Alfonso Andri Svavarson Cantero er einn af samhentum hópi ungra manna sem hafa tekið sig saman um að hlaupa til styrktar Samhjálp í ár. Þeir þekkja allir starfið í Hlaðgerðarkoti af eigin raun og iðka þakklæti á þennan einstaka hátt. En Alfonso Andri var fyrst spurður hvers vegna hann hafi kosið að hlaupa fyrir Samhjálp?
„Mig langar að hlaupa fyrir Samhjálp til þess að gefa af mér til samtakanna og þakka fyrir þá frábæru aðstoð sem mér var veitt,“ segir hann. „Ég fór á Hlaðgerðakot alveg búinn andlega og starfið þar hjálpaði mér mikið, ég fékk lífsviljann aftur. Þakklæti er mér efst í huga og ég vil getað hjálpað öðrum.“Alfonso Andri er með bakgrunn í íþróttum. Hann lék fótbolta með Aftureldingu í Mosfellsbæ en hefur hann hlaupið lengi?
„Já hef stundum hlaupið inn á milli annarra íþróttaæfinga en byrjaði að hlaupa af meiri alvöru inni í Hlaðgerðakoti. Þar hljóp ég ásamt strákum sem ætla líka taka þátt. Við fengum fínan undirbúning, enda gott að hlaupa í dalnum.“Þarna vísar Alfonso Andri til hópsins sem ætlar að hlaupa saman fyrir Samhjálp. Auk hans eru það þeir, Daníel Ísak Maríuson, Guðmundur Skorri Óskarsson og Sindri Fannar Ragnarsson. En hvað ætlar Alfonso Andri að hlaupa langt?
„Við ætlum að hlaupa heilt maraþon,“ segir hann en þeir ætla allir að takast á við heilt maraþon, 42,2 km.
Nú er ekki nema tæp vika í Reykjavíkurmaraþonið. Ætlar þú að gera eitthvað sérstakt til að undirbúa þig þessa síðustu daga?
„Ég er búinn vera taka stutt skokk og sjósund, svo er ég að reyna teygja vel og hvíla líkamann, fylla hann af steinefnum og góðri næringu. Daginn fyrir hlaup fæ ég mér svo kolvetnisbombu,“ segir hann og það er nokkuð augljóst að hann hlakkar til þess.
Býstu við að halda áfram að hlaupa þegar þessu er lokið?„Já ég býst við að halda áfram að hlaupa eitthvað, í bland við aðrar íþróttir,“ segir Alfonso Andri að lokum og við hjá Samhjálp þökkum honum og vinum hans kærlega fyrir framtakið og bendum ykkur hinum á að ekkert eflir hlauparana meira til dáða en að finna stuðning frá öðrum. Hér er linkur á Alfonso Andra fyrir þá sem vilja styðja hann og Samhjálp næsta laugardag, https://www.hlaupastyrkur.is/hlaupastyrkur/hlauparar/12972-alfonso-andri-svavarsson
Comentários