top of page
Lamaður eftir vinnuslys
Og þar hefur hann verið síðan. En lífið bauð enn og aftur upp á óvæntan snúning. Áfall sem setti allt úr skorðum um tíma.
„Þetta hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Fyrir tveimur og hálfu ári lenti ég í rosalegu vinnuslysi. Ég féll niður um tvo og hálfan metra af stillans í Ráðhúsinu og var fluttur á gjörgæslu. Það var tvísýnt í byrjun hvort ég hefði lamast eða ekki því ég missti allan mátt í fótunum. Lá á gjörgæslu og gat ekki hreyft mig. Natalie og Sandra systir hennar komu upp á gjörgæslu og Natalie fékk rétt að hitta mig, ég gat ekki hreyft mig né talað við hana. Til mikillar blessunar fékk ég mátt í fæturna aftur daginn eftir, en mikið hafði verið beðið fyrir mér bæði hjá Samhjálp, í kirkjunum og á sjúkrahúsinu þar sem Natalie bað fyrir mér. Ég stóð bara upp daginn eftir. Ég hafði fengið svona rosalegt mænusjokk. Taugarnar höfðu lamast við sjokkið.“
„Það fyrsta sem hann sagði við lækninn var: „Ekki gefa mér neitt eitur“,“ segir Natalie. Þóri var auðvitað efst í huga að ekki mætti vekja neina fíknivaka með verkjalyfjum.
„Ég var kominn heim tveimur dögum seinna, en upp frá þessu hófst rosalegt tímabil hjá mér,“ segir hann. „Ég var mjög verkjaður í líkamanum og gat rétt svo gengið um gólf heima. Kvíði, vonleysi og reiði helltust yfir mig. Ég velti fyrir mér hvort ég kæmist út á vinnumarkaðinn aftur eða hvort af þessu hlytist varanleg örorka. Mér leið illa að kyssa konuna mína bless á hverjum morgni þegar hún var að fara í vinnuna og sonurinn í skólann og eftir sat ég einn heima, kvalinn af sársauka. Andlega hliðin hrundi. Ég var pirraður og reiður og ýmsir skapgerðarbrestir komu í ljós. Já, ég fór á virkilega slæman stað. Ég var kominn á fallbraut.“
Beið eftir stóra skellinum „Á tímabili var ég fullviss um að ég myndi missa allt frá mér,“ segir Þórir. „Ég var ekki kominn að því að ætla að fara detta í það en ég var kominn mjög langt niður. En í dag er ég á mínum besta stað í lífinu, betri en ég hef nokkru sinni verið. Ég stunda AA-fundi og samkomur og læt gott af mér leiða og hjálpa öðrum. Ég er kominn aftur í vinnuna hægt og rólega og í dag er ég í 75% vinnu. Mér finnst ég andlega sterkari en ég var.“
bottom of page
Comments