
Agata Anna Sobieralska öðlaðist sterka trú tuttugu og átta ára gömul og Guð kallaði hana til að hjálpa heimilislausum og þeim sem glíma við fíkn. Hún kom fyrst til Íslands árið 2005 en sneri aftur til Póllands. Hana langaði að koma til baka og starfa fyrir Samhjálp. Þess vegna bað hún Guð að gera sér það kleift. Nú og auðvitað bænheyrði hann hana.
„Ég hafði heyrt að maður ætti að biðja guð á eins skýran og skilmerkilegan hátt og maður gæti um það sem mann vanhagaði um,“ segir hún. „Ég bað hann þess vegna að leyfa mér að fá vinnu hjá Samhjálp. Ég var ekki farin að læra íslensku en ég endurtók eins vel og ég gat, Samhjálp, og viti menn þegar ég kom hingað var eitt það fyrsta sem ég sá blaðaauglýsing frá Samhjálp þar sem óskað var eftir starfskrafti á eitt áfangaheimili samtakanna.“
Agata Auður starfaði þar í fimm ár og einnig í Hlaðgerðarkoti. Hún vissi ekki alveg hvað hún ætti næst að taka sér fyrir hendur, hvernig hún ætti að ná til þeirra sem hún þráði að hjálpa en hafði verið á ferð um göturnar í eitt ár að leita uppi og færa þeim sem hún hitti þar hlýju.
„Í einhverri örvæntingu bakaði ég köku og hitaði kaffi. Setti hitabrúsann og kökuna í innkaupavagn og gekk út á göturnar,“ segir hún. „Ég var leitandi og spurði sjálfa mig hvað ég gæti gert til að sýna fólki kærleika Guðs og koma til þess skilaboðum Jesús Krist, þeim góðu fréttum, að allir geta frelsast frá sínum erfiðu kringumstæðum. Þannig að ég gekk út á göturnar, leitaði uppi þá sem þar eru og byrjaði að biðja með þeim. Einu sinni í viku fór ég og fljótlega gerði ég mér ljóst að mjög margt heimilislaust fólk er einstaklega hæfileikaríkt og vel gert fólk. Ég talaði við þá sem ég hitti við Gistiskýlið við Lindargötu og úti á Granda og ég sá fallegt fólk með mikla möguleika sem það gat ekki nýtt sér vegna þessa sjúkdóms.“

Konan með kaffið og kökurnar
Það spurðist fljótt út að á ferð um göturnar meðal heimilislausra væri kærleiksrík kona sem byði upp á kaffi, kökur og spjall. Fátt betra á köldum dögum meðan fólk beið eftir að gistiskýlin opnuðu.
„Meðan á þessari vinnu stóð bað ég Guð um að tengja mig við aðra sem hefðu sömu hugsjón og ég því umbreyting og uppbygging af þessu tagi er ekki starf fyrir eina manneskju heldur mun frekar eitthvað sem heill hópur þarf að koma að og eftir næstum ár ein í þessu hitti ég Svövu Björgu Mörk. Hún var þá þegar leiðtogi Teen Challenge á Íslandi. Hún tók mig inn í hópinn og við fórum saman út á göturnar upp frá því,“ segir Agata Auður.
Hún réði sig síðan til starfa fyrir samtökin Teen Challenge eða TC: Hvers konar samtök eru það og hvernig kynntist hún þeim?
„Ég tengdist Teen Challenge í Póllandi og hafði þekkt þau samtök í næstum tuttugu ár. Samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum árið 1958 af predikaranum David Wilkerson. Hann var kallaður af Guði til að fara út á meðal ungra manna í gengjum New York-borgar og fræða þá um Jesús. Meirihluti ungs fólks á götum stórborgarinnar glímir einnig við fíkn og lifir því lífi sem býðst á götunni. Hann hóf að hjálpa þeim og allt hans starf var byggt á orði Guðs, kærleika hans og fljótlega kom í ljós að hann náði mun meiri árangri en aðrar meðferðaleiðir og meðferðastofnanir. Orðspor hans og upplýsingar um árangurinn barst mjög fljótt til annarra landa meðal annars til Póllands. Þar höfum við til dæmis um það bil fimmtíu stuðningshópa fyrir heimilislausa og þá sem glíma við fíkn.
Hér á landi hóf Teen Challenge starfsemi árið 2020 með því að stofna Biblíuskóla. Guð mat það svo að þar væri mest þörfin. Fólk sem hefur lokið meðferð og er á leið út í lífið að nýju getur fundið þar stuðning. Unnið í að byggja upp eigin karakter og mynda tengsl að nýju til að tryggja langvarandi bata. Eftir að ég hóf að vinna hjá þeim gaf Samhjálp okkur tækifæri til að koma daglega á Kaffistofuna og tala við fólk, biðja fyrir því og veita þeim alls konar hagnýta hjálp. Við eignuðumst frábæran bíl því samtökin Traveling Light veittu okkur styrk til kaupanna og sölumaðurinn gaf okkur góðan afslátt. Bróðir í Reykjavík prentaði svo og setti okkur að kostnaðarlausu mynd af Jesús á bílinn. Undir myndinni standa orð hans: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri.“ Ég fer með fólk til læknis, útvega því túlk, fylgi því í viðtöl hjá félagsþjónustunni og þar fram eftir götunum,“ segir hún.

