top of page

Heimur harðnandi fer

Margt breyst frá því afeitrun hætti í Hlaðgerðarkoti Breytingar hafa orðið á undanförnum árum þegar kemur að meðferðinni í Hlaðgerðarkoti þar sem afeitrun er ekki lengur í boði á staðnum. Hvers vegna þótti mikilvægt að breyta þessu og bjóða þá upp á langtíma meðferð með meiri áherslu á sporavinnu og áföll? „Við erum ekki sjúkrastofnun heldur heilsustofnun og kemur hver og einn skjólstæðingur inn í meðferð á eigi ábyrgð heilsufarslega. Nú fer fólk í niðurtröppun á Vog eða á Landspítalann og má segja að himinn og haf sé á milli þess hvernig Hlaðgerðarkot var áður miðað við hvernig staðurinn er nú. Þetta hefur einfaldað starfið okkar gríðarlega og hefur reynst okkur mjög vel að fá inn einstaklinga sem eru tilbúnir í að skoða grunninn sinn og kjarnann í meðferðinni hjá okkur sem ráðgjafar okkar og annað fagfólk sjá um. Við komum ekki mikið að þessari áfallavinnu heldur fylgjum eftir læknisfræðilega þættinum sem er gegnumgangandi svipað á milli fólks sem er að kljást við alkóhólisma. Við sjáum oft kvíða, þunglyndi, svefnleysi og almenna vanlíðan hjá þeim sem eru búnir að vera að kljást við fíknivanda, sem við reynum að draga úr eftir bestu getu. Við tökum einnig tilfallandi mál að okkur og einstaka sinnum stærri mál en fólk þarf að vera tiltölulega heilsuhraust til að geta verið hér í meðferð.“

„Við komum ekki mikið að þessari áfallavinnu heldur fylgjum eftir læknisfræðilega þættinum sem er gegnumgangandi svipað á milli fólks sem er að kljást við alkóhólisma.“

Upplifir minni fordóma en áður Getur þú sagt okkur aðeins almennt frá hliðarverkunum efna á borð við kannabis? „Varðandi kannabis neyslu þá eru fínar upplýsingar að finna um það á síðunni kannabis.is. Þar hefur fagfólk farið ofan í hörgul í þeim málum og hvet ég alla þá sem eiga eftir að mynda sér skoðun um málið að skoða okkar hlið á þessari neyslu,“ segir Sigurgeir og lesa má á milli lína að það sem blasir við læknum eftir neyslu kannabis sé ekki glæsileg sjón. „Það sem blasir við okkur fagfólki í þessari grein er aukin tíðni geðrofa eftir að fólk hefur notað kannabis í einhvern tíma. Fólk glímir við fráhvörf í vikur eða jafnvel marga mánuði og við tölum um langvarandi neyslu eftir eitt til tvö ár í neyslu. Sumir upplifa geðrof í tengslum við kannabis neyslu en hægt er að skipta geðrofi í tvær tegundir. Geðrofssjúkdómar eru geðklofi og svo ,,bipolar“ þar sem farið er frá maníu yfir í depurð. Fólk í geðrofi missir tengsl við raunveruleikannn. Neyslutengd geðrof verða vegna efna sem verið er að neyta en ekki undirliggjandi sjúkdóma,“ segir Sigurgeir og leggur áherslu á að það sé líkt og að spila rússneska rúllettu að taka áhættuna með þetta efni því enginn getur vitað hvað gerist í kjölfarið. Sumir geta prófað á meðan aðrir ánetjast um leið. „Þetta hefur verið ákveðin flóttaleið fyrir marga, en er eins og að pissa í skóinn sinn að mínu besta viti, því ráðast þarf í rót vandans en ekki að fresta því að takast á við málin með jafn hættulegum efnum og kannabis reynist vera.“

„Það sem blasir við okkur fagfólki í þessari grein er aukin tíðni geðrofa eftir að fólk hefur notað kannabis í einhvern tíma. Fólk glímir við fráhvörf í vikur eða jafnvel marga mánuði og við tölum um langvarandi neyslu eftir eitt til tvö ár í neyslu.“ Nú eru margir sem vita lítið sem ekkert um alkóhólisma og alla þá veröld sem leynist stundum undir yfirborði samfélagsins. Hvað finnst Sigurgeiri um að vinna með fólki sem margir vilja varla vita af? ,, Ég upplifi minni fordóma en áður úti í samfélaginu og heilt yfir finnst mér meiri skilningur nú en áður fyrir fólki með fíknivanda en betur má ef duga skal í þessu sem öðru.“ Hvernig upplifir þú skjólstæðingana í Hlaðgerðarkoti? „Skjólstæðingarnir okkar eru bara fólk eins og ég og þú. Þeir eiga allt hið besta skilið. Fólkið okkar fær hins vegar ekki sömu aðstoð eins og aðrir sem veikjast í heilbrigðiskerfinu. Það er margt reynt en úrræðin eru kannski ekki nægilega mörg, satt best að segja,“ segir hann.

