Mikil umræða hefur að undanförnu skapast um netverslun með áfengi í kjölfar þess að Hagkaup ákváðu að hefja sölu áfengis gegnum netverslun sína. Slík smásala með áfengi er ólögleg nema í gegnum erlendar verslanir með lager sinn utan Íslands. Mjög margir kalla eftir harðari viðbrögðum lögreglu við þessari verslun og að stjórnvöld skerist í leikinn með afgerandi hætti. Gunnar Hersveinn heimspekingur og siðfræðingur flutti áhugavert erindi um frelsi einstaklingsins á ráðstefnu í haust og við fengum leyfi til að birta hann í Samhjálparblaðinu. Hér á eftir fer erindi hans:
„Eiginskart sálarinnar er hófsemi, réttlæti, hugrekki, frelsi og sannleikur, samkvæmt Forn-Grikkjum. Ágætt er að spyrja sig: Hvað dregur úr frelsi?
Alkóhól dregur úr frelsi – að losna við það er eins og að losna við fótakefli, eins og að losna úr álögum, öðlast frelsi og hlaupa óhindrað og sársaukalaust. Spurningin snýst ekki um að hafa frelsi til að kaupa áfengi hvar og hvenær sem er heldur að verða frjáls frá því.
Hvað er frelsi?
Frelsi merkir m.a. að vera laus undan oki og ánauð. Ekki til að geta gert hvað sem er gagnvart hverju og hverjum sem er hvenær sem vera vill, heldur til að efla sjálfsaga, geta sett sér skynsamleg mörk og valið sér leið í lífinu.
Hinn frjálsi markaður sem selur vörur eins og áfengi án takmarkana heftir á endanum frelsi einstaklingsins. Hann verður háður efni sem er auglýst með beinum og óbeinum auglýsingum sem gleðigjafi við alls konar tilefni; brúðkaup, afmæli, vinamót, útskrift, eftir vinnu, til að slaka á, eftir erfiðan dag, eftir að verkefni er lokið, eftir að eiga það skilið, við hvers konar tilefni.
Þar sem það er staðreynd að alkóhól er ávanabindandi efni, þá lýkur þessu með því að frelsið víkur fyrir þeirri ánauð að þurfa að drekka oftar og meira.
Við þurfum ekki frelsi til að geta keypt vín alla daga og nætur. Alkóhól eykur ekki frelsi heldur dregur úr viljamætti og dómgreind, það takmarkar frelsi til að hugsa og taka heillavænlegar ákvarðanir. Frjálshyggjumaður sem boðar frelsi til að kaupa áfengi hvarvetna misskilur frelsishugtakið og samhengið alvarlega.
Hugtakið frelsi breytist oft við notkun í klisju, aðallega vegna þess að það er misnotað til að réttlæta hvaðeina. Fólk ofmetur líka rétt sinn til að gera, segja og eiga eitthvað. Það gleymir að taka tillit til annarra.
Takmarkað aðgengi að áfengi er ákjósanlegt
Takmarkalítið verslunarfrelsi til að kaupa áfengi dregur úr frelsi í fjölskyldum og í samfélaginu, það eykur líkur á ofbeldi, röngum ákvörðunum, slysum, og fyllir sjúkrahúsin af sjúklingum. Takmarkað aðgengi að áfengi er því ákjósanlegt.
Skuggahliðin á bak við verslunarfrelsi með áfengi er augljós, einföld og margsönnuð: aukið aðgengi, aukin neysla, fleiri veikjast og deyja, fleiri vandamál fyrir fjölskyldur og dýrara heilbrigðiskerfi. Einfaldlega vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf.
Það er réttur barna að búa í farsælu umhverfi, það veitir þeim frelsi. Mikilvægt er að markaðsöflin virði það, því ofneysla áfengis getur farið illa með fjölskyldur og meðvirkni í fjölskyldum er líka vandi sem þarf að hafa í huga. Markaðurinn er gildislaus, gleymum því aldrei. Honum er sama um farsæld, við verðum því að treysta á löggjafann sem hefur völd til að takmarka aðgengi.
