top of page

„Allir stoppa hjá Þóru“



Hjónin Einar D. G. Gunnlaugsson og Þóra M. Sigurðardóttir búa árið um kring í heilsárshúsi sínu í Hraunborgum í Grímsnesi. Við sögðum nýlega frá því hversu myndarlega þau hafa styrkt starfsemi Kaffistofunnar í gegnum tíðina. Eftir að þau fóru á eftirlaun ákváðu þau að leigja út íbúð sína í Reykjavík og setjast að í paradísinni fyrir austan fjall. En þótt þau séu tæknilega hætt að vinna eru þau svo sannarlega ekki aðgerðarlaus.


Í Þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum er rekinn markaður um helgar og allir sem þangað koma stoppa hjá Þóru, eins og Einar segir og við hjá Samhjálp gátum staðfest að það er rétt um síðustu helgi þegar við heimsóttum þau í sólskini og blíðuveðri.

„Ég segi alltaf að þetta sé falin perla,“ segir Þóra eftir að hafa boðið okkur velkomin og sýnt okkur pallinn og leikvöllinn fyrir aftan Þjónustumiðstöðina. Þar er mikið skjól og krökkt af fólki og börnum að leik. Þau Þóra og Einar eru samhent hjón og kunna sannarlega ekki við að sitja með hendur í skauti.


„Við fórum til Tenerife í janúar og dvöldum til fyrsta apríl og þá prjóna ég lopapeysur og fleira,“ segir Þóra og brosir. „Það kann að hljóma skringilega að hafa með sér lopa út á sólarströnd og prjóna þar skjólflíkur.“


„Já, það er nefnilega þannig að þegar hún prjónar, verð ég að þegja,“ bætir Einar við. „Það má ekki trufla því þá verður munstrið vitlaust. Ég tek þá upp vatnslitina og sit við að mála vatnslitamyndir. Ég bý síðan til póstkortin eftir þeim.“


Ekkert hægt að breyta eftir að liturinn fer á blaðið


Einar er snillingur í að mála íslenska fugla og gamlar sveitakirkjur og myndirnar hans eru til sölu á markaðnum. Hann hefur einnig látið útbúa póstkort eftir þeim.„Munurinn á vatnslitum og olíu er sá að eftir að vatnsliturinn er kominn á blað þá breytir þú því ekki neitt. Olíuna má hræra upp aftur og laga til. Ég læt litgreina myndirnar fyrir mig hjá Samskiptum og búa til orginala eða frumrit. Ég á þá í tölvutæku formi og nota þá til að búa til kortin. Þau eru búin til fyrir 13x18 ramma sem fást í IKEA og foreldrar hafa keypt töluvert af kortunum til að hengja upp í herbergjum barnanna sinna. Hvert kort kostar 400 krónur. Eftirprentun myndanna í stærðinni A4 í ramma ásamt póstkorti af sömu mynd kosta 3500 krónur og það fer beint inn á reikning Samhjálpar.“


„Fólk er svo glatt að fá tækifæri til að styrkja gott starf,“ segir Þóra. „Ég segi þeim gjarnan frá því þegar við fórum með seytt rúgbrauð á Kaffistofuna í fyrrahaust. En við fréttum að Rósý, forstöðukona Kaffistofunnar ætlaði að vera með plokkfisk og hún bað okkur að koma aðeins fyrir opnun. Ég eiginlega fór að gráta. Það gekk mér svo að hjarta að sjá fólkið sem var að bíða eftir að komast inn í hlýjuna úr kuldanum. Sumir skjálfandi af kulda. Ég fór með fullan poka af hlýjum fatnaði til hennar í kjölfarið.“


Væri hægt að fá 9-5 vinnudag aftur?


Það er gjarnan talað um að fólk setjist helgan stein þegar það hættir að vinna. Er það ekkert á dagskrá hjá ykkur?


„Nei,“ svaraði Einar, „ég sagði við Þóru um daginn, vorum við ekki að vinna frá 9-5? „Jú,“ svaraði hún. „Ætli það sé ekki hægt að fá þann vinnutíma aftur,“ segir Einar og þau skellihlæja bæði. „Meðan vertíðin er hérna á markaðnum hjá okkur er dagurinn langur. Hún bakar alla vikuna allskonar bakkelsi, en vaknar svo á laugardagsmorgnum klukkan fimm til að baka heilsubollur sem við seljum hér.


Ég spurði hana hvers vegna hún bakaði ekki bara á föstudagskvöldi fyrir helgina en það kom ekki til greina þetta verður að vera alveg nýtt svaraði hún. Maður getur líka legið upp í sófa með tærnar upp í loft og safnað sjúkdómum. Ég fékk nú hálfgert sjokk um daginn þegar ég sá viðtal við fólk sjö árum yngra en ég er á hjúkrunarheimili. Það eru bara ekki allir jafn heppnir með heilsuna.  


Ég verð sjötíu og átta ára í nóvember. Frá því að við urðum fimmtug höfum við farið í allsherjartékk hjá heimilislækninum árlega. Við erum svo heppin að vera með lækni sem er bæði heimilislæknir og krabbameinssérfræðingur og hann fiskar eftir því í blóðprufunum. Ég fór til hans um daginn og hann sagði við mig: „Einar minn, þarftu þú ekki að fara niður á Hagstofu? Ég hváði og spurði: „Af hverju?“ „Nú til að athuga hvort fæðingarárið þitt sé rétt.“ Meira hrós fær maður ekki. Eins og áður sagði látum við okkur líka hverfa til Tenerife í janúar í þrjá mánuði á hverju ári til að hlaða batteríin, og svo skiptir miklu máli hvernig maður er hér uppi,“ segir Einar og bendir á ennið á sér.


