top of page
EFLAUST GETA MARGIR SAMSVARAÐ SIG MEÐ FORSÖGU FEÐGINANNA KATRÍNAR INGU OG HÓLMSTEINS.
Katrín Inga bjó ásamt foreldrum sínum í Sandgerði til fjögurra ára aldurs, þegar foreldrar hennar skildu. Hólmsteinn var þá virkur alkóhólisti og segir að rekja megi skilnaðinn til þess.
Katrín Inga fluttist með móður sinni sem síðar kynntist öðrum manni og eignaðist með honum börn. Hólmsteinn fór í meðferð nokkrum mánuðum síðar. Hann var edrú í rúm 15 ár eftir það, stundaði sjómennsku og umgekkst Katrínu Ingu þegar hann var í fríum.
Þá voru samskipti foreldra hennar almennt góð. Hólmsteinn heimsótti þau meðal annars til Danmerkur þar sem þau bjuggu um tíma. Sjálfur kynntist hann síðar konu, sem fyrir átti tvær dætur, og eignaðist með henni dóttur. Þó flest hafi í raun litið vel út á yfirborðinu glímdi Katrín Inga við mikla reiði vegna ýmissa þátta úr æsku sinni. Sú reiði átti eftir að koma upp á yfirborðið á unglingsaldri. „Ég upplifði mig eina. Móðir mín eignast mann og þau eignast börn.
Síðan eignast pabbi konu, sem átti fyrir tvær dætur, og þau eignast síðan barn,“ segir Katrín Inga þegar hún rifjar þetta upp. „Mín upplifun var sú að ég tilheyrði hvorugri fjölskyldunni. Ég var mjög reið yfir því, þó ég hafi ekki endilega áttað mig á því þá. Ég varð alltaf reiðari og reiðari og þá sérstaklega þegar ég komst á unglingsárin. Það er vond tilfinning að finnast þú ekki tilheyra neinu.“ Katrín Inga var 13 ára gömul þegar hún byrjaði að drekka. Hún lýsir því þannig að áfengið hafi sefað reiðina, óttann og óöryggið sem bjó innra með henni og gefið henni aukið frelsi á þeim tíma. „Áfengið gerði það að verkum að mér fannst ég fúnkera almennilega. Ég var mjög reið út í foreldra mína á þessum tíma og fannst bara mjög eðlilegt að leita í áfengi sem huggun,“ segir Katrín Inga.
Drykkjan þróaðist, ef þannig má að orði komast, mjög hratt, og fljótlega var hún byrjuð að drekka mikið. Helgardrykkjan ílengdist, byrjað var að drekka á fimmtudegi „Það er gott að eiga nýtt líf“ fram á sunnudag og þess á milli hittist vinahópurinn iðulega með áfengi við hönd. Katrín Inga bjó á þessum tíma hjá móður sinni á Skagaströnd. Þegar hún var í níunda bekk gafst skólinn upp á henni, eins og hún orðar það sjálf, og hún var send suður í Hafnir, þar sem Hólmsteinn bjó ásamt sinni fjölskyldu.
Fyrir þá sem ekki vita eru Hafnir lítið þorp á vestanverðu Reykjanesi og eru nú hluti af Reykjanesbæ. Þangað er um 15 mínútna akstur frá Njarðvík. Þegar þau feðgin rifja þetta upp bendir Hólmsteinn réttilega á að bærinn sé eflaust skemmtilegur fyrir börn sem alast þar upp, en líklega ekki fyrir aðflutta unglinga. Það var líka raunin fyrir Katrínu Ingu. Hún fór í Njarðvíkurskóla og byrjaði fljótlega í neyslu vímuefna. „Þetta var ömurlegt, það var ekkert að gera þarna,“ segir Katrín Inga. „Manni leið eins og maður væri í fangelsi. Þarna var ég í mikilli uppreisn, ég var mjög þunglynd á þessum tíma og sóttist í þennan félagsskap. Ég var reið út í allt og alla, hataði foreldra mína og vildi ekkert vera hjá pabba. Ég man að ég komst upp með að sofa í tímum, af því að það vorkenndu mér allir. Ég var alltaf í sömu fötunum og kennarinn spurði mig, af mikilli vorkunn, hvort ég fengi engin ný föt heima hjá mér. Þetta var hræðilegt tímabil.“
NEYSLAN ÁGERÐIST HRATT
Sem fyrr segir leiddist Katrín Inga fljótt út í neyslu fíkniefna og sú neysla ágerðist hratt.