Það er í raun ótrúlegt hve slæm áhrif alkóhóls eru miðað við vinsældir þess og hve mikil áhætta fylgir drykkjunni, meðal annars að verða alvarlega háður alkóhóli. Sókn eftir áfengi getur valdið óhamingju en það gerir val á vínlausum lífsstíl ekki, styðjum það, ekki hitt.
„Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum,“ kveður á í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Við höfum öll rétt til að verða frjálsar manneskjur. Hugtakið frelsi hefur ekki fullgerða merkingu nema í samhengi við annað.
Hrósið þeim sem drekka ekki áfengi!
Ég kann vel við að nota hugtakið frelsi. Ég vil vera frjáls andspænis ánetjandi efnum, alltaf, alla daga. Frelsið mitt er ekki hending. Áhættan sem felst í því að verða háður fíkniefnum er ekki í neinu samræmi við ávinninginn!
Víndrykkja er almenn í samfélaginu og hvarvetna er boðið upp á áfengi. Vínlaust fólk þarf oft að útskýra hvers vegna það vilji skera sig úr og er oft stimplað sem alkóhólistar, fíklar eða ófært um að hafa stjórn á sér. Í stað þess að fá hrós fyrir sjálfsaga, styrkleika og að nýta valkostinn er það dæmt fyrir veikleikann sem felst í löngun til að drekka áfengi. Myndinni er snúið við eða hvor er alkinn, sá sem aldrei getur flotinu neitað eða sá sem velur að vera alltaf allsgáður?
Hvert er mitt svar ef ég er spurður? Það gæti verið þetta:
Áfengi freistar mín ekki lengur, mér finnst betra í öllum kringumstæðum að vera laus við það. Alltaf, það eru engar undantekningar. Ég losnaði, ég frelsaðist, ég missti áhugann, löngunin hvarf, ég skipti um skoðun og tók ákvörðun um líferni án áfengis. Alkóhól gerir ekkert fyrir mig. Ég er frjáls frá áfengi!
Við verðum síðan að gefa öðrum af okkur, það er farsæl leið til að lifa og verða hamingjusöm. Ef lífið gefur mér gjöf, þá gef ég öðrum hana. Allir hafa gjöf að gefa, ef þú finnur hana, gefðu af henni. Við þurfum líka að læra að greina á milli, hvað er gjöf og hvað er ekki gjöf. Það er ekki gjöf að auka aðgengi að áfengi í nafni verslunarfrelsis til að breyta vínmenningu. Æ sér gjöf til gjalda hjá hagsmunaaðilum, sem búast þá við fleiri neytendum.
Ofneysla hefur áhrif á líðan allra í fjölskyldunni og litar félagsleg samskipti. Hún ýtir undir óeðlilega þætti og meðvirknin eykur streitu og kvíða. Einstaklingar glata frelsi sínu og hætta að hafa full tök á lífi sínu. Fæstir átta sig á þessu mynstri sem skapast í kringum einstaklinga með vímuefnaröskun, en það er lúmsk staðreynd.
Þetta er spurning um ákvörðun um frelsi til frambúðar og farsældar. Að berjast fyrir forvörnum og vínlausum lífsstíl í nafni frelsis og knýja á um að áfengi verði fellt af stallinum í samfélaginu.
Án sjálfsaga og hófsemdar og taumhalds verður ekkert frelsi. Hversu oft þarf að segja það: Áfengi er ekki venjuleg vara! Hver þarf áfengi ef markmiðið er: Skýr hugur, skapandi hjarta, hraustur heili.“
Gunnar Hersveinn er höfundur bókarinnar Vending – vínlaus lífsstíll (lifsgildin.is). Hann flutti erindi 13. febrúar á málþinginu Lýðheilsa og áfengi – hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim?
Comments