Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu í kjölfar hnífaárásar í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt þar sem ung stúlka lét lífið. Svo virðist sem áfengisneysla hafi aukist með ungmenna og höfð voru afskipti að allt niður í þrettán ára börnum á menningarnótt. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af auknu ofbeldi meðal ungmenna samfara aukinni neyslu. Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnti nýverið nýskipaðan aðgerðahópur vegna ofbeldis í garð og á meðal barna.
Hópnum er falið að hrinda í framkvæmd aðgerðum mennta- og barnamálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis til að sporna við og bregðast við ofbeldi og auknum hnífaburði samfara aðgerðum heilbrigðisráðuneytisins er lúta að heilbrigði og vellíðan barna. Með þessum aðgerðunum er ætlunin að sporna við þeirri þróun sem hefur verið í samfélagi barna og ungmenna í átt að auknu ofbeldi. Vonast er til að aukið forvarnarstarf muni skila árangri en reynslan hefur sýnt að hægt er að draga úr og snúa við þróun af þessu tagi. Yfirvöld hyggjast leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi og foreldrar og aðrir í umhverfi barna ættu einnig að hafa augun opin og leitast við að leggja sitt af mörkum til að bregðast við verði þeir varir við að barni líði illa.
Í fréttatilkynningu frá stjórnarráðinu segir: „Frá því að grunur vaknar um að barn hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi eða er líklegt til að verða fyrir því, skiptir sköpum hvernig brugðist er við til þess að tryggja vernd, vellíðan og öryggi þess. Hið sama á við um barn sem hefur beitt eða er líklegt til að beita ofbeldi. Þjónusta sem tekur mið af þörfum barna er einn mikilvægasti liðurinn í því að tryggja börnum viðeigandi og tímanlega aðstoð þegar hennar er þörf.
Mikil áhersla er lögð á þétta og góða samvinnu allra þeirra sem koma að málefnum barna. Hópurinn er skipaður fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborgar, Barna- og fjölskyldustofu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embættis ríkislögreglustjóra, lögregluembætta og Heimilis og skóla.
Starfshópnum er ætlað að forgangsraða aðgerðum, móta áætlun um framkvæmd og innleiðingu þeirra, fylgja innleiðingunni eftir og mæla árangur. Með markvissri innleiðingu aðgerða, eftirfylgni og árangursmælingum er ekki einungis verið að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin hér á landi heldur gefst einnig kostur á því að varpa ljósi á umfang og eðli vandans og bregðast rétt við. Slíkt er afar þarft til þess að tryggja viðeigandi viðbrögð og úrræði, auk þess sem það dregur úr líkunum á ófyrirséðum neikvæðum afleiðingum inngrips.“
Comments