top of page

„Það þarf að grípa fólk þegar glugginn er opinn
Áfangaheimili eru rekin með góðum árangri víða um heim, en þau eru ætluð fólki sem þarf stuðning til að komast aftur út í samfélagið eftir að hafa annaðhvort farið í meðferð eða setið í fangelsi. Undanfarin sex ár hafa Samhjálp og Kópavogsbær rekið áfangaheimili í Kópavogi. Rannveig María Þorsteinsdóttir, sem er skrifstofustjóri félagslegra íbúða hjá Kópavogsbæ, telur ótvírætt að fólk sem á þess kost að dvelja á áfangaheimili hafi af því mikið gagn.

 

Hvað telur þú helsta gildi þess að fólk eigi þess kost að fara inn á áfangaheimili að lokinni meðferð?

 

„Það getur skipt sköpum að fá þetta skjól,“ segir hún. „Að geta sett fókusinn á sjálfan sig, geta byggt sig upp og komið á rútínu í daglegu lífi eins og að þvo fötin sín, elda mat, þrífa í kringum sínum, sækja fundi og þjónustu sem stuðlar að bata. Það þarf að taka einn dag í einu en líka hafa markmið til að stefna að. Að auki má ekki vanmeta mikilvægi þess að vera með öðrum sem eru að takast á við svipaða hluti. Standa ekki einn. Hver og einn er einstakur en allir geta sótt styrk í það hvernig aðrir gera hlutina eða hafa gert hlutina, fá hugmyndir og stuðning.“

 

Áfangaheimili eru skilgreind sem nokkurs konar millibil milli þess að koma úr meðferð og verða sjálfstæður einstaklingur innan samfélagsins. Lögð er áhersla á að kenna fólki að taka ábyrgð, búa það undir atvinnulífið og hjálpa því að ná heilsu. Hver er reynsla ykkar af slíkum rekstri?

 

„Reynsla okkar er góð og samstarfið við Samhjálp hefur reynst farsælt. Það er svo mikill léttir að geta boðið fólki upp á úrræði. Þetta er batahús og við leggjum mikla áherslu á það og það er ekkert umburðarlyndi gagnvart neyslu af neinu tagi. Tvennt getur leitt til þess að samningi sé rift og íbúi verði að fara strax af heimilinu; annars vegar ef hann verður uppvís að neyslu og hins vegar ef hann beitir ofbeldi af einhverju tagi. Þá verður hann að fara tafarlaust úr húsi. Vegna annarra reglubrota fá menn áminningu um úrbætur, ítrekun ef úrbótum er ekki sinnt og brottvísun ef brot gerist í þriðja sinn.“

 „Þetta er batahús og við leggjum mikla áherslu á það og það er ekkert umburðarlyndi gagnvart neyslu af neinu tagi.“

 

Allir settir út nema einn

 

Hafa einhver alvarleg tilvik komið upp?

 

„Já, já, það hefur allt komið upp,“ segir hún. „Einu sinni voru allir settir út nema einn. Það var heilmikið havarí en það má ekki gefa afslátt af kröfunum. Við höfum hins vegar lagt áherslu á að heimilismenn geti haft áhrif og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Haldnir eru húsfundir og sem dæmi var tekið fyrir hvort það mætti vera með næturgesti og það var samdóma niðurstaða að það ætti ekki að leyfa það. Allir voru hlynntir því að börn væru velkomin og þeim væri boðið í mat af heimilismönnum sem greiða mánaðarlega í matarsjóð.“

 

Rannveig María er með BA-próf í sálfræði og meistarapróf í starfsendurhæfingu og ráðgjöf frá Bandaríkjunum.

 

„Ég hef starfað hjá Kópavogsbæ frá árinu 2000. Var fyrst forvarnarfulltrúi, varð svo verkefnastjóri, tók síðan við deildarstjórastöðu við félagslega ráðgjöf, fjárhagsaðstoð og félagslegar leiguíbúðir. Það var á þeim tíma sem áfangaheimilið varð að veruleika, eða í lok árs 2017. Ég hef starfað fyrir Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra, verið félagsmálastjóri úti á landi og fyrst eftir að ég kom að utan var ég að vinna í Örva, sem er starfsþjálfunarstaður fyrir fatlaða. Ég starfaði einnig í Bandaríkjunum eftir að ég lauk námi.“

„Þegar meðferð fer að ljúka og menn koma út í samfélagið taka margar áskoranir við. Það er dýrtíð, erfiður húsaleigumarkaður og ekkert er einfalt.“

 

Ekki allt ónýtt þótt bakslög komi

 

Hún hefur auðheyranlega víðtæka reynslu í að aðstoða og byggja upp manneskjur. En hún er ekki ein.

