top of page

Mótmæla ólöglegri netsölu áfengis




Á fjölmennri ráðstefnu á vegum Fræðslu og forvarna nýverið kom fram margt um skaðsemi áfengis og þau skaðlegu áhrif sem aukið aðgengi hefur á lýðheilsu. Í lokin var kynnt eftirfarandi áskorun samatakanna fjögurra sem stóðu að málþinginu til alþingismanna um að standa vörð um lýðheilsu og einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis.

Meðal virkustu leiða í áfengisforvörnum er að takmarka aðgengi að áfengi eins og kostur er. Einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á smásölu áfengis er það fyrirkomulag sem Íslendingar hafa valið í þessu skyni. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinn (WHO) sem segir að þar sem einkasala ríkis á smásölu áfengis sé fyrir hendi séu sterk rök fyrir því að varðveita hana því slíkt geti takmarkað framboð áfengis og dregið úr áfengistengdum skaða. Forsendurnar eru skýrar: Greiðara aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar notkunar og þar með aukins vanda vegna neyslu þess. Þetta er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá í áfengisforvörnum og lýðheilsustarfi.

Við mótmælum af þessum sökum því skeytingarleysi sem ríkir gagnvart þeirri ólöglegu netsölu áfengis sem fram fer hér á landi og illa ígrunduðum áformum um að heimila hana með lögum, sem augljóslega grefur undan núverandi fyrirkomulagi. Í jafn afdrifaríkum málum eins og áfengismálunum þarf að hafa lýðheilsusjónarmið og almannaheill að leiðarljósi.

Fræðsla og forvarnir – félag áhugafólks um forvarnir og heilsueflingu

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

IOGT á Íslandi

SAFF-Samstarf félagasamtaka í forvörnum

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Fræðslu og forvarna: https://forvarnir.is/

Comments


bottom of page