Frá upphafi hefur Samhjálp notið þess að hjá samtökunum hefur unnið fólk rekið áfram af hugsjónaeldi og mannkærleika. Sesselja Inga Guðnadóttir var fyrsti starfsmaður Kaffistofu Samhjálpar þegar hún opnaði árið 1981. Samhjálp þakkar Sesselju Ingu vel unnin störf, velvild og tryggð í gegnum árin. Hér á eftir fylgir minningargrein sem fyrrum forstöðumenn Samhjálpar skrifuðu um Sesselju Ingu og birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi Óla Ágústssonar og Ástu Jónsdóttur:
Nú er hún fallin frá, þessi dýrmæti samhjálparvinur, Inga Guðna, eins og hún hét okkar á milli. Markús eiginmaður hennar hringdi að morgni og tilkynnti andlátið. Hún lést á Landspítalanum eftir langa glímu við krabbamein.
Inga var einn af Samhjálparvinunum í meira en fjörutíu ár. Trygg og traust. Sagði gjarnan að hún ætti góðan vin í Jesú. Við töluðum þannig um Jesúm. Eins og hann væri einn af okkur. Hjá okkur. Alltaf nálægur. Hann var frelsarinn okkar. Við áttum það sameiginlegt.
Saga Ingu minnti á frásögu Jóhannesar guðspjallamanns um konuna við Jakobsbrunninn. Vegmóður settist Kristur hjá brunninum og tók að ræða við konuna. Samtalið varð til þess að konan sannfærðist um frelsarann. Þannig breytist líf margra. Blíðlega laðandi. Og líf Ingu Guðna breyttist við þau kynni.
Ásta og Inga voru kærar vinkonur frá fyrstu kynnum. Þær hittust og heyrðust reglulega öll árin. Inga tók virkan þátt í starfi Dorkasar, félagsskapar kvenna sem Samhjálparkonur stofnuðu til að rækta trú sína, rækta frelsi og vinskap um langt árabil. Það var þá. Kærleikur og trúarelska var einkenni kvennanna. Þá var hún einnig fyrsti starfsmaður Kaffistofu Samhjálpar í Hverfisgötu 42.
Í síðustu heimsóknum Ástu á Landspítalann sá hún að hverju stefndi. En Inga hélt fast í vonina um að komast í hitann á Spáni. Hitinn þar dró úr líkamlegri vanlíðan hennar. Kannski hélt hún í lífsvonina þótt hún, innst inni, vissi að hverju stefndi. Þær áttu góða samverustund daginn fyrir andlátið. Þá sat Inga uppi og puntaði sig, klædd bleikri skyrtu og með rúllur í hárinu. Kallið kom morguninn eftir.
Með þessum fátæklegu orðum minnumst við Sesselju Ingu Guðnadóttur með þakklæti. Hún var ein af hetjunum. Við vottum Markúsi eiginmanni hennar, börnum þeirra og fjölskyldum einlæga samúð.
Óli Ágústsson, Ásta Jónsdóttir.
Comments