„Það er eitthvað yfir staðnum“
- steingerdur0
- Jun 27
- 2 min read

Starfsfólk Samhjálpar þekkir mætavel hversu gefandi það er að sýna öðrum umhyggju og leggja sig fram um að byggja upp fólk. Það vita líka allir þeir sem styðja samtökin á margvíslegan hátt. Í þeim hópi er Fannar Leósson hárgreiðslumaður. Hann hefur ásamt félaga sínum og nafna Fannari Óla Elíassyni komið reglulega upp í Hlaðgerðarkot og séð um að halda hári heimilismanna þar vel snyrtu og þeim ánægðum með útlit sitt.
Nafnarnir taka ákaflega lítið fyrir vinnu sína en þær upphæðir sem þeir rukka renna beint til Samhjálpar. Hér er því um einstaka þjónustu að ræða sem gagnast Samhjálp á margvíslegan hátt. Við heimsóttum Fannar Leósson á Scala Barbershop og spurðum hann fyrst hvers vegna þeir hafi byrjað að veita þessa þjónustu?
„Ég gerði þetta á árunum 2012-2016 eftir að ég var í meðferð uppi í Koti,“ segir Fannar. „Ég fór þá uppeftir og klippti og rukkaði fyrir þetta en í þessari törn langaði okkur að gefa af okkur og gefum þess vegna vinnu okkar. Við höfum gert þetta síðan í maí í fyrra. Þetta er því ekki í fyrsta skipti sem ég geri þetta.“
Allir betri nýklipptir
Fannar segir að hugsunin að baki hjá þeim félögum sé að efla sjálfstraust fólks og vellíðan. „Það eru einhvern veginn allir betri þegar þeir eru nýbúnir að fara í klippingu,“ segir hann. „Þess vegna gerir þetta mikið fyrir andlegu hliðina. Ég hef sjálfur verið þrisvar í meðferð uppi í Hlaðgerðarkoti.“
Hann þekkir því vel hversu nauðsynlegt það er að lyfta andanum og bæta sjálfsmyndina þegar gengið er inn í Hlaðgerðarkot. Hann á að baki langa neyslusögu.
„Já, mjög langa en ég hef verið edrú núna í eitt og hálft ár. Þetta hefur aldrei gengið eins og vel og í dag.“
En hvað er það sem gerir að þú og fleiri hugsið svona hlýlega til Hlaðgerðarkots?
„Það er mjög erfitt að koma því í orð. Upplifun mín af staðnum er svo sérstök og dýrmæt. Mér þykir óskaplega vænt um Hlaðgerðarkot. Ég fann Guð þar. Ég veit ekki alveg hvað en það er eitthvað yfir staðnum.“
Fannar hefur unnið í hárgreiðslubransanum í ríflega tuttugu ár. Hann hefur alltaf jafngaman af vinnunni og þegar við komum var hann að ljúka við að klippa kúnna og annar beið þegar við vorum búin að tala saman. Svona áður en við kveðjum er einhver sérstök hártíska vinsælli en önnur í dag?
„Nei, ekki neitt sérstakt. Skinfit hefur verið vinsælt en í raun gengur allt. Klippingar eru mjög fjölbreyttar, eiginlega miklu fjölbreyttari en var,“ segir hann að lokum og það er ekki vert að halda honum lengur frá vinnunni.
Comments