Leiðarinn í jólablaði Samhjálparblaðsins ber yfirskriftina Ljósið í myrkrinu. Hann fer hér á eftir:
Hér á Norðurslóðum er sumarið stutt og birtuna tekur að dvína strax um miðjan ágúst. Sumir finna fyrir depurð og orkuleysi þegar myrkrið verður stöðugt svartara og allt umlykjandi. Septembermánuður er þolanlegur en svo kemur október og loks nóvember og þá desember. Maður vaknar í svartamyrkri og keyrir heim í dimmu rökkri. Snjór og kuldi hjálpa ekki sálarlífinu.
En þegar ástandið er svartast byrja jólaljósin að kvikna á svölum húsa, glitra í görðum og tindra undir þakskeggjum. Jólin lýsa upp skammdegið. Þau eru perlan sem gerir veturinn bærilegan, þau eru ljósið í myrkrinu. Þá kemur stórfjölskyldan saman, börnin dansa í kringum jólatré á jólaböllum, bökunarilm leggur út á götur og ys og þys er um allan bæ í kringum fólk að leita að jólagjöfum. Og ekki má gleyma jólalögunum sem hljóma alls staðar í verslunum, útvarpinu og inni á heimilinu. Flestir eiga til allrar lukku aðeins góðar minningar um sín æskujól, svo indæl voru þau að tilhlökkunin er til staðar ævina á enda.
Það er gott að eiga slíkar perlur að orna sér við en ljósið sem stafar af jólunum nær að kvikna í brjóstum margra á allt öðrum árstíma, allt árið um kring raunar. Í ár varð Hlaðgerðarkot 50 ára, elsta starfandi meðferðarheimili landsins og þegar talað er við þá sem hafa notið meðferðar þar er þeim alltaf fyrst huga þetta, eftir langvarandi myrkur kviknaði þar lítið ljós. Vonarneisti um að hægt væri að ná bata, ofurlítil týra sem með stuðningi og kærleika náði að verða logi og að lokum bál. Þetta fólk sigraðist á einum erfiðasta sjúkdómi vorra daga, sá ljósið og nýtur lífsins í dag.
Jólahátíðin er fram undan hjá þeim, okkur og skjólstæðingum Samhjálpar í Hlaðgerðarkoti. Þessi hátíð friðar, ljóss og mannkærleika opnar hugi manna, leyfir okkur að brosa og njóta. Það þarf ekki mikið til, engar stórar rándýrar gjafir, ekki yfirfljótandi skraut, eitt vinalegt handtak, hlýtt orð eða bæn borin fram í einlægni er nóg til að skapa gleðileg jól. Fíknisjúkdómar eru dauðans alvara og allir geta notað kærleiksríkahönd til að leiða sig inn á rétta braut. Endurhæfing manneskju og endurreisn eftir að hafa fetað grýttan og erfiðan stíg tekur tíma. Gefum fólki tíma og tækifæri í jólagjöf í ár, styðjum það, tökum á móti því með opnum huga og trú á að allir eigi skilið vinsemd og virðingu.
Steingerður Steinarsdóttir verkefna- og ritstjóri
Comments