Sjónvarpsþáttaröðin Dopesick frá árinu 2021 sýnir í átta þáttum hvernig ópíóíðafaraldurinn í Bandaríkjunum hófst, þróaðist og eyðilagði líf fjölmargra. Þættirnir eru byggðir á bók eftir Beth Macy, Dopesick – Dealers, Doctors and the Drug Company that Addicted America. Í dag er talað um að ópíóíðafaraldur geisi hér á landi og aldrei hafa fleiri dáið úr ofskammti lyfja og einmitt á þessu ári. Af reynslu Bandaríkjamanna má margt læra og þessir vel leiknu og vönduðu þættir eru byggðir á sögum raunverulegs fólks.
Beth er blaðamaður og bókin segir sögu fjölmargra einstaklinga sem hún tók viðtöl við á nokkurra ára tímabili og áttu ýmist aðstandendur sem ánetjuðust, urðu sjálfir háðir OxyContin eða sáu vegna starfs síns hvernig faraldurinn stækkaði og fór úr böndunum. Handritshöfundar sjónvarpsþáttanna taka þessar sönnu sögur og steypa í nokkrum tilfellum mörgum einstaklingum saman í eina söguhetju en atvikin eru sönn og sögur þeirra líka.
Purdue Pharma er í eigu Sackler-fjölskyldunnar, en auðæfi hennar eru metin á um það bil 13 milljarða dollara. Það var mörgum mikil vonbrigði þegar dómstóll í Bandaríkjunum veitti fjölskyldunni friðhelgi gegn skaðabótakröfum. Fyrirtækið er gjaldþrota en stórir hópar fólks víðs vegar um Bandaríkin hafa höfðað mál gegn því til að reyna að fá sinn skaða bættan. Sannað hefur verið að stjórnendur fyrirtækisins lugu og blekktu í markaðssetningu á verkjalyfinu OxyContin, stunduðu mjög óvægna og siðlausa sölumennsku og gengu almennt fram af gríðarlegu skeytingarleysi gagnvart heilsu og velferð almennings.
Vitnað í rannsókn sem ekki var til
Meðal þess sem fram kemur í Dopesick er að forsvarsmenn Purdue Pharma hófu markaðssetningu lyfsins vísvitandi í ríkjum og á svæðum þar sem mikill meirihluti íbúa er verkafólk. Þeir vissu sem var að líkamleg vinna veldur oft kvillum og verkjum í stoðkerfi og vinnuslys eru tíð. OxyContin var sagt mun síður ávanabindandi en önnur ópíóíðalyf og vitnað í því samhengi í rannsókn sem alls ekki var marktæk. Læknir hafði ávísað lyfinu á lítilli sjúkrahúsdeild þar sem lá fólk að jafna sig eftir aðgerðir og var úrtakið aðeins 30 manns. Hann hafði sjálfur umsjón með skömmtunum og fólkið fékk önnur verkjalyf þegar það útskrifaðist. Um þessa reynslu sína af lyfinu skrifaði hann lesandabréf í virt læknatímarit og sagði að aðeins 1% sjúklinga sinna hefði orðið háð lyfinu. Bréfið var fimm línur en þetta nægði markaðsdeild Purdue Pharma og í mörg ár var vísað til þessa eins og um stóra og viðamikla vísindarannsókn hefði verið að ræða.
Mikil áhersla var lögð á að sannfæra lækna um að OxyContin væri hættulaust. Á þessum tíma stóð Purde Pharma einnig fyrir víðtækri herferð þar sem sérstökum spjöldum til að mæla sársauka var dreift á heilbrigðisstofnanir. Læknum var gert að mæla sársauka á sama hátt og lífsmörk voru mæld. Þetta var gert til að renna stoðum undir mikilvægi þess að sársaukastilla skjólstæðinga. Sársauki og útrýming hans var með öðrum orðum jafnmikilvægt og líkamshiti, blóðþrýstingur, púls og öndun.
Með því að segja söguna gegnum líf sjö aðalpersóna, læknis í smáþorpi í Appalachia-fjöllum, tveggja sjúklinga hans, eiganda Purdue Pharma, Richards Sackler, lögreglukonu og starfsmanna ríkislögmanns ná handritshöfundar bæði að sýna á áhrifamikinn hátt hvernig siðleysi og græðgi starfsmanna lyfjafyrirtækisins náði að blekkja gott fólk og rústa lífi þess en einnig hvers vegna svo langan tíma tók að koma lögum yfir glæpamennina og draga úr sölu á þessu stórhættulega lyfi. Peter Sarsgaard og John Hoogenakker leika aðstoðarríkislögmenn í Virginíu, menn sem raunverulega áorkuðu því loks eftir margra ára söfnun gagna að höfða mál gegn Purdue Pharma og fá fyrirtækið dæmt til að borga 600 milljónir Bandaríkjadala í skaðabætur. Þeir heita í raun Rick Mountcastle og Randy Ramseyer. Einnig kemur við sögu aðstoðarforstjóri Drug Enforcement Administration (DEA), Bridget Meyer, en hún er samsett úr mörgum persónum bókarinnar. Það er Rosario Dawson sem leikur hana.
