top of page

FRAMKVÆMDIR HALDA ÁFRAM


NÝBYGGINGIN Í HLAÐGERÐARKOTI ORÐIN FOKHELD

Áfram verður unnið að fjáröflun fyrir framkvæmdum við nýja byggingu í Hlaðgerðarkoti



Búið er að steypa upp alla útveggi og innveggi í nýju húsnæði í Hlaðgerðarkoti. Í júlí á þessu ári var þak sett á húsið, auk þess sem gluggum var komið fyrir. Framkvæmdir við nýbyggingu í Hlaðgerðarkoti hófust síðasta haust og hafa gengið samkvæmt áætlun. Fyrir áramót var hafist handa við að grafa grunn að húsinu, og um leið voru bílastæði á svæðinu stækkuð, þannig að hægt væri að koma fyrir þeim vinnutækjum sem til þurfti. Sem fyrr er það öflugur stuðningur fyrirtækja og einstaklinga sem gerir það að verkum að framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun. Límtré-Vírnet gaf nýlega límtrésbita undir þak hússins og Íspan gefur allt gler í glugga hússins. Þá veitir Trésmiðjan Börkur á Akureyri góðan afslátt við gluggasmíði. Öllum þessum fyrirtækjum og öðrum til eru færðar miklar þakkir. Þegar búið verður að loka húsinu verður ráðist í frekari innivinnu sem felst m.a. í því að koma hita á húsið, mála, ganga frá loftklæðningu o.s.frv. Í framhaldinu verður núverandi eldhús fært og því komið fyrir í nýju byggingunni. Þegar því er lokið verður það svæði sem nú hýsir eldhús og matsal, í eldri byggingu, innréttað sem herbergi fyrir skjólstæðinga Hlaðgerðarkots. Þá hefur nýr byggingarstjóri nú tekið við verkinu. Byggingarstjórn var upphaflega í höndum Ístaks, sem einnig sá um alla jarðvegsvinnu við upphaf framkvæmda. Samhjálp stendur í mikilli þakkarskuld við fyrirtækið fyrir framlag þeirra. Nýr byggingarstjóri er Magnús Sædal Svavarsson, byggingatæknifræðingur og fv. byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar.



KOSTNAÐARSAMT VERKEFNI Eins og áður hefur komið fram í Samhjálparblaðinu hefur í nokkurn tíma staðið til að hefja framkvæmdir í Hlaðgerðarkoti í þeim tilgangi að bæta aðstöðu þar verulega, fyrst og fremst fyrir vistmenn, en eins starfsaðstöðu. Haustið 2015 stóðu Samhjálp og 365 Miðlar fyrir landssöfnun á Stöð 2 fyrir þessu verki. Söfnunin tókst mjög vel og alls söfnuðust um 85 milljónir í gjöfum og loforðum um efndir þegar framkvæmdir myndu hefjast. Nýja húsið, sem er fyrsti áfangi af þremur, verður 260m2 að stærð og tengir tvö núverandi hús saman. Byggingin sem nú er að rísa verður nýtt sem fjölnota fundaaðstaða, skrifstofur fyrir lækna og ráðgjafa og einnig sem matsalur og eldhús. Núverandi eldhúsálma verður í framhaldinu innréttuð sem vistarverur fyrir karlmenn og mun hún rúma 20 vistmenn. Áfram verður unnið að frekari fjáröflun fyrir framkvæmdunum. Það lausafé sem safnaðist í fyrrnefndri landssöfnun hefur nú verið nýtt að fullu. Enn eru ónýtt loforð um efni og vinnu frá einstaklingum og fyrirtækjum sem voru gefin í landssöfnuninni, en þau verður ekki hægt að nýta fyrr en á seinni byggingarstigum. Þar má nefna öll gólfefni, milliveggi o. fl. Nú þarf að koma á hita og rafmagni í húsið svo hægt sé að vinna innandyra í vetur. Nú leitum við til fyrirtækja og stofnanna og biðjum um stuðning til áframhaldandi framkvæmda. Áætlanir gera ráð fyrir að um 60 milljónir þurfi til að ljúka þessum áfanga.

Comentarii


bottom of page