„Ef maður sagði eitthvað vitlaust var Rebecka, fimm ára frökenin, snögg til, stappaði niður fótunum og sagði: „Man säger inte så der, man säger så her!““
„Ég bjó hjá sænskri fjölskyldu, hjónunum Ingrid og Zeibrant Näslund og börnum þeirra Rebecku og Markusi, í tvö ár. Það var yndislegur tími,“ segir Guðrún. „Ingrid var í doktorsnámi í frönsku en varð seinna háskólakennari og þingmaður demókrata á sænska þinginu. Zeibrant var farandpredikari, ferðaðist um og boðaði guðsorð. Ég var því oft ein með krakkana, enda var ég fljót að læra sænskuna. Ef maður sagði eitthvað vitlaust var Rebecka, fimm ára frökenin, snögg til, stappaði niður fótunum og sagði: „Man säger inte så der, man säger så her!“ Ég náði því að tala fína sænsku á stuttum tíma. Ég er enn í sambandi við þau og hef farið í heimsókn til þeirra og þau komið hingað.“
Vakin úr fastasvefni
„Svo opnaði ég augun og þá sá ég fullt af verum í hvítum kyrtlum með kransa á höfði og ljós. Það fyrsta sem mér datt í hug var: ji, þetta eru englarnir að koma að sækja mig. Jesús er að koma.“
Lúsíudagurinn er 13. desember. Hann hefur verið haldinn hátíðlegur í Svíþjóð frá árinu 1927 en dagsetningin hefur lengi markað upphaf jóla um öll Norðurlönd. Hann var upphaf jólaföstu og menn gerðu sér gjarnan dagamun. Sú Lúsía sem dagurinn er kenndur við var hins vegar fædd á Sikiley árið 283. Hún dó píslardauða en er verndardýrðlingur blindra, rithöfunda og margs konar handverksmanna. Nafnið Lúsía þýðir ljós og samkvæmt sænskri hefð fylgja henni ungar konur með kertakórónur á höfði, svo að ekki er undarlegt að Guðrúnu hafi fyrst dottið í hug að þar væru englar á ferð. Siðurinn að halda Lúsíudaginn hátíðlegan hefur breiðst út frá Svíþjóð til Noregs, Danmerkur og Finnlands. En þetta var ekki eini morgunninn í desember sem hún var vakin með söng.
„Það var mjög gaman að vera hjá þessari fjölskyldu, þau voru mjög opin og skemmtileg. Ég varð nítján ára 16. desember þetta ár og þá vaknaði ég aftur við að þau komu inn til mín og sungu og færðu mér pakka. Ég var eins og ein af fjölskyldunni og fór með þeim í öll boðin um jólin, fékk pakka eins og hinir. Það var mjög gestkvæmt hjá þeim og þau vinsæl.“
Las á íslensku fyrir börnin
Guðrún hafði með sér íslenskar barnabækur út og las þær fyrir börnin á kvöldin. Seinna komu þau systkinin til Íslands og dvöldu um tíma og voru bæði fljót að ná íslenskunni. Guðrún þakkar það lestrinum, en þótt þau skildu ekki í fyrstu öll orðin báðu þau hana ævinlega að lesa fyrir sig á kvöldin. Þegar foreldrarnir fóru í ferðalag til útlanda var Guðrún ein með börnin.
„Markus var þá svo lítill, hann var ekki orðinn ársgamall. Þegar þau komu til baka tók Ingrid hann upp en þá fór hann að hágráta, rétti út hendurnar og sagði: „Mamma, mamma“ við mig. Svo las ég alltaf íslensku bækurnar og þau lágu við hliðina á mér og hlustuðu. Þau lágu grafkyrr og sögðu alltaf áður en ég fór með þau í rúmið: „Lesa.“ Rebecka kom fyrst hingað og var í Eyjum að vinna í fiski og bjó hjá bróður mínum og konu hans. Hún var fljót að ná að geta bjargað sér á íslensku. Markus kom svo seinna og það var sama sagan með hann.“
Enn í dag kalla sænsku börnin Guðrúnu „vår isländska mamma“. Síðar héldu hjónin í annað ferðalag með börnin og þá réði Guðrún sig tímabundið í vinnu á Sahlgrenska-sjúkrahúsið í Gautaborg. Hún var vön vinnu frá barnæsku, fór níu ára gömul að slíta humar, enda hefð fyrir því í Vestmannaeyjum þá að börnin kæmu og hjálpuðu til við að bjarga verðmætum. Guðrún var því ávallt rösk og dugleg en þarna brá svo við að henni leiddist í vinnunni.
„Ég var að þvo upp pela og glös og ýmislegt. Mér leiddist svo að ég vildi láta reka mig og var alltaf að reyna að slugsa til þess. En nei, nei, mér var hampað svoleiðis og var í miklu uppáhaldi hjá yfirmanninum. Ég hélt því áfram að sótthreinsa pela,“ segir hún og hlær.
Hittust á bókasafninu
Í Gautaborg voru margir Íslendingar á þessum árum og þeir komu gjarnan saman á bókasafninu. Guðrún kynntist mörgum öðrum ungmennum og sænsku hjónunum fannst hún í fyrstu fullfljót að treysta og vera tilbúin að bindast vináttuböndum þeim sem hún hitti þar.
„Þegar vinirnir komu í heimsókn áttuðu þau sig á að þetta var bara venjulegt fólk. En það er auðvitað þannig með Íslendinga að við erum fljót að finna sameiginlega kunningja eða skyldmenni.“
Guðrún fór síðar með eigin börn í heimsókn út til Svíþjóðar og þannig héldust þessi sterku bönd. Hún á góðar minningar frá dvölinni og erfir það alls ekki að henni hafi verið gert svo bilt við árla morguns í desember.
Comments