top of page

Kynntist Samhjálp í gegnum systur sína


Þorvaldur Sigurbjörn Helgason, ljóðskáld, gagnrýnandi, verkefnastjóri, tónlistarmaður og fleira er einn þeirra sem ekki kunna við að takmarka sig við eitthvað eitt. Um það vitnar ekki hvað síst fjölbreyttur starfsferill hans og ferðalög til framandi landa. En þótt hann hafi án efa frá mörgu áhugaverðu að segja ætlum við að þessu sinni að forvitnast um hvers vegna hann kaus að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Þorvaldur er nefnilega í hópi þeirra sem ætla að hlaupa fyrir Samhjálp.

 

Hvers vegna valdir þú að styrkja Samhjálp með þátttöku þinni í Reykjavíkurmaraþoninu? 

„Ég valdi Samhjálp af því þau vinna ómetanlegt starf í þágu jaðarsettra og þá sérstaklega fólks sem glímir við fíkn og fátækt. Auk þess frétti ég af því að Samhjálp væri að safna fyrir nýju húsnæði fyrir kaffistofuna sína og vonandi get ég lagt þeim lið í þeirri söfnun.“

 

Þekkir þú til samtakanna og starfs Samhjálpar? „Já, systir mín er núna í langtímameðferð á Hlaðgerðarkoti sem hefur gjörbreytt lífi hennar og í gegnum hana hef ég kynnst því frábæra starfi sem Samhjálp vinnur. Maður finnur það greinilega að stíga inn á Hlaðgerðarkot hversu fallegt samfélag er þar og hversu vel er tekið á móti öllum sem þangað koma.“

 

Hefur þú verið að hlaupa lengi? 

 

„Ég byrjaði að hlaupa markvisst fyrir fimm árum í Covid og það kom mér skemmtilega á óvart hvað ég elskaði það mikið. Ég hafði aldrei áður fundið mig í neinni íþrótt og var algjör anti-sportisti sem ungur maður en að hlaupa úti í náttúrunni er að mínu mati ein skemmtilegasta hreyfing sem hægt er að stunda. Það hefur ekki bara jákvæð áhrif á líkamlega heilsu heldur líka andlega og lætur manni almennt líða miklu betur,“ segir Þorvaldur.

 

Þess má geta að Þorvaldur varð fyrir þeirri lífsreynslu aðeins fimmtán ára gamall að hjarta hans stoppaði. Hann var í skólanum þennan dag og skjót viðbrögð þeirra sem voru í kringum hann björguðu lífi hans og Þorvaldur hefur nýtt þessa reynslu í listsköpun, meðal annars ljóðabókina Gangverk. Það að hlaupa hefur því einnig þann tilgang í hans huga að rækta vel heilsuna. En hefur þú áður tekið þátt í maraþoni? 

 

„Ég hef tvisvar sinnum tekið þátt í hálfmaraþoni og nokkrum sinnum í 10 kílómetra hlaupi en aldrei áður hlaupið heilt maraþon. Ég er að gera það í fyrsta sinn, svo sjö, níu, þrettán!“ segir Þorvaldur að lokum en við munum fylgjast vel með honum þann 23. ágúst næstkomandi og hvetja hann áfram. Við viljum einnig benda ykkur á að hægt er styrkja Þorvald hér: https://www.rmi.is/hlaupastyrkur/hlauparar/16431-thorvaldur-sigurbjorn-helgason

 

 

 

Comments


bottom of page