top of page

Niðurtröppun ávanabindandi lyfja - móttaka opnuð fyrir stuðning og eftirfylgd



Í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Íslands var sagt frá nýju frumkvöðlaverkefni um niðurtröppun ávanabindandi lyfja og opnun móttöku fyrir stuðning og eftirfylgt. Í fréttatilkynningunni segir:


Frumkvöðlaverkefni sem hófst í febrúar á þessu ári um nýja þjónustu fyrir einstaklinga sem vilja aðstoð við að hætta eða draga úr notkun ávanabindandi lyfja hefur verið útvíkkað með opnun móttöku fyrir þessa einstaklinga í Efstaleiti í Reykjavík. Heilbrigðisráðuneytið styrkir verkefnið sem byggir á samstarfi sprotafyrirtækisins Prescriby við spítala, heilsugæslustöðvar og apótek.


„Það er ánægjulegt að sjá niðurtröppunarverkefnið vaxa með þessum hætti. Langvarandi notkun sterkra, ávanabindandi lyfja eins og ópíóíða skerðir lífsgæði fólks og er skaðleg. Þetta nýsköpunarverkefni lofar góðu og stuðlar að bættu aðgengi fólks að mikilvægri þjónustu og dregur úr áhættu á notkun ávanabindandi lyfja“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.


Verkefnið grundvallast á notkun hugbúnaðarkerfis Prescriby sem hannað var af læknum, lyfjafræðingum og forriturum fyrirtækisins til að tryggja öruggari niðurtröppun meðferða með sterkum verkjalyfjum, róandi lyfjum og svefnlyfjum. Lagt var af stað með verkefnið sem tilraun til sex mánaða og áætlað að hægt væri að veita um 300 einstaklingum þjónustu á tímabilinu. Samstarfsaðilar hafa verið Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (tvær heilsugæslustöðvar), Heilsugæslan í Urðarhvarfi og Reykjanesapótek. Þjónustan er veitt á grundvelli tilvísana. 


Með opnun móttökunnar í Efstaleiti verður hægt að veita fleirum þjónustu en áður. Samstarfsaðilum hefur einnig verið fjölgað með áherslu á að gera þjónustuna aðgengilegri fyrir þá sem hennar þurfa með. Þetta getur t.d. átt við sjúklinga sem hafa þurft að nota sterk verkjalyf í kjölfar liðskiptaaðgerða, hryggspenginga og fleiri aðgerða þar sem markviss einstaklingsbundin áætlun og eftirfylgni við að draga úr og hætta notkun lyfjanna getur skipt sköpum. Einnig getur móttakan stutt við apótek sem taka þátt í niðurtröppun og umsjón áðurnefndra lyfja og hjálpað þeim að setja upp slíka þjónustu og má þar nefna góða reynslu af samstarfi við Reykjanesapótek. Að verkefninu koma nú einnig bæklunardeildir á Landspítala, Klíníkinni og fleiri stofnunum. Á móttökunni er boðið upp á viðtöl, símaviðtöl og reglulega eftirfylgni meðan einstaklingur er í meðferð. Þetta er samstarf klínískra lyfjafræðinga og lækna sem sérhæfa sig í niðurtröppun ávanabindandi lyfja með notkun forritsins Prescriby.


Við upphaf meðferðar er tekið greiningarviðtal við hlutaðeigandi einstakling og útbúin persónusniðin meðferðaráætlun sem tekur mið af notkun hans á þeim lyfjum sem til stendur að trappa niður og áætlun um hvernig það verður gert. Áætlunin er skráð í smáforrit sem einstaklingurinn hefur aðgengi að í símanum sínum auk fræðslu og stuðnings. Forritið gerir meðferðaraðila kleift að fylgjast með meðferðarheldni skjólstæðings og bregðast við eftir þörfum.


Verkefnið er liður að því að koma á öryggisstaðli til að tryggja sem öruggasta meðferð þegar ávanabindandi lyf eru notuð í læknisfræðilegum tilgangi.

 

1 Comment


Samhjálp hjálpar á kristilegum grunni við áfengis og lyfjameðferð.

Like
bottom of page