripið var til sem íslensku leiðarinnar og víða tóku menn þær upp og notuðu til að bregðast við sama vanda hjá sér.

 

Ýmsir vilja tengja þetta við minna höft á markaðssetningu áfengis og tóbaks. Í þeim hópi er Meðal þeirra er Valgerður Rúnarsdóttir læknir og forstjóri Sjúkrahússins Vogs. Í viðtali við Morgunblaðið 26. október 2023 viðrar hún áhyggjur sínar og talar um aukna notkun ungmenna á nikótínpúðum og bendir á að aðgengi að nikótínpúðum sé nánast óheft. Hún segir einnig: ,,Svo hefur almennt viðhorf til áfengisdrykkju, til áfengra drykkja, hvenær er ,,í lagi“ að drekka og hvar, mikil áhrif á neyslu. Ef efnið er ekki álitið skaðlegt má einnig búast við aukinni drykkju. Aðgengi hefur aukist í samfélaginu og enn bætir í það. Það eykur neyslu, gerir hana meinleysislegri og það hefur líka áhrif á unga fólkið í samfélaginu, beint og óbeint.“

 

Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að forvarnir skila árangri á löngum tíma en ef slakað er á er sá árangur fljótur að hverfa. Nú er verið að móta nýja stefnu í áfengis- og vímuvarnamálum á vegum Heilbrigðisráðuneytisins og tekur Samhjálp þátt í þeirri vinnu. Meðal þess sem mikilvægt er að koma inn á er einmitt aðgengi, markaðssetning og viðhorf til áfengisneyslu. Það er áhugavert að skoða tölur og samkvæmt vöktun áhrifaþátta heilbrigðis meðal Íslendinga, 18 ára og eldri*, segjast um það bil 86% fullorðinna Íslendinga hafa drukkið a.m.k. eitt glas af áfengum drykk síðustu 12 mánuði árið 2019 og 34% sögðust drekka áfengi í hverri viku.

 

Þá segjast 26% svarenda hafa orðið ölvaðir einu sinni í mánuði eða oftar síðastliðna 12 mánuði. Um það bil fjórðungur Íslendinga fellur þar með undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis, svokallaða áhættudrykkju. Þegar haft er í huga hversu skaðleg áhrif áfengi hefur á heilsu er ljóst að þetta neyslumynstur mun hafa veruleg áhrif á heilbrigðiskerfið og auka álag á það til muna á næstu árum.


Hér má sjá þróun áhættudrykkju á Íslandi eftir kyni og aldri á árinu 2018-2019. Myndin var tekin af vef Landlæknisembættisins.


Comments


bottom of page