top of page

Gospel heilandi og falleg tónlist


Gospelkór Jóns Vídalíns styður Samhjálp

Gospelkór Jóns Vídalíns heldur jólatónleika í Vídalínskirkju þann 17. desember næstkomandi til styrktar Samhjálp. Þetta frábæra framtak vakti athygli okkar og því var haft samband við Dísu Sigurðardóttur, einn kórfélaga, og hún spurð út í sögu kórsins og um tónleikana framundan.


Gospelkór Jóns Vídalíns, hverjir eru í þeim kór og er gaman að syngja með honum?

„Gospelkór Jóns Vídalíns var stofnaður árið 2006 af Jónu Hrönn Bolladóttur og er starfræktur í Vídalínskirkju í Garðabæ,“ segir Dísa. „Kórinn er því á sautjánda starfsári sínu í ár og hefur sjaldan verið stærri. Bæði hvað varðar verkefni og stærð hópsins. Meðlimir í kórnum eru á breiðu aldursbili frá 18 ára og allt upp í fólk á fimmtugsaldri. Þrátt fyrir fjölbreyttan aldur er hópurinn samheldinn og skemmtilegur, enda hafa margir verið kórmeðlimir frá stofnun eða nærri því. Verkefnin sem kórinn tekur að sér eru margvísleg og skemmtileg og kórstjórinn Davíð Sigurgeirsson heldur hópnum á tánum með nýjum og krefjandi útsetningum og metnaðarfullu lagavali. Það segir kannski sitt um hversu skemmtilegt og gefandi er að vera í kórnum hversu margir hafa verið meðlimir hans í mörg ár.“


Það er gefandi að syngja saman og Íslendingar hafa lengi verið duglegir að syngja í kórum. Ert þú sjálf búin að vera lengi í gospelkórnum?„Ég hef verið í kórnum síðan í byrjun árs 2013, svo ég fagna ellefu ára kórafmæli í janúar 2024.“


Hvernig kom það til að þið ákváðuð að halda tónleika til styrktar Samhjálp?


„Við höfum haft þá hefð lengi að jólatónleikarnir okkar eru til styrktar góðu málefni. Við vitum að Kaffistofa Samhjálpar veitir nauðsynlegt athvarf og heitar máltíðir fyrir þá sem eiga um sárt að binda og fannst því tilvalið að velja að styrkja Samhjálp í ár,“ segir Dísa.


Gospel-tónlist hefur ekki notið sérlega mikilla vinsælda á Íslandi. Finnst þér það vera að breytast?


„Vinsæl og ekki vinsæl. Þótt gospeltónlist sé ekki spiluð mikið á útvarpsstöðvum á Íslandi eru samt sem áður margir fjölmennir og flottir gospelkórar á Íslandi og haldnar gospelmessur og -tónleikar vel sóttir viðburðir á landinu.


Ég held að gospel sé einstaklega heilandi og falleg tónlist, en líka fjölbreytt. Nútímagospeltónlist er t.d. mjög ólík sígildri gospeltónlist þó uppsprettan sé sú sama. Til dæmis heyrast stundum gospellög á stærstu útvarpsstöðvum landsins án þess að hlustendur geri sér sérstaklega grein fyrir því að um gospel sé að ræða. Lög eins og You Say eftir Lauren Daigle eða Rise Up með Andra Day eru hrein og klár nútímagospeltónlist, en bæði þessi lög voru ofarlega á vinsældarlistum stærstu útvarpsstöðva landsins þegar þau komu út.


Tónlistin sem Gospelkór Jóns Vídalíns flytur er allskonar. Meðal annars þekktari lög eftir George Michael, Arethu Franklin og Ásgeir Trausta en einnig minna þekkt og kraftmikið gospel eftir t.d. Kirk Franklin, Cece Winans og Sunday Service Choir. Ég segi minna þekkt en allir sem þekkja gospeltónlist ættu að þekkja þessi nöfn.


Ég hvet því alla sem hafa ekki prófað að mæta á gospeltónleika að prófa það núna á aðventunni og sjá hvort þeir séu jafnvel nú þegar gospelaðdáendur!“ Segir Dísa að lokum og við hér á Samhjálp tökum undir og hvetjum alla til að fjölmenna á jólatónleika Gospelkórs Jóns Vídalín.
댓글


bottom of page