top of page

Maðurinn sem kærði sjálfan sigEr réttarríkið horfið? Hví svarar lögreglan ekki? Af hverju eru ekki áfengisauglýsingar og ólögleg netsala áfengis stöðvuð? Þessara spurninga spurði Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum á ráðstefnunni Lýðheilsa og áfengi sem haldin var í Þjóðminjasafninu í gær. Árni kærði sjálfan sig nýlega fyrir ólögleg áfengiskaup eftir að hafa pantað áfengi á netinu og var í kjölfarið meðal annars sagður leiðinlegasti maður Íslandssögunnar.


Erindi Árna sýndi hins vegar og sannaði að hann er langt frá því að vera leiðinlegur. Hann sýndi fram á að til þess að netverslun með áfengi eins og hún er stunduð hér væri lögleg þyrftu starfsmenn fyrirtækjanna að ferðast á áttföldum hraða ljóssins til að koma vínflöskunum til skila innan þeirra tímamarka sem þeir lofa og standa við. Hann pantaði akureyrskan bjór og fékk skilaboð um að sendingin yrði komin heim til hans innan þrjátíu mínútna. Samkvæmt reglugerð EES er borgurum heimilt að flytja inn áfengi til eigin nota frá Evrópusambandslöndum og í því skjóli hafa netverslanirnar skákað. Nýlega féll hæstaréttardómur í Svíþjóð þar sem einmitt reyndi á lögmæti netverslunar með áfengi en Systembolaget, þar í landi er sambærilegt við ÁTVR hér. Dómurinn tíundaði hvað þyrfti til að til að verslun af þessu tagi samrýmdist reglunum en skilyrðið er að fyrirtækið sem verslað er við sé lögaðili og lagerinn staðsettur í öðru landi.


Kaup Árna á akureyrska bjórnum voru því aðeins lögleg ef flogið væri með hann út, hann lagður inn á lager í Evrópu og síðan flogið með hann heim og allt þetta geta menn gert á innan 30 mínútum.

 

„Ekki furða að þessir menn séu þreytulegir þegar þeir koma fram í sjónvarpi,“ sagði Árni í erindi sínu.

 

Hann benti einnig á hvernig ítrekað er brotið gegn banni við áfengisauglýsingum og þrátt fyrir sendar hafi verið yfir 400 tilkynningar um slík brot til yfirvalda á undanförnum árum hafi ekki verið brugðist við. Það sé einnig raunin hvað varðar kæru ÁTVR frá árinu 2021 og kæru Árna á hendur sjálfs sín. Frá árinu 2015 hefur legið fyrir að netverslun með áfengi hér á landi er ólögleg en eingöngu fjölmiðlanefnd og umboðsmaður Alþingis hafa reynt að bregðast við henni. „Hvar er lögreglan?“ Spyr Árni og undrast að hann gangi laus. „Hvaða tegund af vitleysu er þetta?“

 

Hann lauk erindi sínu með því að minna á að það er réttur barna og ungmenna að lifa í samfélagi sem verndar þau. Það verður aldrei of oft minnt á að áfengi er engin venjuleg neysluvara. „Það er rými til framfar og ég skora á hugsandi fólk að beita sér,“ sagði Árni.

 

 

Comments


bottom of page