top of page

„Hlaðgerðarkot gaf mér líf“

„Vegna eineltis fór ég að leita í félagsskap þeirra sem eldri voru. Ég fór að drekka áfengi sem gekk illa allt frá fyrsta degi.“

Ljósið í myrkrinu

„Þegar ég lít til baka þá veit ég að ég hefði þurft að fá betri tíma til að glíma við sjúkdóminn en ég óttaðist það að biðja um meira, því mér fannst viðmótið þannig að ég átti erfitt með að treysta því að börnin yrðu ekki tekin af mér á meðan ég væri í meðferð að sinna veikindum mínum.“ Eins og áður sagði hefur Elísabet farið í einu og öllu í eftir því sem henni er ráðlagt og meðtekið leiðsögn í bata sínum. Ekki nóg með það þá gerir hún allt það sem fyrir hana er lagt og uppsker hún eftir því. „Ég byrjaði í Grettistaki eftir að ég kom úr Hlaðgerðarkoti og hef haft einstaka unun af því að læra. Nú á ég sjö áfanga eftir í stúdentspróf sem mig langar að klára næsta vor. Það hefur verið langþráður draumur að fara í meira nám á félagsfræðibraut en mig langar að starfa í þeim málaflokkum þar sem ég hef rekist á hvað mestu hrindranirnar. Að vinna með fólki held ég að sé einstakt, en okkur vantar fleiri sérfræðinga að vinna í þessum viðkvæmu málum. Einstaklinga sem hafa reynslu af því að missa fótanna í lífinu og þekkja leiðina út úr því. Eins þurfum við að útrýma fordómum og fáfræði og passa upp á að foreldrar og börn mætist aftur í batanum. Það er von sem mig langar aldrei að hætta að finna fyrir.“

Sjúkdómur sem tekur allt

„Ástæður þess að mæður þurfa mikinn stuðning, er sú að þær eiga erfiðara með en aðrir að gefa sér tíma til að fara í langa meðferð. Í sannleika sagt væri ég ekki á þeim stað sem ég er núna hefði ég ekki tekið mér tíma til að vinna í mér.“

Dreymir um að mynda tengsl aftur við börnin sín Hvað vonar þú að framtíðin beri í skauti sér? ,,Mig langar mest að tengjast börnum mínum aftur og komast nær þeim. Það er minn stóri draumur. Svo langar mig að gera það mesta úr lífi mínu sem ég mögulega get. Mig langar að reynsla mín verði öðru fólki og mínu fólki til góðs. Mig langar að líf mitt skipti máli. Ég er bún að fá svo mikið til baka að undanförnu að erfitt er að útskýra það með orðum. Ég á í fallegum samskiptum við alla sem skipta mig máli. Ömmur mínar hafa kennt mér hvernig maður er til staðar fyrir aðra í lífinu. Vinkonur mínar líka. Ég er ekki í miklu sambandi við pabba minn, en við mamma erum nánar. Það sem ég hef komist að er að við þurfum allar á mæðrum okkar að halda. Sama hvað þær eru að fara í gegnum. Mamma var í frábærum bata áður, hún hefur verið að fást við fjölskyldusjúkdóminn en nú er ég fyrirmyndin hennar líkt og hún var fyrirmyndin mín. Hún sér von um bata í gegnum mig og ég ætla ekki að víkja frá henni. Ég er ótrúlega stolt af þeim bata sem hún er að sækja sér og við erum sterkar saman konurnar í fjölskyldunni, þess vegna leitar hugur minn svo oft til barnanna minna. Mig langar ekki að vera án þeirra í dag. Ég trúi því að fátt jafnist á við mömmu sem er að vinna í sínum málum.“

,,Mig langar mest að tengjast börnum mínum aftur og komast nær þeim. Það er minn stóri draumur. Svo langar mig að gera það mesta úr lífi mínu sem ég mögulega get.“

