top of page

Samhjálp kveður traustan vin


Frá upphafi hefur Samhjálp notið þess að hjá samtökunum hefur unnið fólk rekið áfram af hugsjónaeldi og mannkærleika. Sesselja Inga Guðnadóttir var fyrsti starfsmaður Kaffistofu Samhjálpar þegar hún opnaði árið 1981. Samhjálp þakkar Sesselju Ingu vel unnin störf, velvild og tryggð í gegnum árin. Hér á eftir fylgir minningargrein sem fyrrum forstöðumenn Samhjálpar skrifuðu um Sesselju Ingu og birtist í Morgunblaðinu í dag. Greinin er birt með góðfúslegu leyfi Óla Ágústssonar og Ástu Jónsdóttur:


Nú er hún fall­in frá, þessi dýr­mæti sam­hjálp­ar­vin­ur, Inga Guðna, eins og hún hét okk­ar á milli. Markús eig­inmaður henn­ar hringdi að morgni og til­kynnti and­látið. Hún lést á Land­spít­al­an­um eft­ir langa glímu við krabba­mein.


Inga var einn af Sam­hjálp­ar­vin­un­um í meira en fjöru­tíu ár. Trygg og traust. Sagði gjarn­an að hún ætti góðan vin í Jesú. Við töluðum þannig um Jesúm. Eins og hann væri einn af okk­ur. Hjá okk­ur. Alltaf ná­læg­ur. Hann var frels­ar­inn okk­ar. Við átt­um það sam­eig­in­legt.

Saga Ingu minnti á frá­sögu Jó­hann­es­ar guðspjalla­manns um kon­una við Jak­obs­brunn­inn. Veg­móður sett­ist Krist­ur hjá brunn­in­um og tók að ræða við kon­una. Sam­talið varð til þess að kon­an sann­færðist um frels­ar­ann. Þannig breyt­ist líf margra. Blíðlega laðandi. Og líf Ingu Guðna breytt­ist við þau kynni.


Ásta og Inga voru kær­ar vin­kon­ur frá fyrstu kynn­um. Þær hitt­ust og heyrðust reglu­lega öll árin. Inga tók virk­an þátt í starfi Dorkas­ar, fé­lags­skap­ar kvenna sem Sam­hjálp­ar­kon­ur stofnuðu til að rækta trú sína, rækta frelsi og vin­skap um langt ára­bil. Það var þá. Kær­leik­ur og trúar­elska var ein­kenni kvenn­anna. Þá var hún einnig fyrsti starfsmaður Kaffi­stofu Sam­hjálp­ar í Hverf­is­götu 42.

Í síðustu heim­sókn­um Ástu á Land­spít­al­ann sá hún að hverju stefndi. En Inga hélt fast í von­ina um að kom­ast í hit­ann á Spáni. Hit­inn þar dró úr lík­am­legri van­líðan henn­ar. Kannski hélt hún í lífs­von­ina þótt hún, innst inni, vissi að hverju stefndi. Þær áttu góða sam­veru­stund dag­inn fyr­ir and­látið. Þá sat Inga uppi og puntaði sig, klædd bleikri skyrtu og með rúll­ur í hár­inu. Kallið kom morg­un­inn eft­ir.

Með þess­um fá­tæk­legu orðum minn­umst við Sesselju Ingu Guðna­dótt­ur með þakk­læti. Hún var ein af hetj­un­um. Við vott­um Markúsi eig­in­manni henn­ar, börn­um þeirra og fjöl­skyld­um ein­læga samúð.


Óli Ágústs­son, Ásta Jóns­dótt­ir.

 

Comments


bottom of page