top of page

Normalísering áfengisdrykkju




Á norrænni ráðstefnu um áfengi og lýðheilsu sem Heilbrigðisráðuneytið hélt í samvinnu við Embætti landlæknis á Grand hótel Reykjavík 19. september flutti Steingerður Lóa Gunnarsdóttir erindi eftir Gunnar Hersveinn heimspeking og föður sinn. Ráðstefnan fór fram á ensku og bar yfirskriftina Alcohol and Public Health in the Nordics. Við hjá Samhjálp hrifumst af hnitmiðuðu orðalagi erindisins og fengum því leyfi til að birta það. Hér á eftir fer texti Gunnars Hersveins:


Frá árinu 1995 hefur hlutfall þeirra unglinga á Íslandi sem höfðu smakkað áfengi farið úr um það bil 80% niður í rúm 25% og hlutfall þeirra sem höfðu orðið mjög drukkin einnig snarlækkað og hlutfall unglinga sem drukku mjög oft farið úr 14% niður í tvö %.

Árangurinn má þakka forvörnum og samtakamætti foreldra og skólafólks. Þessi árangur er nú í hættu. Tilslökun á aðgengi og glansmyndir í markaðssetningu geta þurrkað út góðan árangur á nokkrum árum. Það eru teikn á lofti sem ég ætla að gera grein fyrir í þessu erindi. Byrjum á frelsishugtakinu.





Um frelsi


Raunverulegt frelsi felst í því lifa frjáls frá e-u og frjáls til að geta gert e-ð, vera laus undan oki og ánauð. Ekki til að geta gert hvað sem er gagnvart hverju og hverjum sem er hvenær sem er, heldur líka til að efla sjálfsaga og geta sett sér skynsamleg mörk.

Hinn frjálsi markaður sem selur vörur eins og áfengi, líkt og um svaladrykk sé að ræða, heftir á endanum frelsi einstaklingsins. Neytandinn verður háður efni sem er auglýst með beinum og óbeinum glans-auglýsingum sem gleðigjafi við alls konar tilefni; brúðkaup, afmæli, vinamót, útskrift, eftir vinnu, til að slaka á, eftir erfiðan dag, eftir að verkefni er lokið, eftir að eiga það skilið, til að fagna og til að syrgja.


Þar sem það er staðreynd að alkóhól er ávanabindandi efni, þá lýkur þessu með því að frelsið víkur fyrir þeirri ánauð að þurfa að drekka oftar og meira.


Hugtakið frelsi breytist oft við notkun í klisju, aðallega vegna þess að það er misnotað til að réttlæta hvaðeina. Fólk ofmetur líka rétt sinn til að gera, segja og eiga eitthvað. Það gleymir að taka tillit til annarra. Alkóhól eykur ekki frelsi heldur dregur úr viljamætti og dómgreind, það takmarkar frelsi til að hugsa og taka heillavænlegar ákvarðanir. Frjálshyggjumaður sem boðar frelsi til að kaupa áfengi hvarvetna misskilur frelsishugtakið og samhengið alvarlega.

Takmarkalítið verslunarfrelsi til að kaupa áfengi dregur um leið úr frelsi í fjölskyldum og í samfélaginu, það eykur líkur á ofbeldi, röngum ákvörðunum, slysum, og fyllir sjúkrahúsin af sjúklingum. Töluvert takmarkað aðgengi að áfengi er því ákjósanlegt.


Skuggahliðin á bak við verslunarfrelsi með áfengi er augljós, einföld og margsönnuð: aukið aðgengi, aukin neysla, fleiri veikjast og deyja, fleiri vandamál fyrir fjölskyldur og dýrara heilbrigðiskerfi. Einfaldlega vegna þess að áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf.

Það er réttur barna að búa í farsælu umhverfi, það veitir þeim frelsi. Mikilvægt er að hafa taumhald á markaðsöflunum, því þau virða ekki farsæld barna né þá staðreynd að áfengissýki er fjölskyldusjúkdómur og að meðvirkni í fjölskyldum er líka sjúkdómur sem þarf að hafa í huga.

Markaðurinn er gildislaus, þar er enga umhyggju að finna eða góðvild, heldur skeytingarleysi um farsæld og við verðum því að treysta á löggjafann sem hefur völd og tækifæri til að takmarka aðgengi.


Viðmiðin í samfélaginu snúast um að skapa börnum heilnæmt líf og heilbrigð lífskilyrði. Þar liggur þeirra frelsi og framtíð. Stjórnarráðið og sveitarfélögin vinna eftir Heimsmarkmiðum Sameinu þjóðanna. Þar segir að eflda eigi forvarnir og meðferð vegna misnotkunar vímuefna, þar á meðal fíkniefna og áfengis. Gerum það!