Lyfjafræðingurinn sem barðist gegn OxyContin
Það er mjög fróðlegt að skoða einnig heimildarþættina The Pharmacist. Þeir fjalla um baráttu lyfjafræðingsins Dans Schneider við að stöðva ópíóíðafaraldurinn í heimabæ sínum, Poydras í Louisiana. Hann missti son sinn Danny hinn 3. apríl árið 1999. Danny var farinn að neyta fíkniefna án þess að fjölskylda hans gerði sér grein fyrir því og kvöld eitt var hann skotinn til bana þegar hann fór inn í stórhættulegt hverfi í New Orleans. Glæpatíðni var há í New Orleans og þar framin fleiri morð á ári hverju en í nokkurri annarri bandarískri borg. Fæst morðin voru nokkru sinni upplýst. Dan fannst lögreglan draga lappirnar í rannsókn á máli sonar hans svo að hann hóf eigin athuganir og á átján mánuðum tókst honum að leysa málið.
Sorgin getur lamað fólk, brotið það niður og jafnvel yfirtekið líf þess. Það gerðist í tilfelli Dans og konu hans, Annie, en um leið var hún Dan innblástur til athafna. Eftir að sonur hans lést varð hann meðvitaðri um neyslu annarra og árið 2001 tók hann eftir að óvenjulega margt fólk, sem ekki virtist mjög veikt eða þjáð, kom inn í Bradley‘s Pharmacy þar sem hann vann með lyfseðla upp á sterkt verkjalyf, OxyContin. Dan tók með sér upptökutæki í vinnuna og hóf að spyrja alla með slíka lyfseðla spjörunum úr og reyna að telja þá af því að leysa út lyfið. Hann benti þeim á hættuminni verkjalyf og varaði alla við því hversu ávanabindandi ópíóíðalyf eru. Í þáttunum er talað við ungan mann sem Dan forðaði frá því að ánetjast OxyContin.
Vegna þess hve ákveðinn Dan var í að hjálpa fólki og tryggja að rétt væri staðið að ávísunum lyfja í apótekinu þar sem hann vann var hann á endanum sendur í tímabundið frí. Hann náði þó samkomulagi við yfirmenn sína og sneri aftur. Þótt hann gerði minna en áður í að tala fólk ofan af því að leysa út lyfin var hann hvergi nærri hættur. Hann tók fljótt eftir því að langflestir lyfseðlarnir voru undirritaðir af einum og sama lækninum, Jacqueline Cleggett. Hann fór að fylgjast með henni og sá fljótt að þessi barnalæknir var með stofu þar sem ávallt voru biðraðir fullorðins fólks út úr dyrum. Hann reyndi að vekja athygli löggæsluyfirvalda á þessu og var sagt að rannsókn væri í gangi. Honum fannst rannsóknin ganga of hægt og safnaði því sjálfur áfram gögnum þótt það kostaði hann margs konar óþægindi.
Löngunin til að hjálpa öðrum hélt honum gangandi
Sú hugsun að forða öðrum frá þeim sársauka sem hann og kona hans höfðu þurft að lifa við hélt honum gangandi. Að lokum tókst honum að sýna fram að ung stúlka sem kom í apótekið ásamt móður sinni með lyfseðil upp á sterkan skammt af OxyContin hafði ekki fengið fullnægjandi skoðun hjá Cleggett lækni því skammturinn hefði auðveldlega getað drepið þessa grönnu og litlu fjórtán ára stúlku. Þetta varð til þess að Cleggett var svipt læknaleyfinu.
Í heimildarþáttunum eru viðtöl við Irish Meyer og Patriciu Childless, rannsóknarlögreglumenn í fíkniefnadeild, og Billy Renton, yfirlögreglumann í Fíkniefnaeftirlitinu, DEA, Drug Enforcement Administration, sem benda á að vissulega hafi rannsóknin gengið hægt en yfirvöld hafi einfaldlega staðið frammi fyrir áður óþekktu vandamáli. Fram að því hafi línur verið skýrar og fólk fullkomlega vitað hverjir væru vondir og hverjir góðir. Lögregla rannsakaði og saksóknarar og ríkislögmenn ákærðu dópframleiðendur, smyglara og dópsala en í þessu tilfelli var framleiðandinn ein ríkasta og valdamesta fjölskylda Bandaríkjanna og sölumennirnir læknar, fagfólk sem hingað til hafði notið virðingar og jafnvel lotningar í samfélaginu. Yfirvöld voru því mjög treg til að láta til skarar skríða nema skotheldar sannanir lægju fyrir.