 

„Við erum með mjög góðan félagsráðgjafa sem sinnir íbúum á áfangaheimilinu,“ segir hún. „Fyrst vorum við með það þannig að hver íbúi hafði sinn félagsráðgjafa en það var ekki alveg nógu gott. Samskiptin verða flóknari þegar átta manns eru með marga ráðgjafa. Úr varð að einn félagsráðgjafanna í deildinni tók að sér að vera félagsráðgjafi heimilisins og vera þar með fasta viðveru einu sinni í viku. Hún og forstöðumaður setja upp einstaklingsáætlanir með íbúum, en allir eiga að hafa slíka áætlun á meðan þeir eru í húsinu og endurskoða hana með reglubundnum hætti. Hún miðar að því að menn setji á blað hvað þeir ætla að gera meðan þeir eru að vinna sig í bata og hvaða stuðning og þjónustu þeir þurfa til að svo megi verða. Í mörgum tilvikum getur það leitt til formlegrar starfsendurhæfingar með endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun.

 

Íbúar geta alltaf leitað til félagsráðgjafa heimilisins þess á milli. En með þessu móti eru allir að tala sama tungumál. Við áttum okkur á því að það að glíma við fíkn er mjög erfitt verkefni og það geta komið bakslög en með því að vera í samstarfi við Samhjálp njótum við góðs af því að ef íbúar hjá okkur fá bakslög geta þeir átt innkomu í Hlaðgerðarkot með tiltölulega litlum fyrirvara. Það er nefnilega ekki allt ónýtt þótt slíkt hendi. Viðkomandi býr að allri þessari reynslu og þótt þetta hafi ekki tekist fyllilega núna getur lítið vantað upp á og það tekst næst. Ég held að þetta geti verið liður í bataferlinu.“

 
Andinn í hópnum mikilvægur

 

En hvað heldur fólki gangandi í starfi sem þessu, þegar allt getur gerst og stundum sér maður skjólstæðingum sínum mistakast?

 

„Það er munur á að vera í stjórnunarstöðu eins og ég eða í daglegum samskiptum við skjólstæðinga. En ég persónulega hef alltaf verið mjög forvitin um fólk og hef áhuga á fólki. Við deilum auðvitað, öll sem höfum aðkomu að þessu, þegar vel gengur. Hópurinn sem er í húsinu hverju sinni skiptir máli. Sumir eru sterkir og geta gefið af sér, eru leiðtogar í sér og það getur skipt sköpum að slík manneskja sé inni á heimilinu. Á síðasta ári var til dæmis þannig hópur í húsinu. Þeir voru mjög samstilltir, styðjandi og góðir saman. Þá hugsuðum við; já, svona á þetta að vera. Í Covid var húsið aldrei fullt, vegna þess að ekki mátti vera þessi nálægð milli fólks og plássin voru ekki fullnýtt. Það fór allt svolítið til baka meðan á því stóð.

 

Við höfum átt samtöl við Hafnarfjörð og önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um að samnýta úrræði. Að við gætum selt pláss hjá okkur og keypt í staðinn pláss annars staðar. Við erum t.d. ekki með áfangaheimili fyrir konur og það væri mikilvægt að hafa sambærilegan stað fyrir þær. Við vitum að það skiptir máli að vita hvað tekur við eftir meðferð og hafa eitthvað að stefna á.“

„Sumir eru sterkir og geta gefið af sér, eru leiðtogar í sér og það getur skipt sköpum að slík manneskja sé inni á heimilinu.“

 

Þurfa að finna að þeir eigi möguleika

 

Sérfræðingar í fíknimeðferð og aðrir er koma að slíkum málum hafa undanfarið sannfærst æ meira um gildi langvarandi meðferðarúrræða. Geta áfangaheimilin verið það sem á vantar að hefðbundinni meðferð lokinni?

 

„Meðferðarúrræði eru ekki mörg á Íslandi. Það er afvötnun á Vogi, fjögurra til átta vikna meðferð á Vík og afvötnun og meðferð á Landspítalanum. Langtímameðferð er eingöngu í boði á Hlaðgerðarkoti og í Krýsuvík. Hjá Kópavogsbæ var um tíma verið að styðja fólk til að fara til Svíþjóðar í meðferð en í mörgum tilvikum var það spurning um að bjarga mannslífi. Hér er biðlisti eftir því að komast inn á Vog í afvötnun og svo bið eftir að komast í langtímameðferð. Það er svo vont að geta ekki gripið fólk þegar glugginn er opinn því allt veltur þetta á því hvað er að gerast inni í þér. Þú þarft að vera tilbúinn og finna að þú eigir einhverja möguleika.

 

Þegar meðferð fer að ljúka og menn koma út í samfélagið taka margar áskoranir við. Það er dýrtíð, erfiður húsaleigumarkaður og ekkert er einfalt. Þetta er svolítið vanræktur hópur,“ segir Rannveig María að lokum.

Comments


bottom of page