Ramminn á áfangaheimilum mikilvægur Þótt fortíðin hafi bankað upp á hjá Elísabetu á undanförnum árum eftir að hún komst í bata þá hefur hún ekki setið með hendurnar í skauti og vorkennt sér, þvert á móti hefur hún tekist á við allt sem sem mætir henni af auðmýkt. „Ég veit að saga mín er áhugaverð en ég hef þurft að takast á við allskonar áskoranir. Hlaðgerðarkot gaf mér líf, og ekki nóg með það, þá flutti ég beint inn á áfangaheimilið Brú sem er fyrsta skrefið út í lífið aftur. Þá koma oft upp gömul mál hjá fólki og það var nokkuð sem ég þurfti að afgreiða. Umsjónarfólkið á Brú brást við með mjög mikilli auðmýkt og ég mætti þar skilningi sem er einmitt aðstoðin sem fólk þarf í bataferlinu. Óvæntir hlutir geta gerst sem tilheyra fortíðinni en ef við erum umkringd fólki sem mætir okkur með skilningi þá varðar það leiðina áfram á næsta stað.“ Af hverju skiptir máli að geta farið á áfangaheimili? „Ég myndi segja það stóran hluta af batanum, til að ná að fóta sig út í samfélaginu aftur með vissu  utanumhaldi. Alkóhólismi er þannig sjúkdómur að fólk einangrar sig og stundum verður það að eiga eign bara til trafala fyrir fólk sem þarf stuðning við að vera í kringum annan fólk, fara á fundi og gera það sem þarf. Á Brú er ákveðin hvatning til að standa sig vel en við aldrei látin skammast okkar fyrir að vera að koma aftur út í samfélagið. Það skiptir svo miklu máli hvernig talað er við okkur sem glímt hafa við þessar áskoranir í lífinu. Ást og hlýja eykur líkurnar á bata að mínu mati.“

„Á Brú er ákveðin hvatning til að standa sig vel en við aldrei látin skammast okkar fyrir að vera að koma aftur út í samfélagið.“ Er skemmtilegt að vera í bata? „Já það finnst mér. Ég er þannig að það hefur vanalega þurft að hægja aðeins á mér því ég geri of mikið af öllu. En nú nýt ég hverrar mínútu. Ef ég tek sem dæmi námið mitt, þá var ég áður í skóla til að klára hlutina, en nú er ég í skóla til að hafa ánægju af því að læra eitthvað nýtt. Einkunnirnar eru svo bara viðbót við þessa ánægju. Hluti af batanum er að læra að staldra við, hugsa málið og hægja á sér.“

Ótrúleg heilun í því að mæta kærleika Ertu þá sammála því að alkóhólistarnir, þegar þeir ná að setja fókusinn á eitthvað jákvætt, eru stundum duglegasta fólkið okkar? „Já ég myndi segja það. Við getum stundum verið á hálum ís, en þegar maður nær að setja sig sjálfan aðeins til hliðar og sama hvað, að setja batann í fyrsta sætið, þá hægt og rólega byggist upp gott líf sem er þess virði að fjárfesta í,“ segir Elísabet og mælir með því fyrir alla að skoða dagsplan sem er ein sú mesta snilld sem alkóhólistar styðjast við í bata sínum um ókomna tíð. „Ég held að allir gætu haft gott að því að plana svolítið daginn sinn. Fyrst var ég aðeins treg að samþykkja þetta allt, en guð minn góður, hvað lífið byrjar að virka þegar maður mætir inn í það af fullum krafti. Maður þroskast hratt og dagsplanið með manni. Ég er ennþá að læra inn á hlutina og ennþá að kynnast mér sem er bara svo fallegt á einstaklega góðan hátt. Ætli það sé ekki bara best að hugsa hlutina þannig að við lærum að lifa lífinu sem við viljum seinna að börnin okkar lifi. Það er markmiðið mitt,“ segir Elísabet og útskýrir að margir sem taka sér tíma frá samfélaginu og hraðanum þar hafi nefnt við hana að 12 sporin sé eitthvað sem allir ættu að fá tækifæri til að spreyta sig á og er hún hjartanlega sammála því. Blaðamaður tekur undir þessa skoðun hennar.

