top of page

HVE LENGI ER GOTT AÐ DVELJA Á EFTIRMEÐFERÐARHEIMILI?




HVER ERU NÆSTU SKREF? Gott er að huga að húsnæðismálum sem fyrst á forsendum hvers og eins, meta stöðuna og vinna í því sem viðráðanlegt getur talist. Það er mikilvægt að muna að föst búseta er einn þeirra þátta sem eru nauðsynlegir til að vinna að bata frá fíknisjúkdómum. Það er heldur ekki gott fyrir neinn að vera of lengi á eftirmeðferðarheimili, auk þess sem á slíkum heimilum þarf að vera eðlilegt flæði svo að fleiri komist að. Ekki er hægt að fullyrða hvað sé hæfilegur tími, það getur verið nokkuð einstaklingsbundið. Þó er gjarnan miðað við tvö ár að hámarki. En þá er komið að því hvernig húsnæðismálum er háttað nú til dags. Þar er nú um að ræða afar slæma stöðu, bæði hvað varðar leigu og kaup á íbúðum og húsum. Leiguverð er í hæstu hæðum og sama má segja um fasteignaverð. Húsnæðismál eru því í ólestri þessi misserin og mætti um það ástand hafa uppi langar tölur. Fyrir stóran hluta fólks er nær ófært að hafa þak yfir höfuðið vegna dýrtíðar. Þessum málum þarf að koma til betri vegar. En þá má spyrja í framhaldinu hvernig það verði gert og hver eða hverjir beri ábyrgð þar á? Auðvitað má segja að þetta sé verkefni alls samfélagsins og lýðræðislega kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum og á þingi. En það er eitthvað ekki alveg að ganga upp. Við vonda stöðu í búsetumálum verða oft til vandamál sem ættu að vera óþörf og kosta oft mikla fjármuni og þjónustu sem sleppa mætti við. Þetta eru mál sem verður að vinna í fljótt og örugglega, annars er voðinn vís. Óbreytt staða er ekki ásættanleg. Er nú komið svo að menn og konur verða að horfa út fyrir kassann og leita leiða til úrbóta. Það eru til leiðir sem eru mun hagstæðari en nú tíðkast. Það er hægt að kaupa tilsniðin hús erlendis frá, byggja þarf mun meira af litlum íbúðum o.s.frv. Ég vil ekki fara út í umræðu um hvernig margir íbúðaeigendur ráðstafi þeim, það er efni í annan pistil. Niðurstaðan er þó sú að þessi vandi bitnar mest á þeim sem af einhverjum orsökum hafa misst tökin á lífi sínu, komist í vondar aðstæður félagslega og hafa gjarna ekki mikla fjármuni á milli handanna. Ekki má heldur gleyma að aðrir hópar, t.d. öryrkjar og aldraðir, eru margir í slæmri stöðu, auk þess sem einstaklingar í láglaunastörfum standa höllum fæti þegar að húsnæðismálum kemur. Tökum höndum saman um þessi mál, munum að allir einstaklingar eiga rétt til mannlegrar reisnar hvað varðar búsetu og fé til sómasamlegrar framfærslu. Góðar stundir. Tryggvi Magnússon, umsjónarmaður áfangaheimila Samhjálpar.

Comments


bottom of page