Nú stendur yfir vinna við mótun nýrrar stefnu í áfengis- og vímuvarnarmálum. meðal þess sem taka þarf tillit til eru leiðir til að minnka áfengisneyslu. Á nýlegu málþingi í Þjóðminjasafni Íslands um lýðheilsu og áfengi kom fram að álag á heilbrigðiskerfið eykst með aukinni áfengisneyslu.
Alma Möller, landlæknir, talaði á málþinginu sem bar yfirskriftina, Lýðheilsa og áfengi hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim?, Hún sagði að þjóðin stæði frammi fyrir miklum áskorunum því íslenska heilbrigðiskerfið berðist í bökkum. Aukin eftirspurn væri eftir þjónustu og kostnaður ykist. Skortur á starfsfólki skapaði einnig vanda. „Heilbrigðiskerfið er ekki sjálfbært eins og það er í dag og það verður ekki tekist á við það nema með breyttum áherslum þ.á.m. lýðheilsu,“ sagði hún.Hún bætti við að í heiminum í dag létust um 3 milljónir manna árlega vegna afleiðinga áfengisneyslu. Um 600 þúsund deyja í slysum þar sem áfengi kemur við sögu og 230 þúsund svipta sig lífi í sjálfsvígum og rekja má ástæður þess til áfengisneyslu. 13% þessara 3 milljóna manna eru á aldrinum 20-39 ára og helmingur 50 ára og eldri. Þetta er verðmætur og virkur hópur í samfélaginu og skaðinn því mikill.
„Lýðheilsa er ekki bara mál ráðherra og embættismanna, hún er mál samfélagsins alls,“ sagði Alma í erindi sínu. „Það er mjög vel þekkt hversu skaðlegt áfengi er og margir verða áfengisfíkn að bráð í okkar samfélagi. Það er eitur og veldur eituráhrifum á líffærin, á lifur, heila og líka geðheilsu. Við erum á öfugri vegferð miðað við önnur lönd í Evrópu samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnuninni sem hafa yfirlýst markmið að lækka áfengisneyslu um 10 prósent fyrir árið 2025.“
En samkvæmt samkvæmt kostnaðargreiningu er talið að áfengisneysla hér á landi kosti ríflega 100 milljarða á ári og þá er ótalinn óbeinn kostnaður. Beinn kostnaður er mælanleg heilsufarsáhrif og skaði sem rekja má beint til áfengis en þótt illa gangi að mæla er vitað að áfengisneysla veldur gríðarlegum skaða á andlegri og líkamlegri heilsu þeirra er tengjast náið manneskju sem glímir við fíkn. Tapaðar vinnustundir, aukin veikindi og álagstengd heilsufarsvandamál eru þar undir. „Þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið og nemur hann um 2,6% af landsframleiðslunni sem er 3796 milljarðar króna. Það er svipaður kostnaður og í OECD löndunum sem er frá 1,5% til 2,6% af vergri þjóðarframleiðslu,“ sagði Alma ennfremur. Hún kallaði eftir að ráðamenn og almenningur tækju höndum saman í að efla lýðheilsu og stemma stigu við áfengisneyslu. Rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að aukið aðgengi að áfengi mun auka neyslu og auka sjúkdómsbyrði og þjáningu og þar með kostnað samfélagsins. Seljendur þess munu hagnast en allir aðrir tapa.
Frá árinu 2010 hefur áfengisneysla hér á landi aukist um 8%. Alþjóðaheilbrigðistofnnin hefur hins vegar gefið út það viðmið og hvatt ríkisstjórnir til að leitast við að draga úr áfengisneyslu í löndum sínum um 10%. Þróunin er því öfug hér en mörg önnur lönd í Evrópu keppast við að ná þessu markmiði. Á Íslandi hefur áfengisdrykkja aukist um 6 lítra að meðaltali á mann frá árinu 2000 og 7% landsmanna hafa sótt sér meðferð á sjúkrahúsinu Vogi.
„Stjórnvöld verða að móta stefnu í lýðheilsumálum sem leggja forvarnarstarfinu lið í stað þess að grafa undan því með auknu aðgengi að áfengi og skeytingarleysi gagnvart aukinni þörf á íhlutun og meðferð. Við, almenningur, þurfum að krefjast þess að lagt sé mat á fórnarkostnað þess, til dæmis með lýðheilsumati,“ sagði Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ á ráðstefnunni.
Nú er tekin til starfa nefnd á vegum heilbrigðisráðherra sem móta á nýja stefnu í áfengis- og vímuvarnarmálum. Valdimar Þór Svavarsson framkvæmdastjóri Samhjálpar situr í nefndinni sem mun ljúka störfum í haust.
Comments