top of page

Gáfaða dýrið undir áhrifum



Maðurinn er einfaldlega gáfað spendýr og Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir opnar augu lesenda sinna fyrir því að aðeins með því að sættast við og skilja dýrið í sjálfum sér getur fólk orðið heilt og lifað innihaldsríku lífi í bók sinni, Gáfaða dýrið. Þetta stórmerkileg bók og allir sem hafa áhuga á að skilja tilfinningar sínar og upplifanir betur ættu að lesa hana.

 

Sæunn fer í gegnum þörf okkar fyrir nánd, tengsl og umhyggju og hvernig sífellt takast á frumstæði heilinn og heilabörkurinn þar sem hugsunin og persónuleikinn býr. Streita og ótti setjast að í mannsálinni þegar umhverfið svarar ekki á þann hátt sem hún þarfnast og þá er voðinn vís. Í kaflanum Undir áhrifum er fjallað um fíkn og hvernig vanlíðan rekur fólk til þess að leita í áfengi og aðra vímugjafa til að deyfa sársaukann og fá tímabundna hvíld frá honum.

Hún rekur hversu óhollt eða í raun hættulegt áfengi er heilsunni og þrátt fyrir að flestir viti það mætavel er það bæði eftirsótt og viðurkennt í samfélaginu, meira að segja svo sjálfsagt að þeir sem kjósa að nota það ekki þurfa frekar að réttlæta val sitt en hinir sem nota það. Sæunn segir m.a.: „Margir sem rannsakað hafa heilsufarsleg áhrif áfengis telja okkur í sömu sporum í dag gagnvart áfengisdrykkju og við vorum fyrir nokkrum áratugum varðandi reykingar, fáfróð og í afneitun.“ (Gáfaða dýrið, bls. 165)

 

Við viljum ekki vita af skaðanum sem áfengi veldur á heilsu okkar, samskipti við aðra, andlega líðan og félagslega stöðu. „Vegna eitrunaráhrifa etanóls forgangsraðar lifrin niðurbroti þess á kostnað annarrar starfsemi sem getur meðal annars komið niður á virkni skjaldkirtils og stjórnun blóðsykurs. Einkenni þess geta verið þreyta, þyngdaraukning, svefntruflanir, húðvandamál, höfuðverkur, heilaþoka og meltingartruflanir. Þá eru ónefnd áhrif áfengis á andlega líðan, svo sem kvíða, þunglyndi, svefnraskanir, skapsveiflur, hömlu- og dómgreindarleysi, aukna hættu á áhættuhegðun, ofbeldi, slysaförum og ótímabærum dauða.“ (Gáfaða dýrið bls. 163-164)


Jafnvel örlítið magn hættulegt

 

Þetta eru sláandi staðreyndir en samt er stór hópur fólks sem ekki getur hugsað sér að sleppa þess að drekka vín með matnum, í partíum eða skála fyrir ástvini á ánægjulegum tímamótum í lífinu. Þetta fólk hefur stjórn á neyslunni, er ekki að skaða neinn og hvers vegna ætti það þá að hætta? Svarið er einfalt jafnvel örlítið magn er hættulegt og veldur skaða. Lengi héldu menn að eitt glas á dag væri skaðlaust, það varð síðan að einu glasi á viku en í dag hallast vísindamenn að því að meira að segja einn sopi hafi áhrif.

 

Sjálf hafði Sæunn reynslu af ofneyslu áfengis og þeim áhrifum sem hún hefur á heimilislíf og börn sem vaxa upp við slík vandamál.

 

„Ég var sjö ára þegar áfengi laumaði sér inn í líf mitt. Þá var mamma nýorðin ekkja og einstæð móðir, rétt rúmlega fertug. Í von um smávegis gleði leitaði hún til Bakkusar sem reyndist henni illa. Engu að síður varð hann fastagestur á heimilinu í alltof mörg ár og jók á sorg mömmu og vansæld allra er þar bjuggu.“ (Gáfaða dýrið bls. 160)

 

Þetta eru áhrifamikil orð og Sæunni er einkar lagið að koma hlutunum frá sér á auðskiljanlegan og rökrænan hátt. Hún hefur djúpan skilning á mannlegu eðli og tilfinningum en viðhorf hennar lýsa umburðarlyndi og gæsku, orð hennar eru laus við alla áfellisdóma eða hneysklun. Hún kennir þvert á móti betri leiðir til að takast á við eigin ófullkomleika og sýna sjálfum sér þá gæsku að byggja upp í stað þess að brjóta niður.

Comments


bottom of page