Sókn eftir áfengi getur valdið óhamingju. Áfengi er skaðlegt heilsu þeirra sem neyta þess, fjölskyldum þeirra og aðstandendum. Það er bæði sýnt og sannað. Það er í raun ótrúlegt hve slæm áhrif alkóhóls eru miðað við vinsældir þess og hve mikil áhætta fylgir drykkjunni.

„Sérhver manneskja er borin frjáls og jöfn öðrum að virðingu og réttindum“. Við öll höfum rétt til að verða frjálsar manneskjur í samfélaginu. Eftir fæðingu er þetta síðan spurning um aðstæður í fjölskyldunni, landinu og jöfnum tækifærum til að viðhalda frelsinu af ábyrgð.





Um vínmenningu


Vínmenning í samfélagi byggist á siðum og reglum þar sem vín er haft við hönd. Rætur vínmenningar felast í þeirri mýtu að áfengi sé nauðsynlegt til að skapa góða stemningu, hvort sem er fjör eða afslappað andrúmsloft.

Víndrykkja er almenn í samfélaginu og hvarvetna er boðið upp á áfengi. Alkóhól er vissulega eitur en þrátt fyrir það er það iðulega notað til að fagna áföngum og því er deilt óspart í boðum og veislum. Vínmenningin í þessari veröld hefur aldrei verið án vandræða, og örugglega skapað meiri óhamingju en gleði.


Um leið og stigið er inn í veislu eða fögnuð er vín borið fram á silfurbökkum í töluverðu úrvali; freyðivín, hvítvín, rauðvín og bjór. Iðulega eru glös gesta fyllt aftur um leið og þau tæmast og í matarboðum og í steggjun er boðið upp á staup af sterku inn á milli rétta.

Hvers vegna er fólk svona spennt yfir drykkjuveislum?


Fyrsti drykkurinn getur vissulega verið (of) mörgum ljúfur í munni og veitir spruðlandi snögga vellíðan og vandasamt getur verið að neita öðru glasi, en þegar því hefur verið komið til skila, er fátt sem hindrar þriðja glasið og eftir það hefur vínið oftast tekið völdin. Orðatiltækið sem lýsir þessu hefur verið kennt við írska siði og japanska og rithöfunda eins og F. Scott Fitzgerald og Sinclair Lewis: „First you take a drink, then the drink takes a drink, then the drink takes you.“ Það er góð lýsing.


Drykkurinn vekur löngun í meira, alveg eins og sætindi kalla á næsta mola hjá börnum og sælkerum, en gallinn er að alkóhól er ávanabindandi eitur og neyslan getur endað með ferð á salernið til að kúgast og sleni höfuðverk daginn eftir.


Drykkjumenning Íslendinga felur í sér gömul gildi eins og að dæma gestgjafann góðan eða lélegan eftir þeim vínföngum sem hann ber fram. Hann þarf að veita og vínið má ekki klárast, skortur á víni er til skammar. Ef hann sér til þess að glösin verði aftur og aftur barmafull, þá fær hann góða dóma.


Víndrykkja í brúðkaupsveislum á sér árþúsunda gamla sögu. Fyrsta kraftaverkasagan sem Jesú er kenndur við fjallar einmitt um vín í brúðkaupi þar sem drykkir kláruðust of fljótt, sennilega vegna þess að Jesú kom til veislunnar með of marga lærisveina með sér. Móðir hans biður hann um að bæta snarlega úr þessu. Hann svarar „Minn tími er ekki enn kominn.” Hún lætur ekki segjast og skipar þjónum koma með sex steinker. Jesú lét fylla þau af vatni sem hann breytti síðan í vín. Hvernig sem hann fór að því, þá opinberast hefðin fyrir því að í veglegum veislum þurfi alltaf að vera til vín.


Sama gilti öldum síðar uppi á Íslandi, sem má lesa um í Íslendingasögum og ýmsum rituðum heimildum og endurminningum um brúðkaup.


Þola Íslendingar meira áfengi en aðrar þjóðir? Til er mýta sem er sótt í fornan menningararf um að svo sé og einnig er ofdrykkjumönnum gjarnan hampað í sögunni. Egill Skallagrímsson var nánast dýrkaður á Íslandi sem karlmaður, enginn á neitt í hann í bardaga, hann yrkir betur en allir aðrir og getur bæði drukkið og ælt meira en aðrir. Ofdrykkja og karlmennska eru þá tengd saman í einhvers konar„víkingaeðli“ en víkingar gátu samkvæmt þjóðsögunni drukkið hvern þann undir borðið sem vera vildi.