Selst eins og heitar lummur


Og svo ferskt og nýtt er bakkelsið að það selst oftast allt upp. Þóra býður einnig upp á hjónabandsælur, kanilsnúða, seytt rúgbrauð, bananabrauð og annað góðgæti. Fyrir ofan hana hanga svo gullfallegar handprjónaðar lopapeysur. Þau rækta rabarbara við húsið sitt og allt í kring eru berjalönd og þar tína þau árlega efnið í sultur og annað sælgæti sem Þóra býr til og selur á markaðnum.


„Við tínum svona 10-12 kíló af bláberjum hérna í kring árlega þegar berjasprettan er góð,“ segir Einar. „Svo erum við með tvær gerðir af rabarbara. Það annars vegar dæmigerði íslenski víkingarabarbarinn sem við köllum svo og hinn er þýskur vínrabarbari frekar grannur og rauður í gegn. Hann er ofboðslega sætur.“


„Ég nota alltaf bara hrásykur í sulturnar,“ segir Þóra. „Það gerir þær hollari og ég þarf mun minni sykur þegar ég nota vínrabarbarann.“


„Við búum líka til rabarbara-chutney sem er ofboðslega gott,“ bætir Einar við. „Þegar við eldum kjúklingalæri eða kjúklingaleggi í eldföstu móti er galdurinn að maka chutneyinu yfir bitana þegar svona tíu mínútur eru eftir að eldamennskunni og það er svakalega gott. Það liggur við að maður éti beinin og allt saman.“


Ofur-jarðarberjaplöntur


Þau eru líka með ananas-chutney sem Einar segir að sé frábært á pizzur þótt auðvitað sé ekki þorandi að segja fráfarandi forseta Íslands það. Svo verður ekki hjá því komist að nefna sýrðu gúrkurnar frá þeim sem eru hreint sælgæti og án efa það besta sem hægt er að fá með grilluðu íslensku lambalæri. En enn fleira leynist í pokahorninu.


„Í sumar bjóðum við líka jarðarberjaplöntur innfluttar frá Hollandi. Þær eru forræktaðar úti

síðan settar í frost. Ég tek plönturnar svo í þíðingu, klippi til ræturnar og snyrti þær. Kem plöntunum fyrir í 10 lítra potti og sel hann með áburði. Hver planta kostar 5500 krónur og þar af renna 500 krónur til Samhjálpar.“


Þær heita Sónata og það er mjög gjöfult yrki sem gefur góða uppskeru allt sumarið. Einar blandar sjálfur áburðinn, sem fylgir hverjum potti í 2 lítra flösku, en blandan er gerð samkvæmt uppskrift, Einars Sigurðar, sonar Einars og Þóru, sem er garðyrkjufræðingur og rekur fyrirtækið Aldingróður ehf., blandan er gerð með tilliti til róta- og berjaframleiðslu. Áburðurinn er gefinn frá miðjum maí til mánaðarmóta júlí/ágúst.


„Það er vökvað með einum bolla af áburði í annað hvert sinn alveg niður við moldina því það má alls ekki fara á blómin. Síðan er vökvað með vatni og þannig koll af kolli þar til áburðurinn er búinn, en eftir það er einungis vökvað með vatni. Ég set miða á flöskurnar með leiðbeiningum um hvernig á að vökva og til að tryggja að fólk sé ekki að drekka þetta,“ segir Einar og skellihlær.


Það er auðheyrt að hér er ekki slegið slöku við. Markaðurinn í Þjónustumiðstöðinni í Hraunborgum er opinn alla laugardaga frá miðjum maí þar til þjónustumiðstöðin lokar í ágústmánuði og er opnunartíminn markaðarins frá kl: 10:00 til kl: 15:00 og við hvetjum alla til að nota tækifærið í sumar og skella sér í bíltúr austur í Hraunborgirnar í Grímsnes, njóta náttúrufegurðarinnar og koma við hjá þeim Þóru og Einari. Þau hafa einnig bætt við bókum og hér getur fólk keypt á góðu verði skemmtilega sumarlesningu en einnig gefið bækur til að styrkja Samhjálp og gleðja aðra.


Myndir Einars eru fallegar og gaman að færa vinum og kunningjum slíkt listaverk og jafnframt póstkortunum. Ekki skemmir að menn eru að styrkja gott málefni í leiðinni.Á bakhlið hverrar myndar stendur eftirfarandi texti:


Ágæti viðskiptavinur

Með kaupum á þessari mynd, (sem er eftirprentun af vatnslitamynd á vatnslitapappír eftir Einar D. G. Gunnlaugsson), styrkir þú starfsemi Kaffistofu Samhjálpar, en andvirði myndarinnar rennur til kaupa á heitri máltíð fyrir skjólstæðinga Kaffistofunnar.

Fyrir hönd starfsfólks Kaffistofunnar færi ég þér þakkir fyrir stuðninginn Einar D. G. Gunnlaugsson

Sjá nánari upplýsingar um Kaffistofuna á þessum link. 

 

 

 

 

 

Comments


bottom of page