top of page

„Ég væri ekki edrú án Samhjálpar“

Daníel Þór Hansen ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Hann ætlar að hlaupa heilt maraþon til styrktar Samhjálp þann 19. ágúst næstkomandi. Þetta ætlar hann að gera þrátt fyrir að eiga ekki langan feril í íþróttum að baki en hann er ákveðinn og sterkur. Hann stendur líka á tímamótum í öðrum skilningi því hann er að stíga sín fyrstu skref í nýju lífi, allsgáður og glaður. „Ég var að klára meðferð í Hlaðgerðarkoti,“ segir hann. „Ég á að baki mörg ár í áfengi og neyslu inn á milli en tók þá ákvörðun að fara í meðferð. Ég afréð að taka mína fyrstu meðferð í Hlaðgerðarkoti og fara alla leið. Eftir meðferðina fékk íbúð á Áfangaheimilinu Brú og það er alveg klárt mál að ég væri ekki edrú án Samhjápar.“ Hvernig kunni hann við sig í Hlaðgerðarkoti? „Þetta var einfaldlega besta ákvörðun sem ég hef tekið á ævi minni. Þetta var í alla staði yndislegt. Frábær starfsemi sem þar fer fram og starfsfólkið gott. Ég gæti ekki beðið um neitt betra. Allt sem Samhjálp er að gera fyrir staðinn er líka frábært.“ En hefur þú hlaupið áður eða verið í íþróttum? „Nei, alls ekki hlaupð. Ég æfði fótbolta og körfubolta þegar ég var krakki en svo ekkert eftir það. Ég byrjaði að æfa og hlaupa í Hlaðgerðarkoti og ákvað strax að skrá mig í hlaup eins og Hengil-ultra og Reykjavíkurmaraþonið. Ég hugsaði bara, ég skal gera þetta og byrjaði.“ Daníel kallar greinilega ekki allt ömmu sína og hann segist líka vera einn af þeim sem ekki gerir neitt með hálfum huga. En hvernig hefur undirbúningurinn gengið, þú ætlar að hlaupa heilt maraþon? „Já, ég ætla að fara heilt maraþon í fyrsta skipti. Minn hugsunarháttur hefur alltaf verið að ef maður ætlar að taka sér eitthvað fyrir hendur verður maður að fara alla leið. Það er sama hugsun og ég hafði gagnvart meðferðinni. Ég ákvað að taka hana föstum tökum og klára það sem ég þyrfti að klára. Ég dvaldi í Hlaðgerðarkoti eins lengi og ég taldi mig þurfa og nú er ég á áfangheimili.“ En hvernig hefur söfnunin gengið? Ertu ánægður með árangurinn? „Já, já, ég veit fleiri sem eiga eftir að leggja inn og ég býst við að það muni koma fyrir hlaupdaginn. Ég er hins vegar bara ánægður að hafa getað gefið eitthvað til baka til Samhjálpar og er gríðarlega þakklátur fyrir alla sem hafa lagt inn styrk til Samhjálpar og heitið á mig.“ Við hvetjum alla til að skoða þennan flotta hlaupara þegar þeir velja hvaða fólk og málefni þeir vilja styðja við í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Við vitum að allir hlauparar eflast þegar vel gengur og kapp þeirra eykst. Daníel Þór er hægt að styrkja hér: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/8035-daniel-thor-hansen

Daníel Þór segir svo frá inn á hlaupastyrkur.is: „Þetta er mitt fyrsta marathon sem að ég mun hlaupa og það væri bara ekki hægt án Samhjálpar og alls þess sem að þau samtök hafa gert fyrir mig. Þau hafa bjargað lífinu mínu og marga annarra. Tími til að gefa til baka.“

Comments


bottom of page