Það er því ákveðin söguleg hefð og jafnvel leyfi gefið fyrir því að íslenskir karlmenn geti orðið töluvert ölvaðir án þess að þurfa að skammast sín fyrir það. En íslenskar konur? Karlar drukku víst brennivín og konur messuvín eða púns samkvæmt heimildum.

En nútímakonan þarf að takast á við fagurgala markaðsaflanna. Eitt lítið dæmi sem beint er að þeim er Proseccohlaupið sem er árlegt sumarkjóla- og freyðivínshlaup þar sem víninnflytjendur mæta í skrúðgarð Elliðaárstöðvar til að kynna sína vöru. Hlaupið er ræst klukkan átján og skokkaðir rúmir fimm km í Elliðaárdalnum. Fjöldi kvenna mættir með freyðivínsglas og skálar í öllum tegundum af freyðivíni.





Staðan


Á Íslandi er vínsala auglýst á netinu og hægt að gerast áskrifandi að víni og fá það sent samdægurs heim að dyrum. Auglýsendur eru óhræddir að búa til orðaleiki til að fara í kringum bannið um að auglýsa áfengi á Íslandi í opinberu rými. Rannsóknir sýna þó að vínpöntun á Netinu sem er afhent samdægurs skaðar samfélagið og dregur úr heimilishamingjunni.  

Alþjóðaheilbrigðistofnunin WHO hefur hvatt ríki í Evrópu til að draga úr heildnotkun áfengis um 10% á næstu tveimur árum með öllum tiltækum ráðum. Hvernig ætlar Ísland að standa að því?

Meirihluti Alþingis Íslendinga er ekki að vinna að því markmiði af heilum hug og í síðasta mánuði samþykkti flokksráð Sjálfstæðisflokksins að unnið yrði að því að: „Leggja á niður ÁTVR og leyfa einkaaðilum smásölu áfengis í sérverslunum.“


Frá áramótum hef ég fylgst stíft með og tekið þátti í forvarnarstarfi í áfengismálum, oft með því að greina frumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi. Nú ætla ég að leggja út af nokkrum frumvörpum í þessum málaflokki og þeim anda sem þar má greina. Ekki er verið að leita að leiðum til að draga úr heildarnotkun á áfengi á landinu – heldur að því að auka aðgengi.


Oftlega má greina góðan hug og stuðning við lýðheilsu og farsæld barna í orði, en þeim orðum fylgir ekki alltaf ábyrgð eða fé, heldur má fremur greina skeytingar- og skilningsleysi hjá hluta þingmanna. Það er slæmt þegar þingmenn og annað fólk trúir kenningum blint um frjálsa verslun fremur en reynsluvísindum og niðurstöðum rannsókna. En hvað eru alþingismenn að hugsa um þessi misserin?


Áformað er til dæmis á Alþingi að leggja fram frumvarp um „Afnám banns við heimabruggun á áfengi til einkaneyslu“ – það hljómar saklaust og í samræmi við frjálslynda frelsishugsjón tíðarandans. En í þessari gjörð má einnig greina algjöran skort á innsæi í líf og farsæld barna, en börn, en ekki vínsölumenn, eru meginviðmið þegar skapa skal farsælt samfélag,.

Frumvarpið gengur einnig þvert á stefnu ríkisins í áfengis- og vímuvörnum að:

·      takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.

·      vernda viðkvæma hópa eins og börn fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.

·      draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi.


Fjöldi fólks, sjálfboðaliðar og heilbrigðisstofnanir vinna hörðum höndum að forvörnum og lækningum á fíkniefnaröskun. Takmarkað aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum og minni sýnileiki er margsannaður veigamikill þáttur í forvörnum vegna áfengisneyslu. En neysla á áfengi er í fimmta sæti á lista 25 áhættuþátta dauðsfalla og sjúkdóma. Sú staðreynd er ekki tæk sem rök fyrir það að losa um taumanna.


Það virðist þrátt fyrir það ekki vera gild staðreynd í augum allra. Frumvarpið opnar nefnilega fyrir ný tækifæri hagsmunaaðila og markaðssetningu söluaðila til að innleiða bruggunartæki á heimilum barna. Líkur á drukknum foreldrum aukast augljóslega en það hefur skaðleg áhrif á fjölskyldulífið og getur eyðilagt framtíð fleiri barna en nú er. Hvaða velferð og hverra, er dómsmálaráðuneytið að hugsa um?


