top of page

Að gefa sjálfum sér gjöfVið nútímafólk höfum mikla trú á að hafa það notalegt, veita okkur eitthvað. Það teljum við undirstöðu hamingju og vellíðanar. En hvað ef maður gæfi sjálfum sér þá gjöf að láta á móti sér? Um það fjallar Gunnar Hersveinn heimspekingur í bók sinni Vending, vínlaus lífsstíll. Hann byrjar á að segja lesendum að sjálfsaga, harðfylgni og góðvild þurfi til að finna gjöfina sem býr innra með hverjum og einum.

 

Áfengi er sjálfsagður hluti af nútímalífsstíl. Það er nær alls staðar í boði þar sem menn koma saman en samt vitum við að það er eitur, ávanabindandi og hættulegt jafnt andlegri sem líkamlegri heilsu. Gunnar Hersveinn talar um tvífarann, þann sem talar gegn skynseminni, gegn heilbrigða hrausta sjálfinu og ræður stundum för. Það má hins vegar þjálfa hugann og sigra tvífarann eða kannski frekar sættast við hann og fá hann í lið með sér í vegferð sinni í átt að betra lífi.

 
Hraustur heili er það sem stefnt er að. Hugur sem er sívakandi og við stjórn. Bók Gunnars Hersveins er skemmtilega og gagnlega uppsett. Hann byrjar á að fara í gegnum orð og hugtök sem eru undirstaða þess að breyta lífi sínu. Fótkeflin eru fyrst, þá hamingja og áfram þar til komið er að lífsreglum, sjálfsaga, ákvörðun og góðvild. Eftir að hafa glöggvað sig á merkingu þeirra og hvernig má nota þau sem tól á vegferð sinni til betra lífs er komið að vendingu. Það orð er stórkostlegt. Komið úr siglingamáli og þýðir að snúa seglum sínum, hagræða þeim upp í vindinn þannig að skipið breyti algjörlega um kúrs.

 

Í lok bókar er svo að finna lítið stafrófskver fyrir vínlausan lífsstíl. Nokkur af fegurstu orðum málsins er þar að finna ásamt sumum af þeim erfiðustu, frelsi, kærleikur, æðruleysi, þakklæti, yndi og traust eru þar á meðal.

 

Gunnar Hersveinn skrifar skýran, fallegan texta. Það er auðvelt að hrífast með og skynja hvert hann er að fara með ábendingum sínum og leiðarvísum. Vending, vínlaus lífsstíll er gagnleg bók fyrir þá sem ætla að gera febrúar að edrúar og alla þá sem vilja skapa sér léttara og hamingjuríkara líf.

Comments


bottom of page