top of page

Alltaf að hækka markmiðið



Daníel Ísak Maríuson ætlar að hlaupa til styrktar Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Daníel Ísak lauk nýlega meðferð í Hlaðgerðarkoti og er í óðaönn þessa dagana að byggja upp líf sitt og efla sjálfan sig á allan hátt. Hann ætlar að hefja nám í fatahönnun í haust og þá verður hann búin að leggja að baki heilt maraþon.

 

Hvers vegna valdir þú að styrkja Samhjálp í Reykjavíkurmaraþoninu í ár?

 

„Ég kláraði meðferð í Hlaðgerðarkoti, meðferðarheimili á vegum Samhjálpar og þar var tekið mjög vel á móti mér,“ segir hann. „Mér var hjálpað mikið með mína erfiðleika með áfengi og fíkniefni. Ég er ofboðslega þakklátur fyrir Samhjálp og þeirra starf og mig langar að hlaupa til styrktar samtökunum og leggja mitt í púkk til að styrkja þetta frábæra starf.“

 

Hvað ætlar þú að hlaupa langt?

 „Ég ætla hlaupa 42 km,“ segir hann ákveðinn.

 

Það er ekki lítið metnaðarfullt, að taka heilt maraþon svona strax. Ertu búinn að undirbúa þig mikið?

 „Ég fer stundum út að hlaupa svona venjulega en undanfarna þrjá mánuði hef ég verið að undirbúa mig mjög mikið og ég hef tvisvar sinnum hlaupið 25 km.“


Ertu búinn að hlaupa lengi?

„Já, og ég æfði fótbolta í tólf ár með Fram en hætti þar fyrir tveimur árum. Auk þess er ég mjög duglegur að hreyfa mig og mjög aktívur í ræktinni.“

 

Daníel Ísak er þess vegna fullviss um að hann verði tilbúinn á stóra deginum og allt muni ganga vel en hvernig hefur gengið að safna áheitum?

„Miklu betur en ég bjóst við, fyrst var markmiðið 100 þúsund en núna er ég kominn í 350 þúsund og markmiðið hefur þess vegna verið hækkað upp í 500 þúsund sem ég er ekkert eðlilega sáttur með,“ segir hann glaður.


Hvað er svo næst á dagskrá þegar þessu hlaupi er lokið?

„Ég ætla halda áfram að hlaupa, finnst bakgarðshlaupið og Laugarvegurinn mjög spennandi, og síðan er ég að byrja í skóla að læra fatahönnuðinn sem mér finnst mjög spennandi,“ segir hann að lokum og kannski byrjar hann á að hanna hlaupaföt.


Við hvetjum ykkur til að heita á þennan flotta hlaupara. https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/12793-daniel-isak-mariuson

 

Comments


bottom of page