top of page

Hugsjónamaður fallinn frá

„Þegar ég kom heim af spítalanum þá var pabbi á leiðinni út og nýr maður kominn í húsið sem sagði að frá og með morgundeginum ætti ég að kalla hann pabba.“ Georg Viðar fæddist í Aberdeen 18. nóvember árið 1944. Hann var sonur hjónanna, Margrétar Pálsdóttur og Williams Scherisch. Faðir hans var skoskur og kom fyrst til Íslands með breska hernum árið 1941. Þegar veru hans hér lauk fylgdi Margrét honum til Skotlands og Georg Viðar ólst þar upp fyrstu fjögur árin, en þá fluttu þau til Íslands. Georg átti góða æsku meðan foreldrar hans héldu saman en þau skildu þegar hann var ellefu ára. Níu ára gamall hafði hann fengið lömunarveiki og legið í ár á spítala. Fætur hans voru spelkaðar og hann gekk við hækjur þegar hann útskrifaðist en fljótlega eftir að hann kom heim flutti faðir hans af heimilinu. Margrét hafði kynnst nýjum manni og þeim líkaði ekki hvorum við annan. Georg Viðar var ofvirkur og skapmikill og í viðtali við Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur í DV árið 2013 segir hann frá fyrstu kynnum þeirra á þennan veg: „Mamma var búin að krækja sér í einhvern aula sem var bara róni. Þegar ég kom heim af spítalanum þá var pabbi á leiðinni út og nýr maður kominn í húsið sem sagði að frá og með morgundeginum ætti ég að kalla hann pabba. Ég sagði að það myndi ég aldrei gera og lét hækjuna vaða í hausinn á honum. Þá sagði hann að ekki væri hægt að hafa þennan krakka á heimilinu og mamma spurði hvað þau ættu þá að gera við mig. „Hann verður að fara á Breiðavík,“ sagði hann. Þá heyrði ég þetta orð fyrst.“

Ellefu ára á götunni Georg Viðar laumaðist út um nóttina og var á götunni í Reykjavík í nokkra daga. Hann svaf í hitaveitustokkunum og stal sér rófum úr matjurtagörðum. Móðir hans hringdi á lögregluna og úr varð að barnaverndarnefnd tók þá ákvörðun að senda hann í Breiðavík. Þegar Georg Viðar kom á upptökuheimilið Breiðavík var hann langt frá því búinn að jafna sig eftir veikindin. Hann var veiklulegur, með spelkur á fótum sem náðu upp í klof og studdist við hækjur. Hann þekkti engan á þessum afskekkta stað og umhverfið var honum gersamlega framandi. Þrátt fyrir að hann glímdi við líkamlega fötlun var honum ætlað að taka þátt í leikjum og vangeta hans varð til að hann var lagður í einelti. Starfsfólk Breiðavíkur sinnti lítið um skjólstæðinga sína og ofbeldi var algengt svar við öllum agabrotum eða viðbrögðum barnanna við því sem dunið hafði yfir þau. Georg Viðar lærði að berja frá sér og byggði sig upp með hjálp líkamsæfinga Charlesar Atlas. Um leið og líkamlegur styrkur hans jókst, óx einnig harðneskja og biturð innra með honum. Í Breiðavík var einangrunarklefi og þar var Georg Viðar látinn dúsa þegar hann gerðist of uppvöðslusamur en barn með ofvirkni á erfitt með að hemja skap sitt og stjórna hvatvísinni.

Þrátt fyrir að hann glímdi við líkamlega fötlun var honum ætlað að taka þátt í leikjum og vangeta hans varð til að hann var lagður í einelti. Hann kynntist áfengi fyrst tólf eða þrettán ára þegar hann lék á trommur á böllum í Fagrahvammi í Örlygsfirði. Aðrir í hljómsveitinni voru fullorðnir menn og fólk kom af dansgólfinu og rétti hljómsveitinni flösku. Hún var látin ganga og Georg Viðar fékk sér sopa eins og hinir. Georg Viðar nýtti sér gott bókasafn í Breiðavík og þar lauk hann fullnaðarprófi. Hann komst að því í gegnum prestinn á staðnum að hann næði sjálfræðisaldri sextán ára og þá gætu yfirvöld ekki haldið honum lengur í Breiðavík. Hann fór þaðan um leið og sextán ára afmælisdagurinn rann upp. Þar með var hann aftur kominn á götuna í Reykjavík og varð að finna leiðir til að bjarga sér.