Að loknum grunnskóla valdi hún sér síðan framhaldsskóla á Akranesi. „Ég vildi ekki vera hjá pabba né mömmu og fannst Akranes því vera ákjósanlegur staður. En þarna var ég samt í mikilli neyslu og neytti fíkniefna nær daglega,“ segir Katrín Inga. „Ég tók mér tak í stuttan tíma eftir að mamma hafði hringt í mig alveg miður sín yfir ástandinu. Þá var búið að reka mig úr skólanum fyrir lélega mætingu og neyslu fíkniefna. Það vissu allir hvar maður stóð, miðað við félagsskapinn sem ég sóttist í. Mér fannst mjög leiðinlegt að valda móður minni svona miklum vonbrigðum. Hún hafði, áður en ég flutti til Hafna, beðið mig um að láta fíkniefni eiga sig. Viku síðar var ég farin að neyta þeirra, þrátt fyrir að hafa sagt að ég myndi að sjálfsögðu aldrei gera það.“
Hólmsteinn lýsir þessu sem týpískum afleiðingum skilnaðarbarna sem aldrei ná að gera málin upp. „Jafnvel þó svo að það sé gott á milli foreldra, þá gerist eitthvað þegar börnin komast á unglingsaldur, og í þessu tilviki var auðvitað undirliggjandi alkóhólismi sem blandast við reiði og biturð,“ segir Hólmsteinn. „Á þessum tíma, þegar Katrín Inga er í neyslu, þá hafði ég ákveðinn skilning á aðstæðum hennar verandi óvirkur alkóhólisti sjálfur. Ég vissi hvað hún var að upplifa, að reyna að fylla upp í þetta tómarúm sem alltof margir fylla upp í með áfengi og eiturlyfjum. Við reyndum auðvitað að gera eitthvað og bregðast við, en ég vissi að það þýddi lítið að segja henni hvað hún mætti eða mætti ekki gera. Það var aðeins til þess fallið að mótþróinn varð meiri.“
Þessi lýsing er nokkuð algeng meðal aðstandenda. Oft vill það gerast að þegar aðstandendur reyna að grípa inn í þá hefur það þveröfug áhrif og verður stundum til þess að viðkomandi einstaklingur fjarlægist fjölskyldu sína meir en áður. En þá vaknar hin augljósa spurning, hvað er hægt að gera? „Þeir punktar sem ég man hvað mest eftir að hafi snert við mér, var þegar mamma kom til mín grátandi og sagði við mig að hún vissi ekki hvað hún gæti gert fyrir mig,“ segir Katrín Inga aðspurð um þetta. „Ég varð mjög reið og hreytti einhverju í hana, þannig að á yfirborðinu hafði þetta sömu neikvæðu áhrif og önnur afskipti þeirra. En um leið og hún fór hugsaði ég með mér: Hvað er ég að gera fjölskyldu minni? Þó það sæist ekki strax þá hafði einlægni hennar og í raun uppgjöf mikil áhrif á mig.“
Katrín Inga fór í aðra meðferð sína á Vík í byrjun árs 2008. Hún hafði þá nokkrum sinnum farið inn á Vog, en alltaf fallið. Eftir að hún kláraði meðferðina á Vík flutti hún til Hólmsteins, sem þá bjó í Keflavík. Hún náði stuttum tímabilum edrú, en að lokum fór hún inn í sex mánaða neyslutímabil. Á þeim tíma, sem var sá versti að hennar sögn, hætti hún að mæta í vinnu, átti í raun hvergi heima og flakkaði á milli heimila neyslufélaga eða keyrði um heilu næturnar. Þetta var árið 2009 og Katrín Inga þá 22 ára. „Eins undarlega og það hljómar tók ég meðvitaða ákvörðun um að fara aftur í neyslu,“ segir Katrín Inga. „Góður vinur minn hafði nýlega byrjað aftur í neyslu og ég í raun elti hann. Þegar einstaklingar eru á þessum stað kunna þeir ekki að takast á við tilfinningar og rökhyggju. Ég hafði aldrei gert upp reiði mína og fann enn fyrir sama óöryggi og áður. Eina leiðin sem ég þekkti var neyslan. Maður er alltaf að reyna að upplifa það sem maður upplifir fyrst þegar maður byrjar í neyslu. En það er alveg sama hversu mikils þú neytir, þú upplifir þetta aldrei aftur, og það er lygin í þessu öllu saman. Maður reynir að halda sér gangandi í neyslu, en ekki af því að þetta sé svo gaman.“
ÚTILOKUÐ AF HEIMILUM FORELDRA SINNA
Svo fór að lokum að foreldrar hennar lokuðu báðum heimilum fyrir henni.
