top of page

Það stefnir í lýðheilsuslys


Árni Guðmundsson félagsuppeldisfræðingur skrifar opið bréf til Höllu Bergþóru Björnsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins á vefnum visir.is. Þar varar hann eindregið við auknu aðgengi að áfengi í gegnum vefverslanir. Hann telur að verði ekkert að gert haldi áfengisiðnaðurinn áfram að þrýsta á enda séu þar eingöngu gróðasjónarmið höfð að leiðarljósi.


Í bréfinu segir hann: „Það stefnir í lýðheilsuslys. Allir vita að einkaréttur ríkisins til smásölu áfengis byggir á lýðheilsusjónarmiðum. Slysið, fyrirséða, snýst um einarðan ásetning áfengisiðnaðarins/sala til brjóta niður núverandi áfengisstefnu og kerfi. Áfengisiðnaðurinn skeytir í engu um afleiðingar, hin ítrustu gróðasjónarmið ráða alfarið för. Allt gert eftir bókinni Aðferðin felst m.a. í að taka eitt skref í einu og gefa helst aldrei eftir. Eitt skrefið er kostaður ólöglegur áfengisáróður.“


Árni lýkur svo bréfi sínu með þessum orðum:

„Að þessu rituðu, þá hvet ég þig ágæti lögreglustjóri, og mæli örugglega fyrir hönd fjölmargra, til þessa að taka hendur úr vösum og taka á þessum málum af þeirri einurð, festu og myndugleika sem embættinu er samboðið, sæmandi og ber að gera. Að öðru leyti óska ég þér og þínu fólki velfarnaðar í mikilvægum störfum.“






Comments


bottom of page