top of page

Edrú og forvitin 




Þótt máltækið segi að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta eru æ fleiri sem kjósa að vera án áfengis. Margt ungt fólk tekur ákvörðun um að byrja aldrei að drekka og eldra fólk kýs að hætta. Ástæðurnar eru margar og ekkert endilega alkóhólisma. Úti í heimi er orðin til hreyfing, edrú og forvitin, en þá snýst allt um að njóta lífsins í botn og láta ekkert trufla upplifunina.

 

Nánast alls staðar í heiminum jókst áfengisneysla meðan á Covid-faraldrinum stóð. Aukin einangrun, efnahagslegt óöryggi, alvarleg veikindi og dauðsföll urðu til þess streitustigið í samfélaginu náði nýjum hæðum og þá er alþekkt að fólk leitar slökunar í aukinni drykkju. Hið andstæða var einnig til staðar. Sumir ákváðu þvert á móti að draga úr neyslu á áfengi og jafnvel hætta því alveg.

 

Áfengisneyslu fylgja timburmenn, höfuðverkir, ógleði, þreyta og andleg vanlíðan eru helstu einkennin. Margir finna einnig fyrir auknum kvíða eftir drykkju en það er eðlilegt því ethanól örvar framleiðslu gleðiboðefna í líkamanum og daginn eftir verður neytandinn var við svokallaða þurrð eða depletion. Vegna þess hve óeðlilega mikil gleðiboðefni fóru á kreik daginn eftir hefur jafnvægið raskast og það tekur tíma að ná því aftur. Edrúmennska hefur því jákvæð áhrif á heilsuna hvernig sem á það er litið.

 

Af hverju edrú og forvitin?

En af hverju að kalla þetta edrú og forvitin? Jú, vegna þess að þeir sem kjósa líf án áfengis telja að það gefi þeim tækifæri til að lifa fyllra lífi og njóta alls til fulls. Þeir telja forvitni uppsprettu lífsþorstans og þeir eru jú aldrei hífaðir eða drukknir og þess vegna ávallt fyllilega til staðar í núinu. Þeir finna heldur aldrei fyrir timburmönnum og missa þess vegna aldrei dag úr. Áfengi er dýrt og með því að spara þá peninga sem annars færu í vín má  spara njóta einhvers annars, til dæmis fleiri ferðalaga.

 

Er ekki eitt og eitt glas í lagi?

En hvers vegna kjósa æ fleiri að hætta alveg að drekka? Margt ungt fólk talar einmitt um að peningar séu ein ástæða þess að það kýs að drekka ekki. Meðal hinna eldri er oftar talað um tímann sem tapast þegar menn eru að drekka og glíma við þynnkuna. Þeir tala um að ævin sé einfaldlega of stutt til að sóa kvöldi og deginum eftir í glímuna við eitrunaráhrif alkóhóls. Þeir kjósa að vera með en drekka áfengislausa drykki og vera tilbúnir að hlaupa upp á Esjuna næsta morgun.


Fleiri og betri valkostir

Áfengislaus lífsstíll verður sífellt auðveldari. Nú er varla haldin nokkur veisla án þess að boðið sé upp á áfengislausa drykki líka. Áður var lítið í boði annað en gos en núna leggja flestir gestgjafar metnað í að vera með spennandi valkosti fyrir þá sem ekki drekka, til dæmis áfengislausa kokteila, heimagert límonaði, ferska ávaxtadrykki eða úrval gosdrykkja.

 

Hvernig stekkur maður á vagninn?

Því að hætta að drekka fylgir ekki einangrun eða lítið félagslíf. Sumir sjá það fyrir sér að ekki sé hægt að mæta í partí eða á pubbinn án þess að drekka en það er lítið mál. Til að byrja með væri kannski skynsamlegt að stinga upp á að hittast á stöðum þar sem þú veist að boðið er upp á spennandi valkosti fyrir þá sem ekki drekka. Skoðaðu úrvalið á þeim stöðum sem þér finnst skemmtilegast að sækja og veldu stað út frá því. Ef farið er út að borða skoðaðu vínseðilinn til að athuga hvað þar er af óáfengu. Ef þú ert á leið í veislu taktu með góðan óáfengan drykk og færðu gestgjafanum. Það er alveg jafn kærkomið og flaska af víni. Næsta skref er svo að njóta lífsins og finna skemmtilegar leiðir til að nýta allan þann tíma sem þú færð þegar timburmennirnir eru algerlega úr sögunni.

 

 

Comments


bottom of page