top of page

Elísabet prjónar fyrir þá sem minna mega sín



Skömmu eftir að Halla Tómasdóttir tók við embætti forseta Íslands sendi hún út ákall til allra Íslendinga að þeir gerðust riddarar kærleikans en þetta var hugsað sem andsvar við vaxandi ofbeldi og sinnuleysi samfélagsins. Hjá Samhjálp höfum við hins vegar þekkt og notið slíkra riddara í ríflega hálfa öld. Í þeirra hópi er Elísabet Magnúsdóttir. Fyrir jólin sendi hún fullan kassa af vandaðri og afskaplega fallegum prjónafatnaði á skrifstofu Samhjálpar sem hafa síðan veitt birtu og yl inn í líf gesta Kaffistofunnar og annarra skjólstæðinga samtakanna.

Hvers vegna ákvaðst þú að styrkja Samhjálp með þessum hætti? „Ég vildi gera það vegna þess að sonur minn fór í Hlaðgerðarkot fyrir nokkrum árum. Það eru ábyggilega komin ein tíu ár síðan hann var þar en ég var búin að koma með einhvern tíma áður sambærilega gjöf sem ég bað um að færi upp í Hlaðgerðarkot. Ég hef gert þetta á hverju hausti, farið með prjónafatnað til góðgerðarsamtaka, hef meðal annars farið með niður í gistiskýli, og ákvað að láta Samhjálp njóta núna. Ég hef hugsað mér að gera þetta áfram. Ég tek mig til og nota í þetta garnafganga. Svo er mikið af góðum konum sem gefa mér afganga til að prjóna úr.“

Biður þú þá um að fá þessa afganga eða færa konur þér þá vegna þess að þær vita að þú nýtir þá?

„Margar konur auglýsa garnafganga inn á facebook,“ segir hún. „Ég á góða vinkonu sem er mikið við tölvuna og hún merkir mig alltaf inn á sjái hún eitthvað svona og lætur vita að ég prjóna fyrir þá sem minna mega sín. Þannig hef ég fengið alls konar afganga gefins. Hún tekur þátt í þessu með mér.“

Vettlingarnir, húfurnar, sokkarnir og allt sem Elísabet kom með var einstaklega fallega unnið. Litríkt og mynstrað og svo vel prjónað að hvergi sá misfellu á neinu. Er hún mikil hannyrðakona?

„Já, ég er alltaf að prjóna,“ segir hún og hlær við. „Þetta getur alveg verið fallegt þótt maður noti bara afganga og prjóni úr alla vega litum. Þá skiptir mestu máli að setja saman liti sem passa vel saman.“

Ertu líka að prjóna handa barnabörnum og öðrum í kringum þig?

„Jú, jú en þau eru reyndar orðin fullorðin núna og farin að byrja að vilja aftur fá handprjónað.“

Og ekki að undra að þau panti frá ömmu sinni fremur en að kaupa út úr búð því það er bæði persónulegra og fallegra en nokkuð sem þar fæst. Samhjálp þakka Elísabetu stuðninginn og það er gott til þess að vita að enn vilja Íslendingar rétta fram hjálparhönd og styðja hvern annan.


Bình luận


bottom of page