Sjálf upplifað mátt Guðs
„Við reynum að aðstoða eins og við getum,“ heldur Agata Auður áfram. „Hópurinn okkar heitir Hjálparhönd. Við förum saman sem hópur út á götuna á hverjum fimmtudegi klukkan fimm og klukkutíma síðar bjóðum við upp á Kaffihús í húsnæði Kaffistofu Samhjálpar en það er stuðningshópur. Það er staður þar sem ljósið logar ævinlega og fólk getur treyst því og komið hafi það þörf fyrir samveru, samfélag, vináttu og skilning. Mér kemur í því sambandi í hug vers úr Jóhannesarguðspjalli, Jóhannes 8;36. „Ef sonurinn gjörir yður frjálsa munuð þér sannarlega verða frjálsir.“ Og sonurinn er Jesús Kristur.
Ég hef sjálf upplifað mátt hans og kynnst honum í eigin lífi. Fyrir mörgum árum síðan var ég á mjög dimmum stað. Ég glímdi við mörg persónuleg vandamál, ég var harmi lostinn og algerlega brotin. Að mér sóttu meira að segja sjálfsvígshugsanir, það hefur aðeins gerst í þetta eina skipti á ævi minni en það var mjög yfirþyrmandi. Ég hafði misst trúnna en sagði við Guð: „Guð ef þú ert til, hjálpaðu mér þá.“ Og smátt og smátt kom hjálpin. Bróðir minn leiddi mig til kirkjunnar aftur og annað fólk sýndi mér ást og umhyggju. Ég fór að hlusta og horfa á aðra, hvernig þeir hegðuðu sér og Guð náði til mín og gerði hjarta mitt heilt. Hann umbreytir lífum. Hann læknaði einnig annað í mér, eitthvað sem nefnt hefur verið því erfiða heiti, feminin chauvinism, sem þýða má karlhatur. Vegna þess sárs sem ég bar innra með mér fannst mér konur á einhvern hátt betri en karlar. Það er auðvitað ekki rétt en ég fann fyrir mikilli reiði hið innra og bar með mér mikinn sársauka sem ég gat ekki losað mig við. Þetta hafði áhrif á öll sambönd mín og samskipti við karlmenn. Dag nokkurn bað ég og sagði: „Guð ég gef þér þetta.“ Og hann tók þetta af mér. Síðan þá hef ég fundið frelsi og frið á þessu sviði lífs míns. Ég get núna hlustað á karlmenn segja vonda brandara um konur, tala niður til þeirra og samt verið almennileg við þessa manneskju, sýnt henni kærleika og reynt að leiða hana frá þessum stað sársauka sem hún augljósa er á. Heimurinn breyttist ekki en Guð breytti mér. Það er merkilegt vegna þess að meirihluti þess fólks sem ég vinn með nú eru karlmenn og ég get gert það reiðilaust og án birturra tilfinninga jafnvel þótt aðstæður séu erfiðar og yfirþyrmandi.“

Bjargaði mannslífi
Agata Auður kemur á hverjum degi á Kaffistofu Samhjálpar og situr þar með gestunum frá klukkan 10-14. Hún hefur byggt upp mikið traust og á vináttu allra þeirra sem hún hefur kynnst. Oft munar miklu um starf hennar og nefna má að eitt sinn leist henni ekki á útlit eins vina sinna og dreif hann með sér upp á spítala. Þar kom í ljós að viðkomandi var fárveikur. Ef hennar hefði ekki notið við er ómögulegt að spá um hvernig hefði farið í þeim tilfellum.
„Í stuðningshópnum mínum hjá Teen Challenge hitti ég samstarfsfólk mitt og þau eru lifandi vitnisburður um hvernig hægt er að sigrast á fíkn og komast frá heimilisleysi og lífinu á götunni. Í dag þrá þau heitar en nokkuð annað að rétta fram hjálparhönd til annarra og aðstoða þá við að komast yfir erfiðleika sína. Þetta fólk er svo mikill innblástur, svo uppörvandi og svo styðjandi. Við erum eiginlega eins og fjölskylda. Að mínu mati er þetta lykillinn að velgengni, vitnisburður einstaklinganna og máttur Guðs. Eitt dásamlegt dæmi um það var kær vinur okkar, Gulli, sem nýlega fór til húsa Föðursins. Hann elskaði Guð og allt fólk svo innilega, hann bókstaflega umvafði alla með ást, velvirðingu og gleði. Hann benti á að Guð hefði breytt sínu lífi og gæti breytt lífi annarra. Draumurinn er að eignast eigið húsnæði og við erum með áætlanir um það. Þangað viljum við bjóða fólki og fá það í samtal. Annar draumur er að geta boðið alhliða aðstoð þeim sem á þurfa að halda: meðferðarmiðstöð, áfangaheimili, gistiskýli, hjálparmiðstöð fyrir stúlkur og konur og nytjamarkað. Og bráðum munum við hefja þjónustu í fangelsum.

Ég hef séð að fólk á jaðri samfélagsins býr yfir svo mörgum verðmætum eiginleikum. Ég man vel eftir einum manni sem sagði alltaf fátt. Ég hélt að hann glímdi kannski við einhvers konar skerðingu því væri vart talandi. Svo fór hann smám saman að opna sig og dag einn kom hann með mynd sem hann hafði málað og færði mér. Það var mynd af krossi sem vafinn var í hlekki en hlekkirnir voru að bresta. Hann var þá listamaður sem tjáði tilfinningar sínar og þrár í málverkum. Við þekkjum öll einhvern sem glímir við fíkn og Guð er sá sem frelsar fólkið, hann er sá sem slítur keðjurnar,“ segir hún að lokum.
Comentários