top of page

Fannst öll sín vegferð hafa leitt að þessu augnabliki

Eins og sniðin í starfið  Líklega geta flestir tekið undir að afrek þessarar konu eru mörg og stór og hún er hvergi nærri hætt. BA-prófið tók Díana á mun styttri tíma en flestir og bætti við sig tveimur meistaragráðum og tveimur diplómum. Nú er doktorsritgerðinni lokið, en hún fjallar um mikilvægi handleiðslu, og doktorsvörnin verður á næstunni. Tafir urðu á doktorsverkefni Díönu þegar hún ákvað að sinna frænda sínum sem var veikur af krabbameini en það var eftir andlát hans sem hún sá auglýsta stöðu sjúkrahúsprests. „Mér fannst bara að öll reynsla mín og vegferð fram að þessu hefðu leitt að þessu augnabliki. Ég leit bara til himins og sagði: „Vá, ég skil núna hvað þú meintir með þessu.“ Og ég sótti um og fékk stöðuna. Í dag hef ég sinnt þessu í rúmlega fimm ár og finnst eins og ég hafi verið sniðin í þetta starf. Ég upplifi mig aldrei eina í þessu starfi. Guð er alltaf við hliðina á mér. Ég hef tekist á við flestallar þær kringumstæður sem geta komið upp í lífi fólks og bið Guð á hverjum degi að leiða mig og gefa mér það sem þarf til að vera verkfæri hans og fylla mig heilögum anda svo ég sé hæf í þetta. Í raun er engin manneskja hæf í þetta en ég sinni því af öllum þeim mætti sem mér er gefinn dag hvern.“ Díana er í hálfu starfi sjúkrahúsprests og í hálfu starfi í stuðnings- og ráðgjafateymi spítalans og heldur þar utan um starfsfólk sjúkrahússins. Nú er hún formaður þessa teymis. En hvað hefðir þú þurft þegar þú varst barn á götunni til að komast þá út úr þeim slæmu aðstæðum? „Hreinan kærleika,“ segir hún með áherslu. „Og hvað meina ég með því? Manneskjur sem ekki eru bara á klukkunni eða í vinnunni og nenna þessu varla. Barn skynjar þetta, ég skynjaði þetta. Öll árin sem ég var inni á unglingaheimilum og að hitta sálfræðinga og aðra sem tilheyrðu einhverjum batteríum skynjaði ég hvort fólk var þarna af heilum hug eða var bara í vinnunni. Sum höfðu líka eitthvert „hidden agenda“ eða falinn ásetning. Þau vildu fá eins konar viðurkenningu fyrir að hjálpa einhverjum vesalingi og sumir höfðu kynferðislegan áhuga á manni. Þegar það er staðan er það staðfesting á að unglingurinn eða barnið getur ekki treyst neinum. En þegar ég hitti fólk með hreint hjartalag og raunverulegan kærleika snerti það við mér, eins og þegar ég hitti manninn sem var að skera graflaxinn á ristaða brauðið. Það fólk skapaði grunninn að því hjá mér að ég sá að til var gott fólk og hægt var að treysta einhverjum. Ég tel líka alranga aðferð að sigta börnin út þegar þau sýna áhættuhegðun. Einangra þau sem vandann og leitast við að greina hjá þeim raskanir eða sjúkdóma. Það kann að vera að greining eða sjúkdómur sé undirrótin en það kann einnig að vera að vandinn liggi hjá foreldrum, heimilisástandi eða í umhverfi barnsins. Það þarf því að rýna í þær aðstæður áður. Ef þar er allt eins og það á að vera þá er það frábært, við búin að útiloka þá breytu og getum þá horft til barnsins. En þar sem við gerum það ekki getur verið að okkur yfirsjáist þau heimili sem þarfnast hjálpar,“ segir Díana að lokum.

Comentários


bottom of page