top of page

Alkóhólismi er sjúkdómur einmanaleikans




Margir þeirra sem glímt hafa við fíkn lýsa einsemd sinni og einangrun meðan sjúkdómurinn hafði öll völd í lífi þeirra. Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir gaf nýlega út bókina, Einmana, tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar. Þar kemur hún inn á samband einmanaleika og fíknar.


Bókin er áhugaverð stúdía á hvernig tengsl hafa smátt og smátt trosnað í Vestrænum samfélögum og einsemd farið vaxandi. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur meira að segja tala um faraldur einmanaleika. Aðalbjörg Stefanía kynntist sjálf útilokun og einelti á barnsaldri og man þá tilfinningu að finnast hún standa algjörlega ein. Hið sama gilti þegar hún missti föður sinn, en hann svipti sig lífi í kjölfar þess að hann kom út úr skápnum og viðurkenndi samkynhneigð sína. Þrátt fyrir að hafa notið mikils stuðnings sinna nánustu varð honum um megn að takast á við allt sem þeirri breytingu fylgdi.


Hún fléttar einnig inn í frásögnina sögum annarra, fólks sem hún hefur kynnst og haft samband við vegna athugana sinna. Hún talar ekki síður um tengsl okkar við okkar innra sjálf, einveruna og hversu holl hún getur verið þótt einmanaleikinn sé eigi að síður sár.


Fíkn og einmanakennd


Í kafla um fíkn og einmanaleika segir Aðalbjörg:


„Úti um allt er óþrjótandi framboð af fæðu og hugbreytandi efnum. Eftir því sem vinum okkar fækkar fjölgar fermetrunum sem við búum á. Við höfum skipt tengslum út fyrir efnislega hluti og fyrir vikið hefur einmanaleiki aldrei verið jafnalgengur og útbreiddur og nú. Þörfin fyrir tengsl dvínar aldrei, hún er djúpstæð og hana þarf að uppfylla.“


Og aðeins síðar:


„Kjarni fíknar felst í því að finnast óbærilegt að vera til staðar í eigin lífi. Tengslaleysi skapar holu innra með okkur og við reynum að fylla hana með áfengisneyslu, innkaupum, vinnu klámi, söfnunaráráttu, fjárhættuspilum eða eiturlyfjum.“ (Einmana bls.119).

Bók Aðalbjargar Stefaníu er einstaklega vel unnin úttekt á einmanaleika en einnig því samfélagi sem við búum í. Hún lýsir á næman og vel rökstuddan hátt hvernig fjarlægð milli fólks, bæling og lítilsvirðing tilfinninga, auk óraunhæfra krafna og samfélagsmiðlar með öllum sínum tækifærum, þrýstingi og göllum hafa náð að færa suma nær hver öðrum en sundrað og útilokað aðra. Aðalbjörg hefur traustan fræðilegan bakgrunn á bak við umfjöllun sína og Einmana, tengsl og tilgangur í heimi vaxandi einsemdar er holl lesning fyrir alla.

Comments


bottom of page