„Ég ætlaði að koma og sækja dótið mitt. Ég átti meðal annars sjónvarp sem ég ætlaði að selja,“ segir Katrín Inga og glottir við þegar hún bendir á sjónvarpið sem er enn í stofunni hjá henni. „Þá var búið að skipta um lás, þannig að ég reyndi að skríða inn um glugga, en var fjarlægð af lögreglu. Þetta var mikil niðurlæging.“ Hólmsteinn segir að hann og móðir Katrínar Ingu hafi verið sammála um þessa erfiðu ákvörðun. Þau höfðu bæði reynt að ræða við dóttur sína og vera til staðar fyrir hana, en ekkert gengið. Að lokum hafi þau ekki átt neinn annan kost og það hafi verið full ástæða til að loka heimilunum fyrir henni. „Ég hafði fallið í þá gryfju að láta hana hafa pening þegar hún bað um það, en hætti því svo fljótlega. Þess í stað fór ég frekar með henni og keypti handa henni mat, en ég millifærði ekki pening á hana, enda hefði hann bara farið í neyslu,“ segir Hólmsteinn. „Við höfðum heyrt að þetta virki stundum og við höfðum stuðning frá aðstandendum sem höfðu reynslu á þessu sviði. Þetta er samt mjög erfið ákvörðun, að segja við barnið sitt að hún megi ekki koma á heimilið. Þetta var rétt ákvörðun, eftir á að hyggja. Þegar maður er farinn að leyfa barninu sínu að vera í neyslu heima, þá er maður í raun og veru að samþykkja þessa hegðun. Maður heyrir marga segja frá því eftir á, að það að hafa verið útilokaður frá heimili sínu hafi verið upphafið á batanum.“
Aðspurður ítrekar Hólmsteinn að þessi ákvörðun, að loka hana af heimili sínu, hafi alls ekki verið auðveld, en hún hafi þó verið nauðsynleg í ljósi stöðunnar sem þá var komin upp. „Það er í raun skelfilegt. Þó ég væri búin að taka þessa ákvörðun að loka á hana, þá átti ég margar andvökunætur og koddinn var oft blautur á morgnana af því að maður hafði grátið alla nóttina. En eftir á þá lærði maður mikið. Þetta var virkilega erfiður tími,“ segir Hólmsteinn. Aðspurð um þennan tíma segir Katrín Inga að þarna hafi botninum verið náð. „Það var í raun röð atvika sem áttu sér stað sem urðu til þess að ég áttaði mig á stöðunni. Eitt af því var auðvitað að vera læst úti af heimilum foreldra minna og geta ekki nálgast dótið mitt,“ segir Katrín Inga. „Mamma sagði líka við mig að ég gæti ekki komið til þeirra um jólin, sem var mikið sjokk fyrir mig. Þarna átti ég í raun bara fötin sem ég var í þá, ekkert annað. Þó ég muni mismikið frá þessum tíma þá man ég hvar ég gafst endanlega upp. Ég hafði farið í partý og sat þar ein inn á baði og grét yfir ástandinu.“
Stuttu síðar hringdi Katrín Inga upp í Hlaðgerðarkot, hóf þar meðferð í febrúar 2010. Að meðferð lokinni bjó Katrín Inga á Sporinu, áfangaheimili sem rekið er af Samhjálp. Þaðan lá leiðin í þriggja ára nám í biblíuskóla, en síðasta árið tók hún í Amsterdam í Hollandi. „Ég man þegar ég tilkynnti foreldrum mínum að ég væri að fara í biblíuskóla í Amsterdam, af öllum stöðum,“ segir Katrín Inga og hlær. „Tímabilið eftir skólann var kannski erfiðast. Ég hafði verið í mjög vernduðu umhverfi fram að því, en þurfti þá að fóta mig upp á nýtt í lífinu. Ég fór í skóla og vann með. Ég átti sem betur fer mikið af góðu fólki að sem hjálpaði mér og hélt vel utan um mig. Það er gott að eiga nýtt líf.“
ÁFENGIÐ DEYFÐI SÁRSAUKANN
En þá aftur að Hólmsteini.
