top of page
ÖLL HÖFUM VIÐ OKKAR MÆLIKVARÐA Á HVAÐ ÞAÐ ER AÐ VERA FÁTÆKUR.
Sá mælikvarði sem Velferðarvaktin valdi til að skilgreina sárafátækt er byggður á mælingum um efnislegan skort. Hann byggir á því að fólk sé talið fátækt ef það hefur ekki efni á þeim lífsgæðum sem þykja eðlileg í því samfélagi sem það býr í.
Þeir teljast búa við verulegan skort á efnislegum gæðum eða sárafátækt þar sem fernt af eftirfarandi á við um heimilið: 1 Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum. 2 Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni. 3 Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag. 4 Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (sem voru að upphæð 160 þúsund árið 2011. 5 Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma. 6 Hefur ekki efni á sjónvarpstæki. 7 Hefur ekki efni á þvottavél. 8 Hefur ekki efni á bíl. 9 Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.
Mikill árangur hefur náðst í baráttunni gegn fátækt, en betur má ef duga skal. Árið 2015 töldust 1,3% landsmanna búa við sárafátækt eða rúmlega 4 þúsund einstaklingar. Konur og karlar eru álíka líkleg til að búa við fátækt og yngra fólk frekar en eldra fólk. Þeir sem ekki hafa vinnu eru líklegri til að búa við sárafátækt en þeir sem eru í vinnu og leigjendur frekar en þeir sem eiga eigið húsnæði. Uppruni skiptir einnig máli, en fólk af erlendum uppruna er líklegra til að búa við sárafátækt. Einstæðir foreldrar og þeir sem bjuggu við frekar eða mjög slæma heilsu voru jafnframt líklegri til að búa við sárafátækt.
Samhjálp er aðildarfélag EAPN (European Anti Poverty Network á Íslandi sem eru regnhlífasamtök þeirra félaga sem hafa það eitt af sínum meginmarkmiðum að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun. Líkt og rannsóknir sýna þá eru aðstæður fólks mismunandi og ólíkar ástæður fyrir erfiðleikum fólks. Afstaða EAPN er einföld: Fátækt og félagsleg einangrun eru brot á grundvallarmannréttindum, því fátækt gerir fólki ekki kleift að lifa með reisn. Fjölmargar tillögur liggja fyrir um hvernig megi útrýma fátækt og félagslegri einangrun í samfélaginu. Sú helsta er að Alþingi álykti um að móta og framkvæma heildstæða aðgerðaráætlun til að vinna bug á fátækt með sérstakri áherslu á húsnæðismál fólks sem býr við fátækt. Þar verði lögð áhersla á mannréttindi, félagsauð, valdeflingu og þátttöku þeirra sem búa við fátækt. Frjáls félagasamtök á borð við Samhjálp hafa verið leiðandi í gegnum árin í því að berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun. Því er mikilvægt að styðja vel við þeirra starf, bæði með sjálfboðavinnu og peningum til að styrkja starfið. Stjórnvöld geta gert sitt með ívilnunum til frjálsra félagasamtaka og stofnun sérstaks Samfélagssjóðs til að fjármagna starf frjálsra félagasamtaka að breskri fyrirmynd.
Það getur verið auðvelt að loka augunum fyrir fátækt. Það getur verið auðvelt að leita skýringa á fátæktinni hjá einstaklingnum. Auðveldara en að velta fyrir sér hvað það er í samfélagi okkar sem leiðir til þess að einstaklingur tekur fegins hendi á móti máluðum loðfeldum frá alþjóðlegum dýraverndarsamtökum til að halda á sér hita í gamla bílnum sínum kaldar vetrarnætur. Fátækt er staðreynd á Íslandi. Látum árið 2018 vera árið sem við heitum öll að gera okkar til að vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi.
Höfundur er fv. þingmaður og ráðherra.
bottom of page
Comments