top of page

Hleypur í hópi góðra félaga



Guðmundur Skorri Óskarsson er í meðferð í Hlaðgerðarkoti um þessar mundir og hann er í hópi þeirra sem hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka. Guðmundur Skorri er staðráðinn í að klára hlaupið og er óskaplega ánægður að geta á þennan hátt sýnt hve mjög hann metur þá aðstoð sem hann hefur fengið í Hlaðgerðarkoti.


Hvers vegna ákvaðstu að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu? „Mig langaði að hlaupa,“ segir hann. „Ég hef svolítið verið að hlaupa áður og langaði að gefa til baka til Samhjálpar í þakklætisskyni fyrir það sem samtökin hafa gert fyrir mig. Svo langaði mig að prófa að fara heilt maraþon. Aðalástæðan var nú samt sú að láta gott af mér leiða.“


Guðmundur Skorri hefur glímt við fíkn um tíma. Hann hefur náð góðum tímabilum en svo hafa verið bakslög.

„Ég hef komið áður í Hlaðgerðarkot og í heildina hafa þetta verið um það fimmtán ár,“ segir hann. „Ég hef náð batatímabilum inn á milli.“


Hefur þú verið að undirbúa þig fyrir hlaupið? „Já, við fengum að hlaupa hér og undirbúa okkur. Höfum verið að hlaupa hérna í dalnum, ég og félagi minn. Við ákváðum í sameiningu að taka þátt í ár.“


Og það er ekki nóg með að Guðmundur Skorri hafi verið að æfa með félaga sínum í Hlaðgerðarkoti. Hann er hluti af hópi fjögurra ungra manna sem ætla að hlaupa heilt maraþon fyrir Samhjálp í ár. Þeir eru auk hans, Daníel Ísak Maríuson, Sindri Fannar Ragnarsson og Alfonso Andri Svavarson. Guðmundur Skorri fær leyfi til að fara frá Hlaðgerðarkoti og niður bæ til að taka þátt í hlaupinu. Þeir eru allir með bakgrunn í íþróttum og hafa mikla ánægju af að hreyfa sig.

„Við höfum fengið góðan tíma til að undirbúa okkur en talað er um að það þurfi tólf til sextán vikur til að undirbúa sig fyrir maraþon. Við fengum mikla aðstoð og einn ráðgjafi hér í Hlaðgerðarkoti útvegaði okkur æfingaplan til að fara eftir.“


Hvernig hefur þér gengið að safna áheitum? „Mjög vel ég held að ég sé kominn með tvö hundruð og þrjátíu þúsund krónu.,“ segir hann ánægður.


Hvað tekur svo við þegar þú útskrifast úr Hlaðgerðarkoti? „Ég fer í Grettistak, endurhæfingarúrræði og á áfangaheimili. Auk þess fer ég líklega í TC-skólann. Það er biblíuskóli. Ég stefni líka að því að halda áfram að hlaupa. Ég hef gaman af því og tek það gjarnan í skorpum. Ég er líka að æfa Crossfit á veturna,“ segir hann að lokum og við óskum honum góðs gengis í hlaupinu og lífinu sem hann á framundan.

Þeir sem vilja styrkja þennan flott hlaupara geta gert það hér: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/12795-gudmundur-skorri-oskarsson

 

Comments


bottom of page