Á vef stjórnarráðsins birtust þær góðu fréttir að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Bjargráði 12 milljóna króna styrk en Bjargráð er þjónusta fyrir fjölskyldur og aðstandendur þeirra sem bíða eftir fullnustu dóms, eru í afplánun eða er lausir úr henni. Þetta er ársgamalt úrræði sett á stofn með stuðningi félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Aðstandendur fanga hefur lengi verið falinn hópur innan samfélagsins og lítið verið hugað að líðan þeirra eða aðstöðu til að rækta samband við ástvin í fangelsi. Bjargráð er opið öllum og og þar starfa menntaðir fjölskylduráðgjafar með víðtæka reynslu af fjölskylduráðgjöf. Þjónustan er veitt á sama stað og Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar, í Safnaðarheimili Háteigskirkju
Undanfarin ár hafa nokkrir stigið fram og tjáð sig um skömmina, sektarkenndina, óttann og kvíðann sem fylgir því að eiga ástvin í fangelsi. Mæður, eiginkonur, unnustur og feður hafa talað um sjálfsásökun og úrræðaleysi. Aðstaða til heimsókn er misjöfn í fangelsum landsins en margir fangar eiga börn og þau eiga rétt á að rækta samband við foreldri sitt. Nauðsynlegt er að huga að líðan þeirra og skapa þeim farveg til að ræða um hana.
Samkvæmt tölum á vef Stjórnarráðsins hafa ríflega 80 einstaklingar nýtt sér þjónustu Bjargráðs frá stofnun og í kringum 300 viðtöl verið tekin. Samhjálp fagnar þessum fréttum en árlega hafa samtökin fært þeim sem sviptir eru frelsi í landinu páskaegg og jólagjafir en það er liður í þeirri viðleitni að vekja von og passa að enginn gleymist á hátíðastundum í íslensku samfélagi.
Comments