top of page

Bjóða hlýju og næringu fyrir sálina á Jólastund Samhjálpar


Þegar jólin nálgast er óhjákvæmilegt að streitan nái sífellt sterkari tökum á fólki. Það er einfaldlega í mörg horn að líta og margt sem þarf að gera á þessum árstíma. Þess vegna er ofurlítil kyrrðar- og gleðistund vel þegin. Jólastund Samhjálpar eru tónleikar í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu þann 12. desember næstkomandi. Það er Sveinn Þráinn Guðmundsson sem átti hugmyndina að því að skapa notalega jólastund fyrir alla þá sem þurfa á að halda og hann hefur veg og vanda af skipulagningunni.

 

En hver var kveikjan að þeirri hugmynd að blása til Jólastundar Samhjálpar? „Okkur langaði einfaldlega að halda hátíðlegan viðburð í aðdraganda jóla og fannst tilvalið að nýta hann sem vettvang til að styrkja starf Samhjálpar,“ segir Sveinn. „Við ætlum að eiga virkilega hlýlega og hátíðlega stund í aðdraganda jóla – njóta samveru við hvert annað og hlýða á ljúfa jólatóna. Söngvarar kvöldsins verða Bína Hrönn, Edgar Smári, Íris Beata, Katrín Inga, Sveinn Þráinn, Þóra Gréta og fleiri. Við þurfum auðvitað undirleik og hljómsveitina skipa: Einar Sigurmundsson, Emil Hreiðar, Hjálmar Karl, Hjalti Gunnlaugs, Margrét Árnadóttir og Pála Árnadóttir.“

 

Þú hefur augljóslega fengið í lið með þér hóp frábærra tónlistarmanna og söngvara. Voru allir tilbúnir að leggja hönd á plóg? „Það hefur margt frábært fólk komið að Jólastund Samhjálpar og tekið að sér ýmis verkefni stór og smá. Öll hafa þau verið tilbúin að gefa sína vinnu til Samhjálpar, enda mikilvægt málefni að styðja við.“

 

Gjöf án nauðungar og ekki með ólund

Það er ókeypis inn á tónleikana svo lengi sem húsrúm leyfir en tekið við framlögum. Hvers vegna kaust þú að fara þá leið frekar en að innheimta aðgangseyri? „Tónleikarnir eru haldnir með það helst í huga að koma öllum í hátíðarskap í aðdraganda jóla. Við viljum að allir hafi tækifæri til að koma og aðgangseyrir komi ekki í veg fyrir það. Á tónleikunum munum við svo safna fyrir starfi Samhjálpar og eins og segir í Síðara Korintubréfi 9:7 „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.““

 

Þetta er falleg hugsun og sannarlega nokkuð sem gott er að ígrunda einmitt á þessum árstíma. Þið hvetjið fólk til að koma og eiga saman notalega stund, njóta samveru. Nú er hætt við að jólastressið sé að ná tökum á fólki einmitt á þessum tíma. Er tilgangurinn kannski öðrum þræði að draga úr því? „Á tónleikunum verða spiluð afslöppuð jólalög sem munu klárlega draga úr stressinu og mýkja okkur upp í jólaundirbúningnum,“ segir Sveinn Þráinn og brosir.

 

Þarf fólk að skrá sig einhvers staðar eða láta vita hafi það áhuga á að koma á tónleikana? „Engin skráning er nauðsynleg á tónleikana en húsið opnar 19:30. Fíladelfíukirkjan er í Hátúni 2 og gott að hafa í huga að allar gjafir og styrkir sem berast renna óskiptar til þeirra sem þurfa á aðstoð að halda. Við bjóðum alla velkomna að koma og vera með okkur á þessu notalega jólakvöldi og upplifa hátíðaranda sem nærir hjarta og sál,“ segir Sveinn Þráinn að lokum.


Comments


bottom of page