Báðar þessar þáttaraðir eru gríðarlega áhrifamiklar og átakanlegar. Þar leitast bæði handritshöfundar og þeir sem koma í viðtöl við að sýna fram á samviskuleysi þeirra sem stjórnuðu Purdue Pharma, en sannað hefur verið að beitt var vísvitandi blekkingum og mjög siðlausri sölumennsku þegar OxyContin var markaðssett. Lyfjafyrirtækið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta en samkvæmt vitnisburði bæði Dans Schneider og þeirra starfsmanna réttarkerfisins sem talað er við í The Pharmacist er OxyContin enn selt og sjá má afleiðingarnar víða af þeirri markaðssetningu sem stunduð var víða um Bandaríkin. Allir þeir sérfræðingar sem tjá sig í heimildarmyndinni telja sé að stórt hlutfall þeirra sem í dag nota heróín þar í landi hafi vanist á vímuna gegnum OxyContin og þegar það varð ekki lengur jafnaðgengilegt hafi fólk snúið sér að götudópinu, sem var ódýrara og veitti sömu vímu.
Það er erfitt að koma til skila jafnviðamiklu og flóknu máli og þessu en handritshöfundum Dopesick tekst það merkilega vel. Staðan í dag er hins vegar sú að aldrei hafa fleiri dáið af ofskömmtun í Bandaríkjunum og hefur talan farið hríðhækkandi allt frá árinu 1999 þegar OxyContin var fyrst sett á markað. Í dag er Fentanyl að ná sömu útbreiðslu og OxyContin áður, ópíóíðalyf, fimmtíu sinnum sterkara en OxyContin og heróín. Meira en ein milljón manna hefur látist af ofskömmtun í Bandaríkjunum síðan ópíóíðafaraldurinn hófst. Á síðasta ári voru þeir 106.000. Allt að 1,6 milljón er háð ópíóíðalyfjum og 2,6 milljónir taka inn lyf til að halda fíkninni niðri. Heilbrigðisyfirvöld hér á landi hafa gefið út að þeim fari fjölgandi sem háðir eru ópíóíðalyfjum og fleiri en nokkru sinni áður hafa látist af ofskömmtun á þessu ári, en ópíóðar eru sérlega hættulegir því ef tekið er of mikið lamast öndunarfærin og fólk kafnar. Ekki þarf mjög mikið magn til að það gerist. Vonandi berum við hér á landi gæfu til að læra af reynslu Bandaríkjamanna og bregðast við áður en fleiri falla í valinn.
Hvað er að gerast á Íslandi?
Upplýsingar um stöðu mála á Íslandi er víða að finna, meðal annars í talnabrunni Landlæknisembættisins. „Embætti landlæknis, embætti ríkislögreglustjóra, Lyfjastofnun, Sjúkratryggingar og Skatturinn settu á laggirnar vinnuhóp í apríl sl. til að taka saman tölulegar upplýsingar um ópíóíða. Tölulegar upplýsingar embættis landlæknis gefa til kynna að afgreitt magn ópíóíða hefur haldist nánast óbreytt frá 2018, þrátt fyrir tímabundna aukningu í fjölda einstaklinga sem leysti út lyf í flokki ópíóíða árið 2022 í tengslum við COVID-19.“
…
„Embætti landlæknis hefur, ásamt öðrum stofnunum, beitt sér fyrir mótvægisaðgerðum til að sporna við ofnotkun ópíóíða og til að bæta öryggi verkjalyfjameðferðar á Íslandi. Allir læknar á Íslandi hafa aðgang að lyfjagagnagrunni þannig að erfiðara er fyrir einstaklinga að fara á milli lækna og verða sér úti um sömu eða sambærileg lyf samtímis hjá fleiri en einum lækni. Yfirstandandi innleiðing miðlægs lyfjakorts mun gera læknum enn auðveldar um vik að koma í veg fyrir óhóflegar ávísanir ávana- og fíknilyfja og mun bæta öryggi lyfjameðferðar almennt þegar fram sækir. Til að notkun ópíóíða verði viðlíka því sem er meðal nágrannaþjóða okkar þarf hún að dragast saman. Sérstaka áherslu þarf að leggja á að minnka notkun Parkódín og Parkódín forte og ef við á að fleiri einstaklingar noti í staðinn verkjalyf sem innihalda ekki ópíóíða.“
Inn á island.is er að finna frétt undir yfirskriftinni: Andlát vegna ofskömmtunar lyfja á Íslandi og í Bandaríkjunum. Þar er eftirfarandi kafli:
„Ávísanir tauga- og geðlyfja hafa aukist um 130% frá 1995 til 2015 á Íslandi, á meðan aukning er á bilinu 42-76 % hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Árið 2015 var notkun tauga- og geðlyfja 30% meiri hér á landi en hjá næstu Norðurlandaþjóð sem er Svíþjóð. Margt bendir til að margir eigi við vanda að stríða vegna misnotkunar á lyfjum sem þeir fá ávísað sjálfir en einnig einstaklingar sem fá lyfin eftir öðrum leiðum.“
Lyfjastofnun tók saman yfirlit um notkun ópíóíða á Íslandi. Þar er að finna áhugaverðar töflur og ýtarlegan samburð á notkun ópíóíða hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. Samantektina má nálgast hér: https://www.lyfjastofnun.is/wp-content/eplica_media/Tolfraedi/Opioidar.pdf
Comments