Sem fyrr segir hafði hann farið í meðferð eftir að hann skildi við móður Katrínar Ingu. Árið 2006, eftir rúm 15 ár af edrúmennsku, skildi hann við síðari konu sína og féll aftur í kjölfarið. „Ég hafði í raun aldrei náð að höndla það sem kalla má vinnualkann í mér, þannig að ég keyrði mig út í vinnu og reyndi þannig að fylla upp í þau tilfinningalegu sár sem voru til staðar,“ segir Hólmsteinn. „Þetta var mjög erfiður skilnaður og ég bara stóð ekki undir þessu. Ég man eitt kvöldið að ég var að keyra í miðbæ Reykjavíkur, hafði enga sérstaka áfengislöngun, en þegar ég keyrði fram hjá bar þá fór ég inn og datt í það í fjóra daga.“
Hólmsteinn náði skjótum bata og var edrú í sex og hálft ár eftir þetta, meðal annars á þeim tíma sem Katrín Inga var í meðferð. Árið 2012, þegar Katrín Inga hafði verið edrú í rúm tvö ár, kom annað tímabil þar sem Hólmsteinn hafði keyrt sig út á vinnu og upplifði þá algjöra uppgjöf. „Ég var í raun langt genginn alkóhólisti, en hafði aldrei gert það almennilega upp. Áfengið var bara til að deyfa sársaukann,“ segir Hólmsteinn. Segja má að Hólmsteinn hafði náð botninum í orðsins fyllstu merkingu. Að lokum bjó hann á götunni og gisti ýmist í Gistiskýlinu í Reykjavík eða á deild 33A á Landsspítalanum, þar sem áfengissjúklingar og fíklar dvelja gjarnan. Að lokum fór hann þó í meðferð á Teig, sem er meðferðarúrræði Landsspítalans. Að henni lokinni fór hann í 20 mánaða svokallaða eftir-meðferð á áfangaheimili. „Það sem hjálpaði mér var að sjá þær breytingar sem höfðu átt sér stað hjá Katrínu Ingu. Að hafa fylgst með henni fara í meðferð og ná bata varð til þess að ég gat það líka síðar meir,“ segir Hólmsteinn. „Með því að sækja AA fundi, hitta gott fólk og sækja kirkju náði ég loks bata. Ég leitaði í það að vera innan um gott fólk og geri enn.“
Áður hefur komið fram hvernig Hólmsteinn upplifði það að sjá dóttur sína í neyslu og geta lítið gert við því ástandi. Það liggur því beinast við að spyrja Katrínu Ingu, sem þá var orðin edrú og hafði náð bata, hvernig það hafi verið að horfa upp á föður sinn falla fyrir Bakkusi og enda á götunni? „Það var mjög erfitt að horfa upp á þetta, og á endanum þurfti ég að gera það sama og hann hafði áður gert við mig, að loka á hann. En það var erfiðast að geta ekki gert neitt,“ segir Katrín Inga. „Ég bað fyrir honum og reyndi að hughreysta hann, en meira gat ég ekki gert. En það er stundum það eina sem við getum gert, að vera til staðar fyrir fólk.“ Hólmsteinn hefur nú verið edrú í tæp þrjú ár og segir lífið ganga vel.
ALLIR GETA NÁÐ BATA
Aðspurð segja þau bæði að enginn sé það langt leiddur í neyslu áfengis eða vímuefna að viðkomandi geti ekki náð bata – allir geti náð bata ef þeir leita sér hjálpar.