„Fyrst var ég aðeins treg að samþykkja þetta allt, en guð minn góður, hvað lífið byrjar að virka þegar maður mætir inn í það af fullum krafti. Maður þroskast hratt og dagsplanið með manni.“ Hverju fleiru værir þú til í að breyta úti í samfélaginu? „Ég verð að fá að nefna að ég væri svo til í að fleiri skildu alkóhólisma og við gætum saman eytt fordómum og þekkingaleysi á aðstæðum þeirra sem veikjast á þennan hátt. Það er svo erfitt að útskýra þetta með orðum en alkóhólistinn finnur betur en margur annar hvort hann mætir skilningi og væntumþykju eða fordómum og skilningsleysi. Í þessu samhengi verð ég að nefna mæður. En samkvæmt hugmyndum um mæður eiga þær ekki að vera alkóhólistar. Ef fleiri myndu manna stöður innan Barnaverndar sem hefðu reynslu og þekkingu á alkóhólisma þá myndi það losa um skömmina sem fylgir þeim mæðrum sem veikjast af alkóhólisma og færa meira ljós í aðstæður þeirra því þær þrá ekkert heitar en að geta treyst á kerfið. Það fæðist ekkert gott í skömm og óttanum við að segja sannleikann þegar börn eru annars vegar. Ég þorði svo lítið að tjá mig inn í þessu kerfi, sagði bara já og amen, svo ég myndi ekki missa börnin mín,“ segir Elísabet.

Besta ráðið stundum bara að elta aðra Hvaða ráð áttu fyrir konur sem eru ennþá þarna úti í vanda með börn sín? „Það er erfitt að gefa eitthvað eitt ráð sem hentar öllum, en ætli það væri ekki helst að gefa sér tíma og sækja sér alla þá hjálp sem þörf er fyrir til að stoppa alla neyslu og koma sér í bata. Eins munar miklu ef mæður eiga góða að, enda hver á að vera með börnin á meðan mamman nær sér í lækningu? Við þurfum að líta á þennan sjúkdóm þannig að hann sé læknanlegur en stundum taki tíma að komast í bata. Það er ekki gott að tileinka sér nýja hluti þegar maður er logandi hræddur,“ segir hún og bætir við hversu mikilvægt er að geta tekið leiðsögn og vera góður í að elta aðra sem gengur vel í lífinu.

„Maður þarf ekki að vera fullkominn alla daga, en dagurinn verður einstakur ef ég geri mitt besta. Það er þessi gullni meðalvegur sem gefur lífinu gildi í dag.“ Elísabet hefur að undanförnu verið að vinna í eigin sjálfsmati og að finna styrkleika sína og það er auðséð og heyrt að sjálf hefur hún mikla næmni fyrir aðstæðum fólks og svo er fólk sem þekkir hana á því að hún sé einstaklega góð í að hlusta. „Já það hefur alltaf verið sagt að ég sé góð í að hlusta á aðra. Ég reyni að vera traust og vil að það sé gott að eiga mig að. Ég veit ég er dugleg og drift í mér og já svo gefst ég aldrei upp. Ég hef óendanlega mikinn áhuga á sálfræði og félagsfræði og langar að gefa mér þá gjöf að elta drauma mína. Svo hef ég komist að því að hreyfing er eitt af áhugamálum mínum og í gegnum Crossfit æfingar hef ég eignast félaga og vini. Samfélagið í kringum æfingarnar er engu öðru líkt. Með því að halda sig frá vissum hlutum fer maður einnig að skoða betur hvaða mat maður lætur ofan í sig og er ég farin að velja hollari kostinn þegar kemur að svo mörgu í lífinu mínu.“ Hvað er mottóið þitt í lífinu? „Maður þarf ekki að vera fullkominn alla daga, en dagurinn verður einstakur ef ég geri mitt besta. Það er þessi gullni meðalvegur sem gefur lífinu gildi í dag.“ Myndir: Heiða Helgadóttir

Comments


bottom of page