top of page

„Þið hafið bjargað mörgum mannslífum“



Inga Sæland félags- og vinnumálaráðherra heimsótti Kaffistofu Samhjálpar í hádeginu, föstudaginn 16. maí. Hún kvaðst þekkja vel starf Samhjálpar, hvernig það hafi bjargað mörgum mannslífum og tók mjög jákvætt í að leggja samtökunum lið í leit að nýju húsnæði undir Kaffistofuna.


Hún dáðist að því hversu vel gengi að elda ofan í og gefa að borða svo mörgum einstaklingum í jafnlitlu rými og raun ber vitni. Hún benti einnig á að ný ríkisstjórn væri að gefa úttekt á meðferðarmálum í landinu og vilji væri fyrir því að tryggja fjölbreyttari og betri samfellu í meðferð, betri eftirfylgni og koma þannig til móts við einstaklinga til að styðja þá enn betur en nú er, aftur út í lífið.


Það var starfsfólki Samhjálpar mikil uppörvun að finna jákvæðni og áhuga ráðherrans. Búið er að segja upp leigusamningi Samhjálpar við eigendur núverandi húsnæðis Kaffistofunnar og því mjög brýnt að finna nýtt húsnæði sem hentar undir þetta úrræði sem beinlínis er lífsnauðsynlegt mörgum. Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar var mjög ánægð að fá ráðherrann í heimsókn og finna þann mikla hlýhug og velvild sem starf Samhjálpar hefur frá stjórnvöldum sem þegar hefur birst með fjárstuðningi til reksturs Hlaðgerðarkots í sumar.



Commenti


bottom of page