Líf í neyslu Við tók líf sem einkenndist af neyslu og vanlíðan. Hann svaf í bílum, skipum, stigagöngum og annars staðar þar sem skjól var að finna. Samband hans við móður sína slitnaði. Hann fór á sjó og vann fyrir sér með margvíslegum hætti. Hann kynntist konu og gekk dóttur hennar í föðurstað en sambandið entist ekki vegna neyslu hans og afbrota sem hann framdi meðan hann var undir áhrifum. Vendipunktur varð í lífi hans þegar hann tuttugu og fimm ára gamall gekk inn á samkomu Hvítasunnumanna í Malmö í Svíþjóð. Hann var löngu orðinn þreyttur á því lífi sem hann lifði og þráði lausn. Í Aftureldingu árið 1973 lýsir hann þeirri stund á þennan veg. „Ef ég ætti að útskýra fyrir þér, hvað það var sem skeði í hjarta mínu þetta kvöld, þegar ég kraup frammi fyrir honum, og bað hann að fyrirgefa mér syndir mínar og leysa mig frá áfengi, tóbaki og öllum öðrum eiturtegundum sem ég annars var meira og minna bundinn í, þá gæti ég það alls ekki. Það eina sem ég veit var að friður, sem aldrei hafði búið með mér, fyllti nú hjarta mitt og huga, já hinn sanni Guðs friður. Það er ekki sá sami friður sem heimurinn gefur þér, eða sá friður sem fæst með því að fá sér glas af góðu víni til að fá frið frá áhyggjum hversdagslífsins. Nei, þegar er hinn sanni Guðs friður sem endist um eilífð. Ég er búinn að reykja í 15 ár, fékk nú algjörlega andstyggð á því, og missti alla löngum til þess. Og áfengi langar mig aldrei framar í, né heldur nokkra aðra ólyfjan sem ég áður var bundinn af. Hvað hefur eiginlega skeð? Ég sem hef aldrei getað verið allsgáður nema um mjög stuttan tíma í senn er allt í einu búinn að fá andstyggð á víni.“ Þegar Georg Viðar sneri heim, frelsaður maður, gekk hann í Hvítasunnusöfnuðinn hér og leiðtogar hans, Ásmundur Eiríksson og Einar J. Gíslason höfðu mikla trú á honum. Georg Viðar flutti til Akureyrar og var þar virkur í safnaðarstarfinu. Hann fékk vinnu í skógerð Iðunnar og undi hag sínum hið besta. Hvítasunnumenn í Reykjavík vildu gjarnan hjálpa þeim sem glímdu við fíkn og á fimmtugsafmæli sínu árið 1973 bað Einar J. Gíslason alla um fjárframlög til stofnunnar nýrra góðgerðasamtaka fremur gjafir. Samhjálp varð til og sjóður ætlaður til að reisa meðferðarheimili fyrir þá sem glíma við fíknisjúkdóma. Margt var gert til áframhaldandi fjáröflunar á næstu mánuðum, meðal annars haldið happdrætti, gerð hljómplata og seld og fleira. Georg Viðar var meðal þeirra er komu að fyrstu skrefum starfsins í bílskúr á Sogavegi.

Það eina sem ég veit var að friður, sem aldrei hafði búið með mér, fyllti nú hjarta mitt og huga, já hinn sanni Guðs friður. Það er ekki sá sami friður sem heimurinn gefur þér, eða sá friður sem fæst með því að fá sér glas af góðu víni til að fá frið frá áhyggjum hversdagslífsins.

Nýtt meðferðarheimili Árið 1974 setti Mæðrastyrksnefnd jörðina Hlaðgerðarkot á sölu og setti það skilyrði að kaupandi væri góðgerðarfélag eða samtök. Samhjálparmenn gerðu tilboð og fengu. Sett var á jörðina 15,6 milljónir en Mæðrastyrksnefnd tók tilboði upp á 12 milljónir og styrkti þar með Samhjálp um 3,6 milljónir. Georg Viðar varð fyrsti forstöðumaður meðferðarheimilisins. Hann og Einars J. Gíslason störfuðu náið saman og mikil uppbygging hófst þegar. Ýmsar lagfæringar þurfti að gera til að húsnæðið mætti kröfum heilbrigðiseftirlitsins en meðferðarstarfið var byggt á sænskri fyrirmynd á stofnun Lewi Pethrus. Starfsemin í Hlaðgerðarkoti gekk frá upphafi vel og Georg Viðar vann af mikilli ástríðu og áhuga. Hann varð einnig fyrsti forstöðumaður Samhjálpar. Hann ofgerði sér hins vegar í starf, fór í kulnun eins og sagt er í dag. Þá var hann giftur aftur og hafði tekið að sér þrjú börn konunnar. Hann féll í kjölfar örmögnunarinnar en náði sér fljótt aftur ekki síst vegna stuðnings Einars og annarra safnaðarmeðlima. Þau komu honum út til Svíþjóðar einmitt á stofnun Lewi Pethrusar og þar hóf Georg Viðar nám í meðferðarfræðum. Hann var einnig í biblíuskóla um tveggja ára skeið. Hann skildi við seinni konu sína, kynntist sænskri ekkju og átti með henni sex börn. Hún átti tvö fyrir svo barnaskarinn var orðinn stór. GeorgViðar flutti aftur heim árið 2003 og tók þá við meðferðarheimilinu Krossgötum. Hann bjó í JL-húsinu og var þar húsvörður. Á þessum tíma reyndi hann ítrekað að fjalla um og koma á framfæri reynslu sinni af obeldinu í Breiðavík. Það gekk ekki því allir fjölmiðlar neituðu að birta skrif hans um málið. Það var ekki fyrr en árið 2007 að Kastljós tók upp málið að skriður komst á umfjöllunina og rannsókn fór fram. Í kjölfar þess voru Breiðavíkursamtökin stofnuð og Georg Viðar var þar í fararbroddi. Hann flutti aftur til Svíþjóðar og þar lést hann þann 19. desember síðastliðinn.

„Georg var hugsjónamaður og hafði áhrif til góðs. Hann vildi sýna fólki virðingu og kærleika og vissi að þar lá kjarninn í samskiptum til heilla,“ segir Hafliði Kristinsson fjölskylduráðgjafi og leiðsögumaður en hann var samstarfsmaður Georgs Viðars til margra ára. Helstu heimildir við vinnslu þessarar greinar voru: Færsla Dr. Péturs Péturssonar  á facebook https://www.facebook.com/photo/?fbid=10160387021739640&set=a.458445834639 Viðtal Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur við Georg í DV 1. febrúar 2013. Viðtal Guðna Einarssonar við Georg Viðar Morgunblaðinu í tilefni 60 afmælis hans 18. nóvember 2010. Viðtal Jóns Hákons Helgasonar við Georg Viðar í Vísi 12. mars 2009.

Comments


bottom of page