top of page

Ný stefna í áfengis- og vímuvörnum




Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að móta heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Stefnan á að taka til forvarna, meðferðar og eftirfylgni, endurhæfingar og lagaumhverfis. Jafnframt er gert ráð fyrir að hún taki mið af mismunandi þörfum ólíkra hópa. Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.


„Sú stefna sem unnið hefur verið eftir undanfarin ár er frá árinu 2013. Endurskoðun er því tímabær í ljósi margvíslegra breytinga sem orðið hafa á undanförnum árum, hvort sem litið er til samfélagslegra breytinga, viðhorfa til áfengis- og vímuefnavanda eða þekkingar á sviði forvarna og meðferðar. Ég vænti mikils af hópnum því þetta er mikilvægt samfélagslegt málefni og því brýnt að gera betur“ segir Willum Þór.


Heilbrigðisráðherra skipaði í september sl. starfshóp sem vinnur að stefnumótun á sviði skaðaminnkunar ásamt aðgerðaáætlun. Enn fremur var á liðnu ári samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga heilbrigðisráðherra um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og á grundvelli hennar stofnað geðráð, sem er samráðsvettvangur um geðheilbrigðismál. Í skipunarbréfi starfshóps um stefnumótun í áfengis- og vímuvörnum er lögð áhersla á tengsl þarna á milli, enda mikilvægt að tryggja samræmi við mótun stefnu og aðgerða á þessu víðfeðma og mikilvæga málefnasviði.

Starfshópurinn skal í störfum sínum hafa hliðsjón af vísindum, gagnreyndri þekkingu, klínískum leiðbeiningum og alþjóðlegum stöðlum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að stefnan taki mið af mismunandi þörfum hópa m.t.t. meðferðar við fíknisjúkdómum, s.s. ungmenna, kvenna, aldraðra, hinsegin fólks og einstaklinga með alvarlegan langvinnan fíknivanda. Þess er jafnframt vænst að starfshópurinn geri tillögur að aðgerðum til að framkvæma stefnuna ásamt kostnaðaráætlun.

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili heilbrigðisráðherra niðurstöðum sínum fyrir 1. september næstkomandi.


Starfshópinn skipa:

  • Kristín I. Pálsdóttir, tilnefnd af Rótinni, formaður starfshópsins.

  • Helga Sif Friðjónsdóttir, án tilnefningar, heilbrigðisráðuneyti .

  • Birna Sigurðardóttir, tilnefnd af félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

  • Kjartan Jón Bjarnason, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti.

  • Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, tilnefndur af mennta- og barnamálaráðuneyti.

  • Sveinbjörn Kristjánsson, tilnefndur af embætti landlæknis.

  • Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

  • Elías Guðmundsson, tilnefndur af Krýsuvíkursamtökunum.

  • Guðrún Dóra Bjarnadóttir, tilnefnd af Landspítala.

  • Ingunn Hansdóttir, tilnefnd af SÁÁ.

  • Starfsmaður hópsins er Andrea Jónsdóttir, heilbrigðisráðuneytinu.

  • Valdimar Þór Svavarsson, tilnefndur af Samhjálp

Comments


bottom of page