Almennt er viðurkennt að farsæld barna sé besta viðmiðið þegar þýðingarmiklar ákvarðanir eru teknar. En frumvarpið mun augljóslega hafa verulega slæmar afleiðingar og opna fyrir meiri drykkju á heimilum, sem er í andstöðu við það barnvæna samfélag sem opinberlega er stefnt að.


Eða til hvers að auka frelsi þeirra sem hafa allt sem hugurinn girnist, núþegar?

Dómsmálaráðherrarar undanfarinna ára vilja einnig í nafni verslunarfrelsis breyta áfengislögum til að heimila að starfrækt sé vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda. Slík frjálshyggja flokkast undir kalt skeytingarleysi og að vera sama um velferð barna. Gildislaus markaður getur bara alls ekki verið barnafjölskyldum hagstæður – alls ekki.


Ég hef einnig fylgst með frumvarpi um að leyfa Vínbúðum að hafa opið á sunnudögum, það er afar illa rökstutt og auðvitað í mótsögn við velferð og farsæld barna. Þess má geta að það er núþegar opið til 18 á laugardögum í Vínbúðum og til 20 öll kvöld á mörgum sölustöðum.

Margar stakar fréttir hafa verið skrifaðar um málið en engin fréttaskýring þar sem farsæld barna kemur við sögu, aðeins tönglast á verslunarfrelsi. Fjölmiðlar á Íslandi hampa greinilega verslunarfrelsi á kostnað lýðheilsusjónarmiða og farsældar almennings.


ÁTVR er ekki beint hrifið af frumvarpinu um að selja áfengi á sunnudögum í Vínbúðum og skrifar „ÁTVR bendir þó á að ekki verði séð að metin hafi verið áhrif þess á hugsanlega aukningu á áfengisneyslu og lýðheilsu.“ En það er ónefnt að áhrif af slíkri breytingu hefur verið metin í öðrum löndum eins og til dæmis Finnlandi. Dregið hefur úr áfengisneyslu í Finnlandi, ástæðan er meira aðhald og strangari áfengisstefna en áður. Landlæknir í Finnlandi segir að það megi alls ekki afnema þær hindranir sem eru til staðar, þá myndi neyslan strax þjóta upp aftur. Þar vilja hægri flokkar leyfa sölu á víni í matvöruverslunum og söluturnum.


Í frumvarpi hægrimanna á Alþingi frá því í mars, um breytingar á ýmsum lögum varðandi aldursmörk, frá stendur meðal annars „Breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak“. „Í stað orðanna „20 ára“ kemur: „18 ára.““ Markmiðið er greinilega meðal annars að stækka kúnnahópinn fyrir söluaðila áfengis. Ekki er hægt að greina neinar áhyggjur af lýðheilsu landans. Eða hvernig getur þessi breyting dregið úr heildarnotkun áfengis um 10% á tveimur árum?

Frumvarpið um vínsölu ÁTVR á helgidögum snarfellur á lýðheilsuprófinu, það fær falleinkunn og háðulega útreið í umsögnum. Frummælendur þess leggja til að slakað verði á áfengislögum en vilja um leið stórefla forvarnir í leiðinni. Þetta er hrein sóun á almannafé, að mínu mati, því að stundum eru boð og bönn og mörk í lögum og reglugerðum ein allra besta forvörnin.


Í umræðu á Alþingi um frumvarpið kom fram sú skoðun að það þyrfti að slaka enn meira á og selja áfengi í matvöruverslunum og leyfa áfengisauglýsingar í fjölmiðlum. Á meðan WHO brýnir fyrir þjóðum að herða tökin í stað þess að slaka á, þá er vilji meðal stjórnarþingmanna á Alþingi Íslendinga til að slaka verulega á í nafni verslunarfrelsis. Þrátt fyrir að: „Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf,“ eins og segir í einni umsögn um frumvarpið. Þessir þingmenn kunna ekki að gera greinarmun á mjólk og alkóhóli.


Hvað segja þau sem búa yfir fagþekkingu á fleiru en verslunarfrelsi og kunna að setja hlutina í samhengi? „Félag lýðheilsufræðinga harmar frumvarp til laga um afnám opnunarbanns á frídögum,“ segir í umsögn lýðheilsufræðinga og hvetur ríkisstjórnina til að grípa til aðgerða til að draga úr þeim skaða sem áfengi veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum. Félagið bætir við að á lista yfir 10 aðgerðir sem stungið er upp á hjá WHO er meðal annars að takmarka aðgengi að áfengi með:

·      Ríkiseinokunarverslun sem stýrist af lýðheilsusjónarmiðum.


