Margvísleg málefni hafa verið tekin til umræðu í Opnu samtali og oft skapast gefandi umræður sem verða kveikja að hugmyndum og nýsköpun.
Fjörugar umræður um hlutverk og stöðu góðgerðafélaga í samfélaginu áttu sér stað á Borgarbókasafninu í gær. Samhjálp og Borgarbókasafnið gengust fyrir Opnu samtali um þetta málefni og ótalmargt áhugavert kom fram, meðal annars að sú þjónusta sem góðgerðafélög veita er einstök og að án efa skapaðist fljótt neyðarástand ef þau hættu öll starfi sínu í einu.
Stuðningur félagasamtaka í dag snertir á grunnréttindum fólks til mannsæmandi lífs. Það getur verið erfitt skref að þiggja slíka þjónustu. Rætt var hversu mikilvægt væri að slíkur stuðningur væri veittur á réttum forsendum og byggi á virðingu fyrir einstaklingum og sjálfsákvörðunarrétti hvers og eins. Oft væru óháð félagasamtök sérstaklega mikilvæg brú milli hins opinbera og einstaklinga í viðkvæmum stöðum.
Forsvarsmenn félaganna, sem voru á staðnum, voru sammála um að tryggja þyrfti fjárhagslegan grundvöll starfseminnar. Það væri erfitt og dýrt að geta ekki gert áætlanir til langs tíma og vita jafnvel ekki frá ári til árs hvort hægt væri að sinna þeim brýnu verkefnum sem átakanleg þörf væri fyrir. Í núverandi kerfi hefðu einstaklingar of mikil áhrif á hvaða starfsemi væri styrkt og hvaða ný starfsemi fengi brautargengi.
Nokkrar hugmyndir komu fram um hvernig bæta mætti kerfið og gera félagasamtökum auðveldara fyrir. Ein þeirra var samfélagssjóður sem úthlutað væri úr eftir því hversu margir væru í þörf fyrir þá úrlausn sem góðgerðafélagið veitir. Einnig var talað um að forsvarsmenn góðgerðaþjónustu þyrftu á móti að sýna ábyrgð og árangur af starfseminni auk þess sem staðtölur um raunverulega þörf fyrir þjónustuna þyrftu að vera til staðar í raun og sann.
Enginn vafi leikur á að góðgerðasamtök veita verðmæta þjónustu. Þau fylla upp í göt sem óhjákvæmilega myndast því engin opinber stofnun getur aðlagað og klæðskerasniðið verkefni sín að einstaklingum á sama hátt og góðgerðafélög. Innan raða þeirra fer fram skapandi og dýrmæt nýsköpun og þau verðmæti sem þau skila til samfélagsins langt umfram þann kostnað sem það hefur af rekstri þeirra. Umræðurnar snérust einnig um mikilvægi þess að hafa virkan vettvang fyrir fólk sem starfar að góðgerðamálum til að styrkja samtal og samvinnu.
Samfélagsleg verkefni skapa gjarnan keðjuverkun góðra áhrifa. Af þeim má læra nýjar aðferðir, aukna nýtni og skapandi leiðir til að leysa flókin samfélagsleg vandamál. Þau veita einnig þegnum samfélagsins færi á að gefa til baka, búa til tækifæri til að setja sig í spor annarra, rjúfa félagslega einangrun og skapa vettvang til samtals um málefni sem annars lægju í láginni.
Húsnæði er eitt af stóru málunum og það sem flest góðgerðafélög þurfa að hafa mest fyrir að tryggja. En það er nauðsynlegt að í almannarýmum sé aðstaða til að tala saman, skapa vettvang fyrir skoðanaskipti og gefa borgurunum færi á að tjá sig líka um vandamál sín og leita sér hjálpar. Í dag eru það helst sundstaðirnir sem gegna þessu hlutverki auk bókasafnanna. Opið samtal Borgarbóksafnsins er tilraun til að skapa lýðræðislegt samfélagsrými og veita færi á opinni gagnrýnni umræðu um þjóðfélagsmál. Borgarbókasafnið í Grófinni gaf þeim sem mættu á Opið samtal um hlutverk góðgerðasamtaka í lýðræðissamfélagi tækifæri til að skerpa hugmyndir sínar um hlutverk og stöðu slíkra félaga í samfélaginu.
Комментарии