Vissi ekki af þessum grimma heim Það er áhugavert að tala við sérfræðing á borð við Sigurgeir sem veit allmargt í læknisfræðinni en svipað mikið um heim sem margir myndu aldrei hafa dug í sér að kafa ofan í. Hefur þessi heimur alltaf verið honum opinn? „Nei heldur betur ekki. Ég kem úr mjög öruggu umhverfi þar sem ég hafði ekki hugmynd um þennan kima samfélagsins fyrr en ég fór að starfa á geðdeild Landspítalans. Þá opnaðist þessi nýji heimur fyrir mér. Ég vissi ekki af þessum grimma heimi vímuefna eða hvað fólk væri illa statt eftir að hafa staldrað við þar. En þessu kynntist ég fyrst á bráðamóttöku geðsviðs og svo á afeitrunardeild spítalans.“

„Ég vissi ekki af þessum grimma heimi vímuefna eða hvað fólk væri illa statt eftir að hafa staldrað við þar. En þessu kynntist ég fyrst á bráðamóttöku geðsviðs og svo á afeitrunardeild spítalans.“ Hvaða lyf má fólk ekki nota þegar það kemur í meðferð á Hlaðgerðarkoti? „Þau lyf sem ekki eru leyfð hér án undantekningar eru ópíóðar en það eru verkjastillandi lyf á borð við Parkódín, Tramól og OxyContin. Svo bönnum við allar tegundir af Benzólyfjum, svo sem Sóbril og Rivotril. Þriðja tegund lyfja sem við leyfum ekki eru lyf við athyglisbresti á borð við Conserta, Rítalín og Elvanse og fjórði flokkur lyfja sem við leyfum ekki eru ávanabindandi svefnlyf á borð við Imovane,“ segir hann og bætir við. ,,Öll þessi lyf geta nýst fólki vel í skamman tíma séu þau ávísuð af læknum til fólks vegna sérstakra mála, en þau eru ávanabindandi og ætti ekki að taka í lengri tíma.“ Er Hlaðgerðarkot þá að beita sér í ákveðinni pólitík á móti því að alkóhólistum sé ávísað þessum lyfjum? „Það þarf að hafa mikla varúð á hvaða lyf eru gefin alkóhólistum og langflestir læknar eru meðvitaðir um það og vinna í góðri trú en stundum er mikið að gera og erfitt að fylgjast með öllum sjúklingum. Að hafa þessa línu hefur gengið alveg ótrúlega vel og höfum við aldrei lent í veseni með þetta. Skjólstæðingar sem koma til okkar, vita alveg á hvaða lyfjalínu við erum og læknar á Vogi og upp á Landspítala vita upp á hár hvernig við erum með hlutina. Við gerum engar undantekningar á þessu og vinnum vel með læknum víða þessu tengt.“ Er neyslan misjöfn eftir kynslóðum? ,,Það hafa orðið gífurlega miklar breytingar á neyslu fólks og get ég talið á fingrum annarrar handar þá sem koma í meðferð undir þrítugu og hafa einungis neytt áfengis. Svo blönduð lyfjaneysla er að aukast á meðal þeirra sem yngri eru,“ segir Sigurgeir.

Fráhvörf geta verið lífshættuleg

„Ef ég myndi ráða meiru þá myndi ég auka þjónustuleiðirnar sem í boði eru en ég myndi einnig styrkja unga fólkið okkar betur og setja aukið fjármagn í forvarnir.“ Ertu sammála að geirinn þurfi að vera í stöðugri rannsókn og þróun þegar kemur að nýsköpun innan greinarinnar? „Rannsóknir og vísindastarf er undirstaða allra framfara, sama hvað greinin heitir, ef fjármagn er af skornum skammti verður ekki mikil framþróun í greininni, það vitum við. Sér í lagi í þessum geira. Ég er á því að þessi hluti læknisfræðinnar sé einstaklega fróðlegur og þá heilinn sérstaklega og er það mín trú að margt eigi eftir að koma upp í framtíðinni tengt heilanum sem á eftir að auðvelda okkur vinnuna í meðferðargeiranum.“

Engu öðru líkt að fylgjast með bata fólks Það eru margir á því að þessi hluti læknisfræðinnar taki á hvern þann sérfræðing sem vinnur við fagið. Því er áhugavert að vita hvað gefur Sigurgeiri orku og kraft til að starfa sem læknir á Hlaðgerðarkoti? „Það sem gefur mér kraft og ánægju í starfi er hvað skjólstæðingar í Hlaðgerðarkoti eru þakklátir fyrir bæði stórt og smátt. Svo gefur það manni auka kraft í starfi þegar maður heyrir af fólki sem nær að snúa við lífi sínu eftir meðferðina hér og eignast gott líf eftir dvölina. Það gefur okkur kraftinn til að halda áfram. Eins langar mig að minnast á fagfólkið sem starfar á Hlaðgerðarkoti, en í þau ár sem ég hef starfað í Hlaðgerðarkoti hefur aldrei borið skugga á samstarfið við vinnufélagana. Þar er rosalega góð teymisvinna og það jafnast fátt á við að starfa með góðu fólki sem fær ánægju og kraft út úr störfum sínum. Það er mikil blessun í því,“ segir Sigurgeir að lokum.

„Það sem gefur mér kraft og ánægju í starfi er hvað skjólstæðingar í Hlaðgerðarkoti eru þakklátir fyrir bæði stórt og smátt. Svo gefur það manni auka kraft í starfi þegar maður heyrir af fólki sem nær að snúa við lífi sínu eftir meðferðina hér og eignast gott líf eftir dvölina.“

Comments


bottom of page