Félag lýðheilsufræðinga heldur áfram „Aðgengi almennings að áfengi er almennt gott hér á landi og má draga þá ályktun að það séu fyrst og fremst söluaðilar sem hafa að hagsmunum að gæta sem hagnist á þessari lagabreytingu á kostnað viðkvæmra hópa, þeirra sem verst eru settir og hafa minnsta stjórn á neyslu sinni.“


Í greinagerðinni með frumvarpinu stendur að vitskuld þurfi að stórauka forvarnir ef það verður samþykkt. Hvers vegna? Vegna þess að aukið aðgengi merkir meiri neyslu, og fleiri veikjast. Skaðleg áhrif alkóhóls eru til dæmis eitrun í heila vegna lifrarskemmda, skemmdir á litla heila, geðtruflanir, svefntruflanir, taugaskemmdir, auknar líkur á heilablóðfalli, krabbameini osfrv. Er þá ekki árangursríkast og hagkvæmast og best fyrir börnin, að slaka ekki á þeim takmörkunum aðgengis sem eru til staðar?





Meðvirkni er vanmetinn fjölskyldusjúkdómur


Athyglisvert er að vísað er oftast í frelsishugtakið í greinargerðum um breytingar á áfengislögum en ekki í rannsóknir um velferð, lýðheilsu og heilnæmi skilyrði fyrir börn. Spyrja má: Hefur verslunarfrelsi hinna fáu meira vægi en lýðheilsa heillar þjóðar?

Neysla áfengis er ekki einkamál. Áfengi skaðar ekki bara neytandann, heldur líka aðra einstaklinga og samfélagið allt. Í fjölmiðlinum Heimildin í maí 2023 eru viðtöl við aðstandendur fíkla út frá meðvirkni og rætt við dr. Jónu Margréti Ólafsdóttur lektor í félagsráðgjöf við HÍ um rannsóknir hennar. Aðstandendur þurfa, að hennar mati, nauðsynlega að fá faglega aðstoð, það hefur bæði forvarnargildi og eykur lífsgæði þeirra og barna næstu kynslóða. Hvar er frumvarp í þá áttina? Áfengissýki er fjölskyldusjúkdómur, og meðvirknin er líka sjúkdómur sem kallar á athygli. Það er réttur barna að búa lifa í farsælu umhverfi.


Fyrir utan álagið sem áfengissjúklingar skapa fyrir heilbrigðiskerfið þá þurfa aðstandendur þeirra oft einnig á meðferð að halda vegna þunglyndis, kvíða, vefjagigtar, mígrenis, magasára og andlegra veikinda. Er það réttlætanlegur fórnarkostnaður fyrir víðtækt verslunarfrelsi með áfengi?

Það má því alls ekki slaka á í þessum efnum, ástæðan er sú að ákefð fullorðinna í áfengi virðist vaxa með árunum og hefur á Íslandi farið úr 4,5 lítra árið 1988 í 8 á kjaft árið 2022. Er ástæða til að bæta aðgengið? Nei, alls ekki!


Aukið aðgengi og betri þjónusta á markaði fyrir kaupendur áfengis er, að mínu mati, skaðleg fyrir samfélagið í ljósi almannaheilla sem alþingismenn eiga að alltaf taka mið af. Höfnum slíkum ráðagerðum!


Hlustum fremur á þau sem vita hvernig byggja á upp farsæld barna í samfélaginu.

Frumvörpin sem ég hef rætt um eru öll ennþá til meðferðar á Alþingi Íslendinga og verða væntanlega til umræðu í vetur, þau eru lögð fram aftur og aftur. Ef til vill bætist líka við frumvarp um að leggja Áfengisverslun ríkisins niður og fela einkaaðilum smásölu í sérverslunum. Frumvörpin eru öll lögð fram af stjórnarþingmönnum eða ráðherrum í ríkisstjórn, framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum.

·      Er æskilegt að lengja opnun Vínbúða? Nei alls ekki!

·      Er æskilegt að lækka aldursmörk við vínkaup? Nei alls ekki!

·      Er farsælt að lögleiða brugg á áfengi á heimilum? Nei alls ekki!

·      Er sniðugt lögleiða vínsölu á Netinu? Nei alls ekki!

Spurningin sem óneitanlega vaknar er: Ætlar meirihluti alþingismanna að taka áskorun WHO um að því að vinna að því að draga úr neyslu áfengis í landinu um 10% eða bera þessi frumvörp merki um að vilji sé til að auka neysluna um 10%?

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur.

Steingerður Lóa Gunnarsdóttir er leikjahönnuður og sérfræðingur í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík

Bình luận


bottom of page