Samfelld endurhæfing mætir mismunandi þörfum einstaklinganna
Tilgangur Virknihúss er að bjóða samfellda endurhæfingu út frá mismunandi þörfum fólks. Úrræðin eru samnýtt með tilkomu Virknihúss en áður voru þau meira stök. Stundum er það þannig að endurhæfingarúrræðin fléttast saman útfrá þörfum hvers einstaklings.
Hvernig kemst fólk að hjá Virknihúsi?
Þóra segir Virknihús ekki opið úrræði sem slíkt í þeim skilningi að fólk geti sótt um þátttöku sjálft. „Reykjavíkurborg rekur miðstöðvar sem kenndar eru við höfuðáttirnar fjórar – norðurmiðstöð, suðurmiðstöð o.s.frv. - auk þess sem starfrækt er rafræn miðstöð. Til að fólk geti komist í þjónustu hjá Virknihúsi þarf að fara fram greiningarvinna hjá ráðgjöfum okkar sem starfa á miðstöðvunum og þeir senda svo tilvísun til okkar í Virknihúsi,“ segir Þóra.
Miðað er við að fólk hafi náð 18 ára aldri en starfsemi Virknihúss miðast aðallega við fjóra hópa: Foreldra sem þurfa stuðning; fólk sem hefur glímt við fíkn; fólk sem hefur verið utan vinnumarkaðar og fengið fjárhagsaðstoð; og fólk sem glímir við andleg veikindi.
Einstaklingar komast út í atvinnulífið á nýjan leik
Þóra segir hluta þeirra sem leita til Virknihúss hafa fengið fjárhagsaðstoð tímabundið en vilji gjarnan vinna. Þá fari aðstoðin gjarnan fram í því að hjálpa fólki að gera ferilskrá og sækja um starf. Atvinnu- og virknimiðlun er í boði fyrir þá sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar. Þóra segir hluta vinnunnar geta falist í því að hjálpa fólki að auka sjálfstraustið eða undirbúa sig undir atvinnuviðtal.
Þessi hluti starfsemi Virknihúss kallast IPS sem er skammstöfun fyrir Individual placement and support á ensku sem gæti útlagst á íslensku sem einstaklingsmiðuð starfatilhögun og stuðningur. Í IPS er stuðst við gagnreyndar aðferðir við að hjálpa fólki að finna störf við sitt hæfi og fylgja því úr hlaði þegar ráðning hefur átt sér stað.
Hugmyndafræði IPS gerir ráð fyrir að fólk sæki í samkeppnishæf störf. Þóra segir að í einhverjum tilfellum sé þó um störf að ræða þar sem fyrirtæki líta á það sem samfélagslega ábyrgð sína að veita einstaklingum tækifæri sem ekki hafa fengið vinnu í langan tíma.
„Sumir þurfa meiri aðstoð en aðrir,“ segir Þóra. „Aðstoðin getur til dæmis falist í fylgd í vinnuna, þjálfun í að vakna á réttum tíma, skipuleggja sig á morgnana og svo mætti lengi telja. Sumir þurfa aðstoð yfir lengra tímabil en aðrir aðeins í stuttan tíma. En við hjá Virknihúsi mætum hverjum einstaklingi þar sem hann er staddur.“
Hún segir nóg af störfum í boði um þessar mundir en oft þurfi fólk styrkingu til að hefja störf að nýju að loknu hléi. Sumir fari í hlutastarf og margir vinni sig upp. Enn aðrir hafa fengið ráðningu í störf hjá Reykjavíkurborg.
Þar sem draumar rætast
Þóra segir að til séu margar sólskinssögur af fólki sem hefur farið í gegnum endurhæfingu hjá Virknihúsi. „Þetta tekur mislangan tíma en við byggjum allt okkar starf á trúnni á einstaklinginn. Tilgangur okkar felst í því að styrkja og efla einstaklinginn til sjálfshjálpar. Hver einstaklingur er einstakur og við mætum honum þar sem hann er staddur.“
Allir þeir sem fara í gegnum endurhæfingarúrræðin hjá Virknihúsi vinna útfrá einstaklingsbundinni áætlun. Þóra er stolt þegar hún segir frá þeim árangri sem fólk hefur náð. „Fólk er að útskrifast með stúdentspróf og háskólapróf eftir að hafa fengið aðstoð við það að fara aftur í nám því skólasaga margra getur verið svo brotin. Það sama má segja um tenginguna við vinnumarkaðinn – fólk fær draumavinnuna sína og nær að blómstra.“ Hún segir að dæmin sanni að þau geti unnið út frá því að það eigi aldrei að gefast upp á fólki því það sé alltaf von.
Vímuefnalínan
Eitt af þeim úrræðum sem heyra undir starfsemi Virknihúss er Grettistak. Þetta er átján mánaða endurhæfing fyrir fólk sem upplifir félagslegar áskoranir í kjölfar þess hafa glímt við áfengis- eða vímuefnafíkn um langan tíma. Í Grettistaki er lögð áhersla á líf í bata. Unnið er með sjálfsstyrkingu og virkni auk þess sem þátttakendur hljóta þjálfun til að auka félagslega færni. Hluti af virkniáætlun einstaklinga í Grettistaki getur verið að stunda nám eða vinnu.
Comments