„Þetta var svo hlýtt, notalegt og fallegt samfélag. Í hópnum voru alls konar konur. Konur sem störfuðu hjá Samhjálp, konur sem sóttu samkomurnar, konur úr Hvítasunnusöfnuðinum og konur sem höfðu farið í gegnum ótalmargt og glímt við fíkn.“ Í framhaldi af því að ég fór á samkomur buðu Gunnbjörg og Ásta Jónsdóttir mamma hennar mér að koma á Dorkas-fund. Þeir voru haldnir einu sinni í mánuði og það sem ég upplifði þar hafði djúp áhrif á mig. Þetta var svo hlýtt, notalegt og fallegt samfélag. Í hópnum voru alls konar konur. Konur sem störfuðu hjá Samhjálp, konur sem sóttu samkomurnar, konur úr Hvítasunnusöfnuðinum og konur sem höfðu farið í gegnum ótalmargt og glímt við fíkn. Ásta var líka eins og mamma okkar allra sem tókum þátt í þessu starfi, ráðagóð og hlý. Þarna voru konur sem höfðu verið í fangelsi, verið heimilislausar og lent í miklum hremmingum. Þær gáfu svo mikið af sér. Það eru þessar sigursögur sem hvetja mig áfram í starfi. Það er svo mikilvægt að missa aldrei sjónar á því að við megum aldrei gefast upp á nokkurri manneskju. Við lásum saman upp úr Biblíunni og svo voru vitnisburðir og fyrirbænir. Ég segi alveg fullum fetum að þarna lærði ég fyrst að biðja upphátt með öðrum. Margt gott og gagnlegt lærði ég í guðfræðinni sem mér þykir ákaflega vænt um en að biðja upphátt fyrir öðrum lærði ég í Samhjálp. Það hefur reynst mér ákaflega vel í öllu mínu starfi. Ég fann að þetta var ekki neitt yfirnáttúrulegt eða skrýtið heldur bara opið samtal við Guð, að biðja fyrir öðrum og fá fyrirbænir. Það hefur borið mig í gegnum starfið alla tíð.“
top of page
bottom of page
Comments