„Vissulega var erfitt að ganga inn á meðferðarheimili, en það er bara fyrsta skrefið,“ segir Katrín Inga. „Maður reynir að koma í veg fyrir að þurfa að grandskoða sjálfan sig, en það er samt það sem hjálpar manni að lokum. Það hafa allir eitthvað, hvort sem það eru áföll í lífinu eða aðrir erfiðleikar. Hvað mig varðar þá þurfti ég að gera upp alla þessa reiði sem bjó innra með mér ásamt öðrum hlutum. Það er partur af því að fara í gegnum sporavinnuna svokölluðu. Maður á þessi samtöl við fjölskyldu sína, í mínu tilfelli við foreldra mína. Það gekk vel og við náðum að græða þau sár sem voru til staðar. Ég áttaði mig á því af hverju ég var reið og vonsvikin, en ég vann úr því. Ég lærði líka að sýna aðstæðum þeirra á þessum tíma skilning.“
Katrín Inga segir mikilvægt að vinna úr fyrri áföllum eða öðru því sem hefur bjátað á í lífinu, hvort sem um er að ræða skilnað forelda, misnotkun af einhverju tagi, einelti og þannig má áfram telja. „Flestir þeir sem falla aftur og ná ekki bata eru oft að eiga við gömul og óuppgerð sár,“ segir Katrín Inga. „En fólk er að átta sig betur á þessu, og þeir sem sjá um meðferðarúrræðin hafa líka gert það fyrir nokkru. Ég er búin að vera edrú í tæp átta ár og ég er enn að vinna úr hlutum. En þetta á samt við um svo marga, ekki bara þá sem hafa verið í drykkju eða neyslu.“ Hólmsteinn tekur undir þetta og segir að uppgjör við fortíðina sé stór hluti af meðferðum nútímans. „Neyslan er erfið og sporavinnan er að mörgu leyti erfið. Munurinn er sá að í neyslunni ertu úti á akrinum og í raun ráðvilltur, en í sporavinnunni ertu í heilbrigðu umhverfi,“ segir Hólmsteinn. „Þar sá maður upphafið að því sem koma skal, en það eru heilbrigðir erfiðleikar. Lífið er alltaf ákveðin barátta, hvort sem maður er í neyslu eða ekki. En maður nær ekkert að eiga við það allt í einu, það er óraunhæft. Þetta tekur tíma, en hann er vel þess virði.“
„VIÐ GETUM EKKI LIFAÐ Í FORTÍÐINNI“
Eins og fram kemur hafa þau feðgin bæði náð merkilegum bata og eiga lífið fram undan. Eitt af því sem aldrei vinnst þó til baka er tíminn. Það er því forvitnilegt að vita hvernig þeir, sem dvalið hafa í neyslu eða viðjum áfengis, upplifa þann tíma sem glataðist meðan á neyslunni stóð. „Það er auðvelt að detta í þann gír, en þá skiptir mestu máli að maður haldi áfram að vinna í sjálfum sér. Þegar maður fer að vinna sporin þá upplifir maður frelsi gagnvart ákveðnum hlutum, þar með talið fortíðinni,“ segir Katrín Inga.
„Ef þú sinnir þínum málum á hverjum degi þá ertu að ganga á réttri braut. Maður er stöðugt að vinna í sjálfum sér, hjálpa öðrum og viðhalda sjálfum sér.“ Hólmsteinn tekur undir þessi orð og segir það nauðsynlegt að gera upp fortíðina og sættast við hana. „Það tekur vissulega tíma og mislangan tíma fyrir suma, en það er eðlilegt ferli. Við getum ekki lifað í fortíðinni. Ef maður gerir hana ekki upp, þá er auðvelt að vera bitur yfir henni. Þetta er hluti af tólf spora vinnunni og maður þarf að sýna því ferli þolinmæði,“ segir Hólmsteinn.
„Maður áttar sig líka á því að maður er ábyrgur fyrir sjálfum sér. Þessi innsti kjarni breytist aldrei. En maður lærir að eiga við það og hreinsa til. Maður veit að maður er í rugli, en það þarf mikið af áfengi og lyfjum til að kveða þá meðvitund niður. Að lokum hættir þetta að vera barátta. Lífið tekur við og maður lendir í alls konar hlutum, eins og gerist og gengur. En þá skiptir máli hvernig maður bregst við. Maður er búinn að fá þau verkfæri sem þarf til að takast á við lífið á ný og maður þarf nýta þau.“
bottom of page
Comments