top of page

Meðvirkni er sjúkdómur



Pia byrjar á að segja sína eigin sögu og vitnar oft í sína baráttu við meðvirkni. Hún skilgreinir einkenni sjúkdómsins ákaflega vel, kafar ofan í orsakirnar og býður upp á margreynd úrræði. Meðvirkur einstaklingur á sér enga sjálfstæða tilveru. Hann skilgreinir sjálfan sig út frá öðrum og viðbrögðum þeirra eins og hann túlkar þau. Þetta gerir það að verkum að líðan hans er ævinlega háð því hvernig aðrir koma fram frá einni stund til annarrar. Ólíkt þeim sem fara út í lífið með innri fullvissi um eigið virði og vel skilgreint sjálf sveiflast meðvirkur einstaklingur milli tilfinninga. Oft skilur hann ekki eigin tilfinningar og gerir sér ekki grein fyrir hverjar þær eru. Sjálfstraustið er annað hvort ekkert eða svo útblásið að það er langt umfram efni. Það þarf svo vart að taka fram að einstaklingur sem þessi á erfitt með að setja mörk og virða mörk annarra.

Meðvirkni er sjúkdómur sem er algengur meðal þeirra sem glíma við fíkn og aðstandenda þeirra en er ekki bundinn við þennan hóp. Margir sem upplifað hafa ofbeldi af einhverju tagi í æsku glíma við meðvirkni en hún á alltaf rætur í fjölskyldumynstri þar sem ekki er borin virðing fyrir þörfum annarra.


Aðstandendur


Meðvirkni hugtakið varð fyrst til í viðleitni til að lýsa einkennum og upplifunum aðstandenda fólks sem glímir við fíknisjúkdóma. Aðstandendur urðu háðir því að miða öll sín viðbrögð og líf við þann veika og smátt og smátt hvarf þeirra eigið sjálf og sjálfstæð tilvera. Nú vita menn að mun meira liggur að baki en hegðunarmynstur sem verður til vegna sjúkdóms annarra. Einkenni meðvirkni eins og lágt sjálfsmat, erfiðleikar við að stjórna tilfinningum sínum og það að kunna ekki að setja öðrum mörk er til staðar áður en einstaklingurinn tekur saman við manneskju sem glímir við fíkn.

Hins vegar magnast einkennin og sársauki meðvirkra einstaklinga í slíkum samböndum er gríðarlegur. Vegna þess að ræturnar liggja í æsku hins meðvirka og þess fjölskyldumynsturs sem hann ólst upp við á hann einnig erfiðara með að slíta sig lausan og festist í viðjum óheilbrigðra tilfinningasveiflna og vanlíðunar.


Fólk sem glímir við fíkn


Fólk sem glímir við fíkn er mjög líklegt til að vera sjálft meðvirkt og það er oft einn þáttur í að þeir leiddust út neyslu hugbreytandi efna. Að baki er iðulega áfallasaga, vanræksla, ofbeldi og erfiðar aðstæður í æsku. Til þess að takast á við þann sársauka og deyfa hann tímabundið taka menn inn hugbreytandi efni eða leita í annars konar sjálfskaðandi hegðunarmynstur á borð við fjárhættuspil, kynlíf, svelti, ofát eða áhættusport. Pia Mellody segir okkur í bók sinni að mikilvægt sé að taka einnig á einkennum meðvirkni hjá fólki í meðferð við fíknisjúkdómum. Sé það ekki gert er hætta á að hegðunarmynstrið leiði til þess að fólk nái ekki að lifa heilbrigðu og góðu lífi eftir að það hættir neyslu. Það markaleysi í tilfinningaviðbrögðum og hegðun sem meðvirkni veldur er líklegt til að leiða til áframhaldandi vandamála og standa fólki fyrir þrifum í bataferlinu.


Að þekkja sjálfan sig


Flestir glíma við erfiðar tilvistarspurningar á unglingsárum og vita ekki hvert þeir vilja stefna í lífinu, hver þeirra grunngildi eru eða hvað þeir þrá mest. Upp úr tvítugu ná allflestir að svara einhverjum af þessum spurningum og sumar eru í endurskoðun út lífið. En þegar fólk á erfitt með að skilja og skilgreina eigið tilfinningalíf vandast málið. Manneskja sem er stöðugt í uppnámi vegna viðbragða einhvers annars á erfitt með að ræða málin af yfirvegun og skynsemi. Hún skilur ekki að hennar viðbrögð eru óeðlileg og kann ekki að tjá tilfinningar sínar af hófsemi.

Bók Piu Mellody er mjög mikilvæg vegna þess að hún gefur fólki færi á að kafa ofan í eigin viðbrögð, líðan og tilfinningalíf og skoða hvar og hvernig viðbrögð þeirra kunna að einkennast af meðvirkni. Að viðurkenna og virða eigin líkama og eigin mörk er eitt af því sem háir hinum meðvirka mjög og þess vegna er hann líklegur til að annað hvort svelta sig eða borða um of, þjálfa of mikið eða hreyfa sig ekket og skynjun hans á raunveruleikanum er oft ýkt og skökk. Sá sem er háður viðurkenningu annarra og skynjar ekki innra með sér eigið virði er ávallt svífandi í lausu lofti og ófær um að taka skynsamlegar og afgerandi ákvarðanir. Að öðlast skilning á þessu er mikilvægt skref í átt til sjálfshjálpar. Það er hægt að næra sjálfan sig, hugga og byggja upp heilbrigt tilfinningalíf að nýju.


Batinn


Með því að rýna í eigin bakgrunn og fjölskyldumynstur á uppvaxtarárum öðlast menn skilning á hvers vegna þeirra bregðast við með tilteknum hætti. Næsta skref er að rjúfa mynstrið og skapa sér sjálfstæða tilvist. En til þess að svo megi verða þurfum menn að vera tilbúnir að horfast í augu við erfiðar tilfinningar frá í æsku, fara í gegnum þær og vinna úr þeim. Margir meðvirkir einstaklingar koma út í lífið dofnir og hafa lært að bæla allar tilfinningar, taka ekki mark á eigin líðan því þeim var ýmist sagt að ekkert væri að þótt það væri augljóslega ekki rétt, eða hafnað sýndu þeir eðlileg tilfinningaleg viðbrögð. Sagt að hætta að væla eða vera ekki svona leiðinlegur og þar fram eftir götunum. Tilfinningar þeirra og líðan skiptu ekki máli og voru ekki þess virði að bregðast við.

Líklega hafa allir einhverja sögu af þannig viðbrögðum í æsku og það mikilvægt að þekkja afneitun, lágmörkun og bælingu. Slík viðbrögð geta verndað gegn sársauka en einungis tímabundið. Aðeins með því að horfast í augu við sannleikann og eigin raunveruleika er hægt að öðlast frelsi og bata. Tólf spora vinna getur verið mjög gagnleg í því ferli og Pia leggur upp í hendur lesenda sinna nokkur tæki og tól vel til þess fallin að taka fyrstu skrefin í átt að betra lífi. Það að læra að setja heilbrigð mörk er mikilvægt og grundvallarþáttur í batanum.  Bók Piu Mellody, Meðvirkni, orsakir, einkenni og úrræði, er mjög góð byrjun fyrir alla sem vilja skoða eigin hegðun og skilja hvort og hvernig þeir eru meðvirkir. Það er nokkuð víst að eftir að síðasta blaðsíðan hefur verið lesin munu menn ekki nota orðið meðvirkni á jafnléttúðugan hátt og þeir gerðu hugsanlega áður.

Kommentare


bottom of page